Ég hljóp af því að ég gat það. Aftur á byrjunarreit?

Í fyrrasumar hljóp ég nokkur hlaup til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands. Tilefnið var að þá voru fimm ár liðin frá því að ég greindist með hvítblæði. Ég bjó mér til einkunnarorðin „Ég hleyp af því að ég get það“. Með þeim vildi ég vekja athygli á því að það er ekki sjálfgefið að geta hlaupið. Hlaup eru einstaklega góð líkamsrækt, hægt að stunda nánast hvar sem er og hver og einn getur sett sér sín eigin markmið og hagað hlaupunum að sínum vilja. Ég valdi að hlaupa mikið og langt – og ætlaði lengra og hraðar. En svo virðist sem mér hafi ekki verið ætlað að hlaupa lengra og að ég sé búinn með þann kvóta sem mér var úthlutað. Þrátt fyrir það sýnist mér gildi einkunnarorða átaksins míns frá því í fyrrasumar ekki hafa minnkað. Þeir sem geta eiga að gera. Þeir sem ekki geta þá langar að gera. Þeir sem ekki hafa upplifað að geta ekki vita ekki hvernig það er. Þeir gera sér ekki endilega grein fyrir hversu mikilvægt er að hafa tækifæri til að geta - og gera. Það getur allt í einu orðið of seint að ætla að gera – þegar þeir geta ekki. Hlauptu meðan þú getur!

 

Ástæður þess að ég set þessar línur á blað eru í raun af tvennum rótum sprottnar. Annars vegar til að skrifa mig í gegnum svekkelsið við að vera kippt fyrirvaralaust út úr hlaupunum. Hins vegar hugrenningar mínar síðustu daga þegar ég þurfti að dvelja á spítala. Ég hef um nokkurra ára skeið haft mikinn áhuga á heilbrigðiskerfinu okkar og þeim aðstæðum sem sjúklingum og starfsmönnum eru búnar. Endurnýjuð kynni mín af innviðum kerfisins sannfærðu mig enn betur um að aðgerða er þörf og það strax.

 

Ég hef frá því í desember verið að æfa markvisst fyrir Boston maraþonið sem verður þreytt þann 16. apríl nk. Því til viðbótar ætlaði ég að hlaupa nokkur lengri hlaup á árinu og var búinn að skipuleggja spennandi dagskrá að mínu mati. Æfingarnar voru búnar að ganga mjög vel og ég tel mig hafa verið kominn í betri æfingu en á sama tíma í fyrra. Ég hafði opinberlega gefið út að ég ætlaði að reyna að hlaupa á meðalhraðanum 4:04 sem ætti að skila tíma uppá 2:51:30 ef allt gengi upp. Í fyrra æfði ég með það fyrir augum að geta hlaupið á 4:15 sem skilar tíma rétt undir 3 klst. Þegar til kom hljóp ég á 4:09. Mér hefur gengið mun betur með allar æfingar í vor sem miða við MP 4:04 en mér gekk í fyrra með MP 4:15. Því var ég farinn að gæla við að láta reyna á MP 3:58 í Boston með það að markmiði að reyna að skríða undir 2:48:48 sem er meðalhraði uppá 4:00. Það er sá tími sem ég var búinn að setja mér sem langtímamarkmið þegar ég ákvað að fara að hlaupa maraþon. Boston brautin er aðeins rúllandi þannig að það var auðvitað ekki ljóst hvort þetta væri raunhæft. En þar sem mér hefur yfirleitt gengið hlutfallslega vel að hlaupa hratt niður ætlaði ég að reyna að nýta vel niðurhallann og hef æft niðurhlaup reglulega. Þar til viðbótar hef ég æft vel að hlaupa eins km intervala upphallandi þannig að mér fannst ég vel undirbúinn. Þessu til viðbótar er ég búinn að létta mig um 5 kg frá áramótum sem hefur augljóslega haft góð áhrif á hraðann. Ég ákvað að hlaupa 10 km test hlaup á bretti fyrr í mánuðinum og náði að skríða þar undir 37 mín í fyrsta skipti. Það gaf góð fyrirheit. Á æfingu þann 22. mars. sl. áttum við að hlaupa 35 km og þar af 20 km á MP hraða með 1600 metra kafla aðeins hraðar. Ég ákvað að láta reyna á það hvað ég kæmist hratt í hálfu maraþoni og nota það síðan til að ákveða á hvaða hraða ég myndi reyna að stilla mig í maraþoninu sjálfu. Það er skemmst frá því að segja að ég náði að bæta mig um 2 mínútur, miðað við fyrri brettatíma, og kláraði á 1:20:56 (eftir 10 km upphitun og 500 metra á 3:55 pace). Þetta tók auðvitað vel í en ég var hins vegar langt frá því að vera „dauður“. Reiknivélar gáfu mér upp tíma rétt undir 2:50 miðað við þennan hraða þannig að mér fannst sjálfgefið að ég myndi gera atlögu við 2:48:48. Fjórar vikur í maraþon og ég í besta formi lífsins! Ekki slæmt það. Ein þung vika eftir og síðan þrjár vikur í tapering (niðurtröppun).

