4.7.2012 | 08:43
Lifað í óreglu.
Nú eru að verða liðnir tveir mánuðir frá síðasta bloggi mínu í hinum bráðskemmtilega og sjálfhverfa greinaflokki sjúkrasögur Gunnars. Einhverjir hafa ákveðið að líta á þetta sem framhaldssögu sem beri að fylgja eftir með framhaldi. Því bætist nú við framhald.
Þegar frá var horfið í síðasta pistli var ég að stíga uppúr einhvers konar þunglyndi og sjálfsvorkun. Blóðþynningin hafði gengið illa og ég þurfti að byrja uppá nýtt rafvending ekki fyrirsjáanleg fyrr en í fyrsta lagi eftir 3 vikur þaðan í frá. Það er skemmst frá því að segja að þessi blessaða blóðþynning hefur haldið áfram að ganga illa. Ég fæ eina góða mælingu en er síðan dottinn niður fyrir mörkin í þeirri næstu. Svona hefur þetta haldið áfram viku eftir viku. Það er þó eftirtektarvert að ég hef í tvígang fengið mjög góðar mælingar, verið langt yfir mörkum og orðið bjartsýnn á að nú færi þetta að ganga. Það sem er sammerkt þessum tveimur mælingum er að í bæði skiptin þurfti ég að leggja það á mig að skemmta mér óvenju mikið fyrir blóðtöku. Fyrra skiptið var í kringum Kaupmannahafnarmaraþonið en í Köben var ég í 6 daga að hitta fjölskyldumeðlimi og vini. Að sjálfsögðu fylgdist ég vel með maraþoninu sjálfu og tók þá auðvitað þátt í því að fagna góðum árangri með félögunum að hlaupi loknu. Þarna var sem sagt tekin góð æfing sem var hugsuð sérstaklega fyrir rauðvínsmaraþonið í Frakklandi í byrjun september nk. Seinni góðu mælinguna fékk ég eftir að hafa fagnað 25 ára útskrift frá MA helgina áður. Það var alvöru. Þrír dagar í taumlausri unglingagleði þar sem flestir urðu aftur 20 ára og höguðu sér nákvæmlega eins og gert var 1987. Eftir þessar rannsóknir mínar spurði ég doktorinn hvort það væri ráð að leggjast í víndrykkju í 3 vikur samfleytt? Hann svaraði því nú ekki beinlínis en hafnaði þessum möguleika ekki heldur. Við sjáum hvað setur.
En að gamni slepptu þá fórum við yfir stöðuna. Það var ákveðið að láta reyna á aukningu í lyfjaskömmtuninni og sjá hvort ég myndi haldast yfir mörkum þannig. Það gerðist ekki heldur fór ég enn neðar. Þar með tókum við þá ákvörðun að setja mig á ný lyf. Þetta er lyf sem er gefið í 3 vikur og eftir það er rafvending reynd. Í þessu tilviki þarf ekki að fylgjast sérstaklega með blóðþynningunni heldur er nóg að hafa verið á lyfinu í 3 vikur samfleytt. Ástæða þess að ég var ekki settur strax á þetta lyf er sú að þar sem það er tiltölulega nýtt á markaði er ekki alveg öruggt að allar mögulegar aukaverkanir séu komnar fram. Þar sem ég hef annan undirliggjandi sjúkdóm vildum við bíða og sjá hvort ekki væri hægt að stilla mig af með eldra lyfinu. Þar sem það virðist fullreynt er komið að nýja lyfinu. Kannski við hæfi að sú meðferð skuli hefjast í dag á þjóðhátíðardegi Bandaríkjamanna þann 4. júlí flugeldar og allt? Í sjálfu sér eru þetta góðar fréttir því nú ætti að vera öruggt að hægt verði að reyna rafvendingu eftir 3 vikur. En þó ekki. Þetta virðist nefnilega ætla að verða sumarið laaaaaaaanga. Nú eru auðvitað sumarleyfi í algleymingi og þar á meðal á spítalanum eina. Þegar ég verð tilbúinn í rafvendinguna, í kring um 23. -25. júlí, þá verða starfsmennirnir auðvitað ekki tilbúnir fyrir mig. Sennilega kemst ég ekkert að fyrr en upp úr miðjum ágúst. Þá fer nú að líta illa út með fyrirhugaða þátttöku mína í rauðvínsmaraþoninu. Það er reyndar sérstakt umhugsunarefni að heilbrigðisþjónustan fari yfirleitt í sumarfrí. Ekki gera sjúkdómarnir og heilsan það. Kannski sambærilegt við það að gefa Bandaríkjaher frí í júlí? Þetta benti vinur minn mér á sem er læknir. En kannski get ég sjálfum mér um kennt, ég hefði kannski ekki átt að hallmæla spítalamatnum í fyrri pistli?!
