11.5.2012 | 15:58
Í ánni miðri.
Nú er liðinn rúmur einn og hálfur mánaður síðan hjartað datt úr takti og ég þurfti að hætta hlaupum. Mér finnst tíminn hafa liðið hægt og ég sakna þess að geta ekki hlaupið. Hlaupin voru að verða mitt annað sjálf og mér finnst ég hafa týnt stórum hluta af sjálfum mér. En nú er ég byrjaður að leita.
Partur af því hvað mér finnst tíminn lengi að líða er að það gengur ekki nógu vel að þynna í mér blóðið. Blóðið þarf af vera þynnt yfir ákveðin mörk í 3-4 vikur samfleytt áður en hægt verður að reyna rafvendingu. Ég hafði gert mér vonir um að komast í rafvendingu í þessari viku eða þeirri næstu. Síðasta föstudag kom hins vegar í ljós að ég var dottinn langt undir mörkin og þurfti því að byrja upp á nýtt. Í mælingu í dag var sama staða uppi. Undir mörkunum og því ennþá amk 3-4 vikur í rafvendingu.
Þessu ástandi fylgir ótrúlegt þrótt- og framtaksleysi. Ég hef verið ágætur fram yfir hádegið en einhvern tíman um miðjan dag hefur orkan oftast klárast. Tröppur sem snúa upp eru orðnar óvinur nr. 1. Ég nefndi það í einhverjum pistli að ég væri seinn að fatta og það hefur ekkert breyst. Ef ég á erindi í hús þar sem eru bæði lyftur og tröppur þá fer ég alltaf tröppurnar og man ekkert eftir óvinsældum þeirra fyrr en uppgangan er hafin. Þá er auðvitað ekkert annað að gera en að hægja á sér og taka hvíld á milli - og klára.
Ég hitti doktorinn í síðustu viku. Það var ágætt. Það er endanlega staðfest að óreglan á rætur að rekja til gáttanna en ekki sleglanna. Það er víst betra. Ef rafvendingin gengur vel og ég kemst í takt þá heyrist mér á honum að ég eigi alveg möguleika á að fara eitthvað aftur á ferðina. Hann sagði reyndar að ég skyldi láta 100 km hlaup eiga sig en hann sagði ekkert um maraþon! Takist ekki að koma hjartanu í takt með rafvendingu er það annar leikur og verður þá bara að takast á við það.
Ég varð auðvitað hundfúll í síðustu viku þegar blóðið var orðið of þykkt. Var í fýlu alla helgina. Ákvað á sunnudagskvöldið að í þessari viku skyldi ég byrja aftur að æfa. Auðvitað ekki hlaup en prófa að lyfta léttum lóðum. Er búinn að fara tvisvar í vikunni. Það var gott. Finna aftur þessa yndislegu svitalykt og horfa á fallega og vöðvastælta fólkið horfa á sjálft sig í speglinum. Kannski verð ég einn af þeim eftir árið? Amk kom mér á óvart hvað mér gekk vel að lyfta með fótunum. Aðeins erfiðara á búkinn og hendur en samt vel hægt. Ég verð kannski kominn með vöðva á lappirnar þegar ég get byrjað aftur?
Þakka fyrir allar góðu kveðjurnar sem ég hef fengið frá ykkur á síðustu vikum.
gáUm bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 5
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 13
- Frá upphafi: 70682
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Mikið er nú gott að þú sért farinn að sjá ljósið aftur. Þú átt samúð mína alla, sjáðu til búinn að vera með flensu í fimm daga og orðinn fúll og leiðinlegur. Vil ekki einu sinni hugsa um mikið lengri tíma frá hlaupum. Sendi þér alla mína auka orku notist að vild. There is no fun if you cannot run, but remember to have fun when you can run. Minn lengsti tími frá hlaupum og æfingum var fimm mánuðir. Guð gefi að það verði ekki svo langt hjá þér.
Karl G. Gíslason (IP-tala skráð) 11.5.2012 kl. 22:29
Sæll Gunni. Það var hrikalegt að frétta af uppákomunni og ástandi þínu um daginn. Hinn íslenski hlaupaheimur varð strax fátækari svo um munaði og verður það á meðan þín nýtur þar ekki við. En það eru frábærar fréttir að möguleiki sé á endurkomu og það yrði sannarlega heiður að láta þig stinga mann af í e-u þoninu í framtíðinni! Bestu batakveðjur.
Lalli (IP-tala skráð) 12.5.2012 kl. 11:09
Vondar fréttir en góðar fréttir þó - ekki missa móðinn, þú hefur sannarlega unnið þig upp úr veikindum áður og verið frábær fyrirmynd.
Halla Þorvaldsdóttir (IP-tala skráð) 20.5.2012 kl. 09:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.