 

Á mánudagsæfingunni ætlaði ég að rúlla létt 15-20 km á 4:45 með -3 í niðurhalla. Þetta átti að vera frekar létt æfing og með því að hafa þetta mikinn niðurhalla átti ég ekki að finna mikið fyrir þessu tempói. Í leiðinni átti þetta að vera góð niðurhlaups æfing. Fyrstu 5 km voru léttir og ég fann ekkert fyrir þessu. En fljótlega eftir að ég byrjaði á 6. km fann ég allt í einu fyrir þreytu í löppunum. Eftir 7 km varð ég að stoppa og taka pásu. Ég ætlaði aftur af stað en hreinlega gat ekki hlaupið áfram á þessum hraða. Ég hugsaði með mér að æfingin frá því á laugardag sæti sennilega ennþá í mér þannig að ég ákvað að jogga bara rólega meðan hlaupafélaginn kláraði sína æfingu. Ég svitnaði óheyrilega mikið á jogginu og það var þrælerfitt. Ég þurfti að hafa mig allan við að klára uppí 16 km og var þá alveg búinn á því. Daginn eftir byrjaði ég rólega á 5:30 og ætlaði að bæta smám saman við. Eftir 10 km hafði ég ekkert aukið við hraðann og varð að taka pásu og náði með herkjum að jogga uppí 16 km. Tók hvíldardag á miðvikudeginum og skellti mér í yoga. Það var fínt en ég var samt ekki ánægður með 3 km upphitunina sem ég tók. Ég hljóp 2 km rólega og síðan 1 km vaxandi. Það var allt of erfitt. Á fimmtudag var á dagskrá að hlaupa 12 km aðeins hægar en á 10 km keppnishraða. Upphitunin gekk ágætlega og ég fór af stað á 3:50 í tempókaflann. Eftir um 200 metra fann ég að ég yrði að hægja á ferðinni og eftir 1 km gafst ég upp á tempóinu og joggaði í rólegheitunum upp í 10 km. Þar sem æfingin var allt of stutt ákvað ég að fara síðdegis smá rúnt úti. Ég setti á mig púlsmælinn og hljóp upp að Vífilstaðavatni. Púlsinn rauk strax upp fyrir 180 og var yfirleitt í kringum 190 allt hlaupið og það þrátt fyrir að ég stoppaði þrisvar til að ná púlsinum niður. Til samanburðar liggur púlsinn í rúmum 170 í 10 km keppnsihlaupi og var í kringum 170 síðustu 10 km í hálfmaraþoninu sem ég hljóp á laugardeginum á undan. Um kvöldið var ég lengi að jafna mig og leið eins og ég hefði verið að hlaupa eitthvað miklu lengra og miklu hraðar. Daginn eftir fór ég á fund og ákvað að ganga upp nokkrar hæðir. Það var ekki um neitt að villast, þetta var mjög undarlegt ástand. Var orðinn lafmóður þegar upp kom og þurfti að jafna mig áður en ég knúði dyra þar sem ferðinni var heitið.

 

Þetta minnti mig óþægilega mikið á ástandið á mér í aðdraganda þess að ég greindist með  hvítblæðið. Ég átti þó ekki von á að það væri farið að láta kræla á sér aftur því miðað við forsöguna ætti það að taka mun lengri tíma. Nú voru bara liðnir nokkrir dagar frá því að ég var í toppstandi. Það var í raun nærtækara að eitthvert ólag væri komið á hjartað. Bæði vegna þess hvað púlsinn virtist skyndilega fara úr skorðum og svo hitt að frá sumrinu 2006 er ég búinn að vera með einhverja óreglu í hjartanu. Var um nokkurra ára skeið á blóðþynningarlyfjum en hafði þó verið laus við þau sl. 2 ár. Þegar óreglan kom upp fyrst var ég settur á einhver lyf, auk blóðþynningarinnar, og virtist það duga ágætlega. Ég hef hins vegar alltaf fundið annars lagið fyrir óreglulegum hjartslætti og kippti mér því ekkert upp við það þótt ég sæi að á undanförnum útiæfingum væri hjartslátturinn stundum að rjúka upp tímabundið. En hvað um það þetta var allt eitthvað undarlegt. Einn hlaupafélagi minn og vinur vinnur sem læknir og skipaði hann mér í blóðprufur. Þær reyndust í fínu lagi þannig að næst var mér skipað að fara og láta taka hjartalínurit. Það reyndist vera skrautlegra en til var ætlast. Ég var lagður inná spítala síðdegis á föstudeginum og strax byrjað að þynna blóðið (ég hefði nú svo sem getað séð um það sjálfur heima hjá mér!) og ég settur í varanlegt samband við hjartalínurit.