En að lifa í hjartaóreglu venst eins og annað. Auðvitað ekki eftirsóknarvert en samt hlutskipti býsna margra. Þrekið skánar smám saman og dagleg störf hætta að vera jafn erfið. Þar sem ég veit ekki ennþá hvort ég kemst í takt er eins gott að byrja að lifa lífinu eins og hægt er og venjast ástandinu. Ég sagði frá því í síðasta pistli að ég væri byrjaður að líta við í æfingasalnum. Því hef ég haldið áfram og tekið framförum. Nú get ég orðið hlaupið sæmilega allt að 5 km í einu. Hef meira að segja prófað að hlaupa 7 og 8 km í einu og gekk bara þokkalega með því að fara nógu hægt. Hver veit nema ég komist 10 km í einu fyrir haustið?
Eins og ég hef bloggað um áður hafa hlaupin veitt mér mikið. Þessar þrengingar mínar nú í vor og sumar hafa sannað það enn betur. Eftir að ég fór á ferðina aftur þá hef ég tekið þátt í 4 keppnishlaupum. Auðvitað bara stuttum, 3-5 km og hlaupið hægar en áður. En engu að síður skemmtilegt. Stemningin frábær og áður en maður veit af er maður í huganum farinn að keppa við þá sem eru í kring um mann. Það er í raun ekkert síður skemmtilegt að keppa við ungu og efnilegu krakkana sem ná manni rétt upp í mitti og hina fullorðnu sem eru að stíga sín fyrstu skref . Allir eru þarna á sínum forsendum og gleðjast yfir því að klára vegalengdina og komast í mark.
Annað sem ég hef komist að er að það er góð skemmtun að vera starfsmaður við hlaup. Ég fékk ásamt fleirum að vera starfsmaður við hið mjög svo vel heppnaða hlaup Mt. Esja Ultra 2012. Það var frábær dagur í fjallinu þar sem gleðin skein úr andlitum keppenda sem hlupu ýmist 10, 5 eða 2 ferðir upp og niður Esjuna. Við þetta tækifæri átti Bibba hlaupafélagi klárlega setningu dagsins þegar hún var að lýsa okkur lasarusunum sem ekki gátum verið með en vorum starfsmenn við hlaupið: ... aðal málið er að vinna - ekki vera með.... Þetta er rétta viðhorfið við þessar aðstæður!
Áskoranirnar eru margvíslegar. Fjöllin sem við mætum geta virst óyfirstíganleg við fyrstu sýn. Hvort sem þau eru eiginleg eða óeiginleg. Allir eiga sér sín fjöll. - En hvernig sigrar maður fjall? - Með einu skrefi, - síðan öðru, - og loks því þriðja. Áður en þú veist af eru skrefin orðin nógu mörg til að komast á næsta hjalla, næsta áfanga. Þegar áföngunum fjölgar styttist leiðin. Loks verða áfangarnir nógu margir til að komast eina ferð upp og niður Esjuna.
gá
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 5
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 13
- Frá upphafi: 70682
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Að byrja daginn á sopa af eplaediki er gamalt húsráð við svona veseni...
GB (IP-tala skráð) 4.7.2012 kl. 09:22
Gangi þér vel Gunni minn.
Ingibjörg Ingvadóttir (IP-tala skráð) 4.7.2012 kl. 19:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.