  

Dvöl á spítala er lífsreynsla sem ætti að vera skylda að fara í gegnum. Helst sem fyrst eftir að þroska fullorðins áranna er náð. Það sjónarhorn sem fæst við það að vera sjúklingur á spítala er hollt. Margra hluta vegna. Mér liggur við að segja að það sé lítið að marka bollaleggingar fólks um það hvernig spítalar skuli vera sem hefur ekki upplifað spítalavist sem sjúklingar –eða náinn aðstandandi sjúklings. Örugglega fæst góð innsýn í lífið á spítalanum við að vinna þar en það er annað sjónarhorn en sjúklingar og aðstandendur þeirra fá. Þótt sjónarhorn starfsmannanna sé öðru vísi er það að sjálfsögðu nauðsynlegt. Sambland sjónarmiða sjúklinga og starfsmanna er það sjónarhorn sem að mínu mati ætti að liggja til grundvallar við skipulag spítala. Innlegg annarra er mikilvægt en það má ekki skyggja á megin tilganginn – sem ætti að vera það að lækna og hjúkra sjúklingum og reyna að láta þeim líða sem best.

 

En hvernig líður sjúklingi á spítalanum okkar eina í dag? Ég get auðvitað ekki talað fyrir aðra en sjálfan mig en það get ég líka vel. Ég hef reynslu frá því fyrir sex árum og síðan aftur núna. Áður en ég lýsi reynslu minni ætla ég að byrja á margtugginni klisju sem verður ekki endurtekin of oft. Við eigum frábært heilbrigðisstarfsfólk. Heilbrigðisstarfsfólkið okkar stendur sig afar vel við erfiðar aðstæður. Það getur ekki verið auðvelt að umgangst misveika og miserfiða sjúklinga við þær aðstæður sem við bjóðum uppá. Það getur ekki verið auðvelt að sýna alltaf hlýhug og fagmennsku þegar sjúklingar sem kannski eru illa fyrir kallaðir sýna ekki alltaf samstarfsvilja og/eða samstarfsgetu. Eins og ég hef sagt áður, við eigum heilbrigðiskerfi sem á sumum sviðum stenst samanburð við það besta – vegna heilbrigðisstarfsfólksins okkar (þrátt fyrir kerfisuppbygginguna og hina misheppnuðu pólitísku leiðsögn).

 

Eftir að hafa legið á spítalanum í þrjár nætur og þrjá daga og fylgst með rútínunni fékk ég allt í einu á tilfinninguna að ég væri aftur kominn í sveitina - nánar tiltekið í fjósið að vetri til. Munurinn var þó sá að áður var ég fjósamaðurinn en nú upplifði ég mig sem eina af kúnum. Belja á bás. Kannski mátulegt á mig! En hvað um það. Skrítin tilfinning.

 

Vakinn upp fyrir klukkan sjö og tekinn blóðþrýstingur. Í fjósinu var byrjað á því að gera mjaltatækin klár og þvo júgur og spena. Bíða til kl. 8 þegar borinn var í mig morgunmatur. Hann snæddur á rúmbríkinni. Í fjósinu var gefinn fóðurbætir fyrir mjaltir. Um kl. 9 komið með lyf og ég sprautaður í belginn. Í fjósinu þurfti að sprauta pensilíni í spena ef fyrir hendi var júgurbólga. Bíða til ca 10 eftir lækninum og fá stöðuskýrslu. Í fjósinu mjaltir. Gefinn hádegismatur um kl. 12. Hann snæddur á básnum. Í fjósinu gefið hey. Milli kl. 12 og 18 beðið eftir klukkunni. Sjúklingur og beljur. Kl. 18 gefið á garðann. Sprauta og mjaltir. Ljósin slökkt.

 

Kannski kom þessi fjósasamlíking upp í hugann þegar ég hlustaði á starfsfólkið koma með matinn og dreifa honum á rétta staði. „Er hann Gunni á  fjögur eitt búinn að fá matinn?“ „Hvað með hana Jóu á átta tvö?“ „Vill hann Kalli á sex þrjú ekki matinn sinn?“ Síðan sátu allir hver á sinni rúmbrík og átu sinn mat í einrúmi. En þó ekki alveg í einrúmi. Ég var t.d. í rúminu nær glugganum á tveggja manna stofu og sá því út þegar ég át. Herbergisfélaginn snéri í sömu átt og ég þannig að hann hefur haft bakhlutann á mér sem sitt útsýni. Mitt hlutskipti var örugglega betra.

 

Um spítalamat er hægt að skrifa mikið. Mér fannst eiginlega sama bragð af öllum matnum. Sennilega af því að hann var almennt bragðlítill en alltaf sama grænmetið með. Frosið grænmeti úr pokum, ofsoðið. Bragðið af því yfirgnæfði annað bragð. Ég flýtti mér alltaf sem mest ég gat að klára matinn. Bæði af því að ég var svangur og líka af því að mér fannst þetta leiðinlegar aðstæður að snæða við. Ánægjan sem fylgir því að borða góðan mat var víðsfjarri og næring að mestu leyti sömuleiðis. Mér sýndist skammtarnir fara eftir ríkisstaðlinum eina. Eitt og hálft fiskstikki, þrjár karftöflur og lítil hrúga af ofsoðnu grænmeti ásamt súpuslettu. Þetta segir ekki mikið í sjúkling sem er að koma úr stífu maraþonprógrammi og borðar á við þrjá. Auðvitað gat spítalamatsskipuleggjandinn ekki vitað að ég væri að koma í mat til hans en ennþá held ég samt að það sé ekki búið að ríkisstaðla hinn dæmigerða sjúkling. En kannski er ríkisstjórnin að vinna í því. Þá verður þetta allt miklu auðveldara. Ríkisstaðlaðir skuldarar, ríkisstaðlaðir sjúklingar, ríkisstaðlaðir fiskar og ríkisstöðluð norræn velferð. Ef eiginkonan hefði ekki verið dugleg að færa mér ávexti og fleira góðgæti eins og möndlur og hnetur hefði ég sennilega ekki haft spítalavistina af. En án gríns, matarmálin á spítalanum hlýtur að vera hægt að hugsa upp á nýtt. Mér er t.d. fyrirmunað að skilja af hverju sjúklingum á hjartadeild er gefið kjötfars í hádegismat. Hver skyldi hugsunin vera á bak við það?

 

Eins og ég nefndi áður var ég á tveggja manna herbergi. Fyrstu nóttina var ég einn í herberginu sem var auðvitað ljómandi gott. Þá höfðum við eiginkonan gott næði til að ræða saman án þess að hafa áhyggjur af því að aðrir heyrðu í okkur eða hvort við værum að trufla aðra. Morguninn eftir fékk ég herbergisfélaga. Mann sem var nokkru eldri en ég. Viðkunnanlegur maður en við töluðum ekki mikið saman þessa daga. Báðir höfðum við nóg að hugsa um og sjálfur hafði ég ekki mikinn áhuga á að stofna til nýrra kynna við þessar aðstæður. Eftir að ég fékk herbergisfélagann sátum við eiginkonan mikið frammi í setustofu í stað þess að sitja inni á herbergi. Það er afar óspennandi að liggja inni í herbergi með ókunnugum þegar þeir fá gesti. Það þvingar gestina og veitir þeim ekki sama frelsi og annars til að ræða við sinn aðstandanda. Sem betur fer hafði ég góða fótavist og gat því oftast farið fram þegar gesti bar að garði til sambýlingsins. Þetta getur hins vegar verið flóknara á fjöggurra manna stofunum. Ég man eftir því frá fyrri dvöl minni þegar ég lá á fjögurra manna stofu að hinir þrír sjúklingarnir tengdust allir. Það var því hálfgildings ættarmót þar stundum og þá var ég í þeirri aðstöðu að vera að jafna mig eftir skurðaðgerð og gat því hvorki forðað mér úr ættarmótinu né heldur hvílst almennilega. Ég sat því uppi með það að vera fræddur um leiki og störf stórfjölskyldunnar hvort sem mér líkaði betur eða verr.

 

Í góðri grein í blaði í vikunni sá ég spurt hvernig fólki myndi líka þegar það pantaði sér hótelherbergi að fá alltaf til sín ókunnugan gest eða jafnvel gesti sem myndu deila með því herberginu. Góð samlíking en hún nær þessu þó ekki alveg. Í flestum tilvikum eru ferðalangarnir amk heilir heilsu þótt þeir geti verið þreyttir. Sjúklingarnir sem engu fá um það ráðið hver eða hverjir deila með þeim herbergi eru oft sárþjáðir og illa fyrir kallaðir. Þá er frekar óspennandi að deila herbergi með sjúklingi sem á í hálfgerðum átökum við starfsfólkið og getur ekki stjórnað þvaglátum sínum og annarri líkamsstarfsemi. Að sjálfsögðu er það ekki síður slæmt fyrir þann sem svona er komið fyrir að þurfa að deila þessari lífsreynslu sinni með sér ókunnugu og óviðkomandi fólki.

 

Á mínum spítala verða eingöngu einmenningsherbergi með sér snyrtiaðstöðu. Ríkisspítalamatsskipuleggjandinn fær ekki vinnu á mínum spítala.

   

Mér var hleypt heim á þriðjudaginn. Ég verð áfram á blóðþynningarlyfjum. Eftir ca. 4 vikur fer ég í rafvendingu sem á að koma hjartanu aftur í réttan takt. Þangað til verð ég eins og farlama gamalmenni og allt er erfitt. Ótrúlegar andstæður. Í toppformi einn daginn og á erfitt með að ganga upp tröppur þann næsta! Ofan á þetta ástand bætist að hið hefðbundna er að trappa niður á þremur vikum eftir maraþon prógramm. Í síðustu vikunni er maður oftast undirlagður þegar þreytan síast út. Núna gerist þetta hins vegar fyrirvaralaust þannig að það er eins og valtari hafi flutt lögheimili sitt til mín og slær ekki af við yfirkeyrsluna.

 

Mér er sagt að ég sé með of stórar hjartagáttir sem valdi þessari hjartsláttar óreglu. Eftir rafvendinguna verður mér haldið góðum með lyfjum og mögulega þarf að setja í mig gangráð. Það er í sjálfu sér lítið mál að öðru leyti en því að mér er sagt að ég muni ekki framar mega æfa og keppa eins og ég hef gert. Kannski eru hlaupin alveg úr sögunni en það á þó eftir að koma betur í ljós.

 

Þegar ég kom heim á þriðjudaginn beið mín póstur. Annars vegar bréf sem innihélt keppnisgögnin fyrir Boston maraþonið. Hins vegar tilkynning frá póstinum um að ég ætti hjá þeim pakka. Í pakkanum voru keppnisskórnir mínir sem vinir mínir í Boston keyptu fyrir mig og sendu mér – nýjasta módelið af Adizero. Var verið að gera grín að mér eða er þetta táknrænt?

 

Ég ætla að líta svo á að þetta hafi allt saman tilgang. Þau verkefni sem ég hef verið að vinna að undanfarin misseri eru að komast á skemmtilegt stig. Ég sé fyrir mér að á næstu vikum og mánuðum muni ég þurfa að beina öllum mínum kröftum að þeim. Þar sem ég get verið þrjóskur og lengi að fatta lít ég svo á að þetta sé aðferð almættisins við að setja mig í réttan fókus. Það er auðvitað löngu vitað að ég ræð bara við eitt viðfangsefni í einu og þar sem ekki duga fínlegar ábendingar þegar ég á í hlut þarf að senda mér skilaboðin með skýrum hætti!

 

Hlaupum meðan við getum!

    

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flottur pistill og spítalahlutinn er umfjöllunarefni sem ætti klárlega heima í stærri blöðum og ná fleiri eyrum...... Hlaupaheimurinn á Íslandi verður vel fátækari komist þú ekki með í hlaup í framtíðinni. Heilsan skiptir þó öllu máli og því er fátt hægt að segja annað en heilsist þér vel og hratt í rétta átt.

kv.

Anton M.

Anton Magnússon (IP-tala skráð) 30.3.2012 kl. 18:14

2 identicon

Þetta eru alveg ómögulegar fréttir!  En virk hvíld er líka nauðsynlega af og til, svo vonandi stendur þú á ráslínunni í Boston á næsta ári.   Geymdu skónna góðu vel þangað til!

Baráttukveðjur!

Börkur (IP-tala skráð) 30.3.2012 kl. 18:30

3 identicon

Góður pistill Gunni sem vekur mann til umhugsunar. Ég óska þér góðs bata og vona sannarlega að ég eigi eftir að rekast á þig á ferðinni fyrr en seinna.

 kv. Reynir

Reynir Bjarni Egilsson (IP-tala skráð) 30.3.2012 kl. 18:34

4 identicon

Vá hvað þetta er skemmtilegur og flottur pistill Gunnar. Leiðinlegt samt að heyra af raunum þínum! Þessi spítala og fjósa samlíking er alveg milljón og ég hló upphátt. Sjálf þekki ég spítalalíf vel. Bæði hef ég verið sjúklingur og vann lenig á LSH. Vona að þú náir heilsu fljótt og að cardiolog-inn gefi þér leyfi til hlaupa aftur þó að þau verði ekki af sama magni/hraða og áður.

Bestu kveðjur,

Sigrún Erlends

Sigrún Erlendsdóttir (IP-tala skráð) 30.3.2012 kl. 18:42

5 identicon

Kæri Gunni

Frábær pistill eins og þér er einum lagið, en á sama tíma leiðinda fréttir og hundfúlt bara HFF eftir svona flottan undirbúning. En ég er þess fullviss um að þú verður fljótur að jafna þig og farinn að hlaupa eins og vindurinn á ný.  Er líka viss um að öll hlaupin og styrkurinn sem þú býrð nú yfir hjálpi þér í gegnum veikindin og þú því miklu sterkari.

Gangi þér vel á batabrautinni - leyfðu okkur að fylgjast með á blogginu.

með vináttukveðju
Halldóra

Halldóra Matthíasdóttir (IP-tala skráð) 30.3.2012 kl. 19:04

6 identicon

Áhrifamikil frásögn Gunnar. Sem hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum til fjölda ára þá fagna ég sjónarhorni skjólstæðinga og hvet þig til að fara með þessa mikilvægu sögu lengra. Fjósasamlíkingin er tær snilld og gagnrýnin á matinn er eitthvað sem þarf nauðsynlegt að skila sér, hvar í ósköpunum er ferskt grænmeti á LSH? Er því miður ekki að heyra þessa gagnrýni í fyrsta sinn. Átakanleg veikindasaga en ég vona að þetta sé bara ein hindrun af mörgum í lífinu sem þú ferð yfir. Boston fer ekkert... óska þér alls hins besta. Takk kærlega fyrir að deila þessari reynslu.

Bestu batakveðjur
Bára Ketils

Bára Agnes Ketilsdóttir (IP-tala skráð) 30.3.2012 kl. 19:13

7 identicon

Baráttukveðjur til þín Gunnar.

Ég er einn af þeim sem hef hlotið þessa eldskírn, sem þú telur öllum fullorðnum mönnum nauðsynlega, og verð að segja að þú kemur mjög vel að orði. Þegar ég lá inni í 8 vikur fyrri örfáum árum var innlögðum ekki boðinn netaðgangur, hvað þá meira (reyndar held ég að beljur í fjósi hafi heldur ekki netaðgang). Mér tókst þó að smygla út tölvupósti til þáverandi heilbriðgisráðherra, kunningja míns Guðlaugs Þórs í von um að heilbriðgiðsyfirvöld opnuðu augun. En ég tek undir allt sem þú segir, hrós til starfsmanna og gagnrýni á aðstæðurnar, en umfram allt, þú átt hrós skilið fyrir þetta jákvæða lífsviðhorf, sem ég held að væri mögrum til eftirbreytni.

Ég er viss um að þú munt hlaupa aftur - á þinn hátt.

Það er ekki víst að 100 km sé nauðsynlegt viðmið :-)

Jón Pálsson (IP-tala skráð) 30.3.2012 kl. 19:18

8 identicon

Hugsa til þín.

Eva Einarsdóttir (IP-tala skráð) 30.3.2012 kl. 19:50

9 identicon

Ótrúlega leiðinlegt að heyra af þessu hjartaveseni.  Gangi þér vel í baráttunni sem er framundan. 

Vignir Þór Sverrisson (IP-tala skráð) 30.3.2012 kl. 20:51

10 identicon

Elsku Gunni. Þú hefur verið í huga mér alla vikuna frá því að ég frétti þetta.

Gangi þér vel og hlakka til að sjá þig sem fyrst.

Þú ert magnaður maður.

Alma María (IP-tala skráð) 30.3.2012 kl. 22:01

11 identicon

Takk Gunnar fyrir að deila þessari erfiðu reynslu sem er okkur öllum holl lesning. Ég fylgdist með þér í sumar og dáðist að kraftinum í þér. Þegar ég lenti í slysinu á RM deginum og lá á bæklunardeildinni, kynntist ég aðeins spítalasögunni sem þú lýsir vel. En hlutirnir breytast hratt og nú taka við ný markmið hjá þér sem halda þér við efnið næstu mánuðina. Heimsfrægur maraþonhlaupari hefur sagt að hluti af ánægjunni við maraþonhlaup sé "gleðin" við æfingarnar fyrir hlaupið, því allt geti hent í hlaupinu sjálfu. Boston býður en persónulegu sigranir sem þú hefur náð í æfingaferlinu verða ekki frá þér teknir. Baráttukveðjur úr Grafarvoginum Erla Gunnars.

Erla Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 30.3.2012 kl. 22:53

12 Smámynd: Ragnar G

Gangi þér vel kæri hlaupafélagi. Frábær grein. Sjáumst fljótlega.

Ragnar G, 30.3.2012 kl. 23:31

13 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Gunnar takk fyrir skrifin, las þau upp til agna. Þau eru mikil hvatning, þrátt fyrir hindranirnar. Þær eru hluti af vegferðinni. Gangi þér vel.

Sigurður Þorsteinsson, 31.3.2012 kl. 00:48

14 identicon

Sæll Gunnar, mjög leiðinlegt að heyra um þetta hjartavesen og vonandi nærðu þér sem fyrst. Var farið að hlakka mikið til að hlaupa með þér í Boston og í einhverjum af þessu fjölmörgu hlaupum sem þú varst búinn að lista upp í sumar. Ef keppnishlaup detta upp fyrir efast ég ekki um að þú finnir þér eitthvað annað jafn skemmtilegt og gefandi.

Mjög flottur pistill og nærð þessu mjög vel held ég.

Gangi þé vel, kveðja Örvar

Örvar Steingrímsson (IP-tala skráð) 31.3.2012 kl. 09:24

15 identicon

Blessaður Gunni.

Þetta eru aldeilis hremmingar sem þú ert að ganga í gegnum!

Vel skrifuð grein hjá þér og ég er svo sammála þér, hlaupum á meðan við getum. Við vitum ekki fyrr en á reynir hvað heilsan er dýrmæt.

Láttu þér batna og við hittumst svo í júní :)

Gangi þér vel,

Jóhanna Valgeirs.

Jóhanna Valgeirsd. (IP-tala skráð) 31.3.2012 kl. 12:14

16 identicon

Sæll Gunnar. 

Það er búið að vera aðdáunarvert að fylgjast með afrekum þínum undanfarin ár.  Ég er viss um að jafn agaður og baráttuglaður maður og þú munir sigrast á þessu.  Ég efast ekki um það að þú munt birtast aftur á hlaupabrautinni.  Frásögnin er alveg frábær og umræðan um heilbrigðiskerfið mjög þörf og raddir þeirra sem hafa persónulega reynslu eins og þú þurfa að heyrast. Bestu óskir um góðan og bata.  Gangi þér vel og takk fyrir að deila þessu með okkur.

Kveðja, Örn

Örn Gunnarsson (IP-tala skráð) 31.3.2012 kl. 12:31

17 identicon

Er það ekki makalaust hvað sumir virðast alltaf lenda í sömu áföllunum á meðan aðrir virðast eiga nokkuð beina braut gegnum lífið ?
Það hlýtur að vera tilgangur með þessu öllu saman.   Annað gengur ekki upp.
Ég hef fylgst með þér af hliðarlínunni og dáðst að afrekum þínum og árangri.   Við eigum það sameiginlegt að vera svo heppin að hafa fundið þennan snilldarheim sem hlaupin eru, og þakklætið fyrir það.    Mér finnst grátlegt hvað það eru margir sem ná ekki þangað, - hafa ekki trúna á sjálfa sig eða gefast upp einhversstaðar á leiðinni þangað.  
Ég er búin að kynnast nokkrum hetjunum í þessum heimi sem eins og þú hafa verið slegnar niður.    Sumar þeirra hafa orðið að láta undan síga, - aðrar áttu afturkvæmt.    Þær eru fleiri sem áttu afturkvæmt.    Tölfræðin vinnur með þér :)  
Framundan er kannski þitt stærsta maraþon.    Það er ekki að neinu leiti eins og þú bjóst við og ekki það sem þú vildir en maraþon er það samt.     Þú ert undirbúinn eins og hægt er.    Líkaminn er í eins góðu formi eins og hægt er að hafa hann til að takast á við veikindinn og hausinn er sterkari og reynslunni ríkari eftir öll löngu hlaupin þín.  
Þetta verður ekki auðvelt.   Langhlaup er það aldrei.    Spurning um þolinmæði og úthald.    Þú hefur það allt
Óska þér alls hins besta
Bibba    

Bibba (IP-tala skráð) 31.3.2012 kl. 17:22

18 identicon

Frábær lesning en að sama skapi leiðinlegt að heyra hvernig er komið fyrir þér. En þú ert sigurvegari!!!

Þú ert æði oft búinn að vera mér hvatning til að hunskast út til að æfa, með dugnaðinum í þér. Gangi þér allt í haginn og vonast til að sjá þig á hlaupabrautinni aftur.

Kv. Óskar Jakobsson

Óskar Jakobsson (IP-tala skráð) 31.3.2012 kl. 22:25

19 identicon

Sæll Gunnar. Með ótrúlegum krafti undanfarin ár hefur þú sýnt að þú kannt að komast í gegnum svona erfiðleika. Ég efast ekki um að sá lærdómur mun skila þér út í hlaupin aftur, vonandi með sama krafti og áður. Hlaup er lífstíll sem ekki verður tekinn af okkur sem höfum tileinkað okkur hann, alltaf verður hægt að aðlaga hann að aðstæðum.

Kv. Torfi H. Leifsson

Torfi H. Leifsson (IP-tala skráð) 1.4.2012 kl. 14:56

20 identicon

Sæll Gunnar. Takk fyrir að skrifa þetta og gangi þér vel. Við hlaupum á meðan við getum - alveg rétt :-)

bestu kveðjur

Lars

Lars Peter Jensen (IP-tala skráð) 1.4.2012 kl. 15:12

21 identicon

Leiðinlegt þótti mér að heyra þessar fréttir. En ég nánast klár ef einhver lærdómur er fólginn í þessu sem á eftir að nýtast þér. Það verður leiðinlegt í bili að Hamsturinn og Díseltrukkurinn geti ekki brettast saman.

Vona að ég sjái þig sem fyrst á fullri ferð hver sem hún verður.

God speed,

Díseltrukkurinn 

Karl G. Gíslason (IP-tala skráð) 1.4.2012 kl. 16:28

22 identicon

Kæri vinur, þetta er frábær pistill hjá þér. Já nú er bara um að gera að skipta í jákvæða gírinn, þú ert með mörg járn í eldingum og átt að einbeita þér að því núna, almættið er að stýra þér heldur betur leggur þig inná ríkissjúkrahús, matar þig á óspennandi mat við dapurlegar aðstæður bara til að styrkja þig í vinnunni sem er framundan hjá þér. Mamma Lindu er búin að vera með hjartaóreglu í yfir 10 ár og fékk gagnráð fyrir 7 árum, hún er 82 á hefur það bara nokkuð gott. Við sendum þér og Möggu okkar best kveðjur og viljum endilega að þið faraið til Boston anyway bara til að vera á staðnum. Sjáumst svo á annan í Páskum hjá Heiðu og co.

Linda og Gunnar (IP-tala skráð) 2.4.2012 kl. 14:28

23 identicon

Kæri Gunnar

Takk fyrir góðan pistil og einlæga frásögn. Óska þér góðs bata. Afrek þín eru mikil og góð hvatning fyrir aðra! Kær kv. Ingó

Ingólfur Einars. (IP-tala skráð) 2.4.2012 kl. 21:04

24 identicon

Sæll félagi! það að frétta um ástand þitt hryggir mig mjög, en ég veit að þú munnt sigrast á þessari hindrun og vonandi kemstu til fullrar heylsu á ný. Gangi þér sem allra best.

Geir Jóhannsson (IP-tala skráð) 4.4.2012 kl. 09:07

25 identicon

Flott grein hjá þér Gunni....ég kannast vel við að vera veikur innan veggja spítala, þú útskýrir mjög vel hvernig tilfinning það er.

Hvernig þú tekst á við þína sjúkdómasögu er okkur hinum leiðarljós.

Baráttukveðjur frá Argentínu!

Addi Jóns (Vinur Gulla og Helga)

Adolf Jónsson (IP-tala skráð) 12.4.2012 kl. 23:41

26 identicon

Kæri Gunnar,

Takk fyrir þessa áhrifamiklu frásögn af raunum þínum. Mér finnst ótrúlegt hvað eitt tekur við af öðru hjá þér en þú sýndir hvers þú varst megnugur þegar þú hafðir komist yfir krabbameinið. Hlaupaferillinn þinn er engu líkur. Af hverju ættirðu ekki að gera slíkt hið sama núna? Ég trúi að þú verðir kominn á hlaupabrautina ( eða á hjólið!) innan árs. Boston bíður þín eins og þarf.

Komaso!

Sibba

Sigurbjörg Eðvarðsdóttir (IP-tala skráð) 14.4.2012 kl. 15:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 70889

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband