31.12.2011 | 13:44
Áramótaannáll 2011- Hlaupaannáll
Hlaupaárið 2011 hefur verið gott hlaupaár. Ég hef ekki áður hlaupið jafnmikið á einu ári, ekki keppt í jafnmörgum keppnishlaupum á einu ári, hlaupið jafnmarga kílómetra í keppni, hlaupið jafnmörg maraþon osfrv. Á árinu hef ég hlaupið 4.700 km. Þeir skiptast annars vegar í 2.735 km sem hlaupnir hafa verið á hlaupabretti og 1.965 sem ég hef hlaupið úti.
Samkvæmt skráningarkerfi http://www.hlaup.com/ skiptast hlaupin niður á mánuði með þessum hætti:
Samtals (inni-úti)
janúar 501 km (303,1 197,9
)febrúar 503,6 km (423,2 80,4)
mars 571,1 km (481,1 - 90)
apríl 403,35 km (192 - 211,35)
maí 600,24 km (273 327,24)
júní 249,6 km (63,5 186,1)
júlí 300,73 km (10 290,73)
ágúst 158,0 km (12 146,0)
september 303,94 km (114 189,94)
október 352 km (177 175)
nóvember 312,83 km (252,2 60,63)
desember 443,6 km (433,6 10)
Mér telst til að keppnishlaupin á árinu séu samtals 16 og í þeim voru 447 km lagðir að baki. Þá hljóp ég samtals 14 hlaup á árinu, í æfingum og keppni, sem voru 42,2 km eða lengri. Ég ákvað að hlaupa 5 áheitahlaup á árinu til styrktar Krabbameinsfélaginu. Það verkefni gekk vel og náðist að safna rúmlega 700.000 kr. til styrktar félaginu. Þessi hlaup voru Parísarmaraþonið, meistaramót Íslands í 100 km, Laugavegurinn, Jökulsárhlaupið og Reykjavíkurmaraþonið. Þessu til viðbótar keppti ég bæði í vormaraþoninu og haustmaraþoninu ásamt fjölmörgum styttri hlaupum. Um flest þessi hlaup hef ég bloggað áður og vísa til þess fyrir áhugasama.
Ég lít þannig á að formlegur hlaupaferill minn sé frá 10. apríl 2008 en þá fór ég út á afmælisdegi mínum og hljóp í fyrsta sinn hálfmaraþon vegalengdina. Fram að því hafði ég aðeins verið að gutla við að hlaupa ca 5 km á bretti frá áramótunum 2007/2008 og færði ég þau hlaup inn í hlaupadagbókina þannig að ég á skráða tölfræði frá 1. janúar 2008. Það er gaman að eiga þessa tölfræði til og sjá hvernig þróunin hefur verið. Árið 2008 hljóp ég 1.934,3 km, árið 2009 voru kílómetrarnir 3.493,8, árið 2010 voru kílómetrarnir 4.100,6 og í ár urðu þeir 4.700. Samtals eru þetta þá orðnir 14.229 km á fjórum árum eða vegalengdin frá Reykjavík til Port Moresby í Papua Nýju Gíneu eins og einhver benti mér á. Úr þessu fer varla að taka því að snúa við heldur réttara að halda áfram og klára hringinn!
Ég hef verið spurður um það hvert þessara hlaupa í ár hafi verið það skemmtilegasta/eftirminnilegasta. Ég á í raun dálítið erfitt með að gera upp á milli sumra þeirra og finnst næstum eins og að með því sé maður að gera upp á milli barnanna sinna. Öll hafa þau sína sérstöðu og öll færðu þau mér einhverja sérstaka ánægju. Áheitahlaupin 5 skipa vissulega ákveðinn sess. Um þau snérist hlaupaárið að meiru eða minna leyti.
Ef ég þarf að nefna eitt hlaup umfram önnur þá hugsa ég að Parísarmaraþonið verði fyrir valinu. Það hljóp ég á afmælisdaginn minn í mjög góðu veðri og í frábærum félagsskap góðra hlaupafélaga. Ég hafði ekki neitt sérlega miklar væntingar um góðan tíma þótt ég hafi ákveðið að hlaupa út með það að markmiði að komast undir 3ja tíma múrinn. Vissulega var ég í mjög góðri æfingu þar sem ég var á fullu að undirbúa mig fyrir 100 km hlaupið en ég hélt kannski að allt magnið sem ég var búnn að hlaupa sæti í löppunum og ég yrði þungur í hlaupinu. Þegar til kom reyndist þetta mitt auðveldasta maraþon sem ég hef hlaupið og allt gekk upp. Tíminn 2:55:14 langt umfram væntingar og bæting um næstum 11 mínútur. Þessi tími skilar mér á topp 10 listann yfir hröðustu maraþon Íslendinga í ár. Ef einhver hefði sagt við mig fyrir sex árum síðan, þegar mér fannst fyrirsjáanleg framtíð heldur stutt, að ég ætti eftir að enda á þessum topp tíu lista hefði ég sagt þeim sama að hann væri galinn.
Næsta hlaup sem ég nefni er 100 km hlaupið. Það var mjög eftirminnilegt og kannski mest fyrir hversu erfitt það var. Það er himinn og haf á milli þess að hlaupa maraþon eða 100 km. Lengra hlaupið er í raun mun tæknilegra og þar spilar hausinn enn meira hlutverk en í maraþoninu. Það er líka hálf furðulegt eftirá þegar maður hugsar um hlaupið að hafa tekið meðvitaða ákvörðun eftir 45 km að hægja á þar sem þá fannst mér ljóst að ég væri að hlaupa of hratt ef ég ætlaði að reyna að komast undir 9 klst markið. Þá ekki síður að hafa tekið 30 km endasprett en eftir um 70 km sá ég að bilið á milli mín og Jóa fór allt í einu að minnka og ég fór að hugsa um hvort ég gæti náð honum. Kílómetrarnir frá ca 60-65 og upp í 80-85 voru í raun langerfiðastir. Þá er þreytan farin að segja vel til sín og ennþá það mikið eftir að manni finnst þetta aldrei ætla að taka enda. En ánægjan við að klára hlaupið er þess virði. Síðustu 10-15 km voru erfiðir en þá var orðið nokkuð ljóst að ég gæti klárað hlaupið og jafnframt komist undir 9 tímana ef ekkert óvænt kæmi upp. Ég endaði á tímanum 8:52:40 sem skilaði mér í annað sætið og þriðja besta tíma Íslendings frá upphafi í þessari vegalengd. Samkvæmt heimslistanum í ár skilar það mér á topp 500 (444) í karlaflokki og mér sýnist ég enda í sæti 138 í mínum aldursflokki. Þessa hlaups verður ekki síst minnst fyrir frábæran árangur þeirra Sigurjóns og Sæbjargar. Bæði settu þau glæsileg Íslandsmet og Sigurjón endar á topp 200 (151) listanum og NR. 1(!) í aldursflokki og Sæbjörg endar á topp 100 (93) listanum og í sæti 26 í aldursflokki.
Laugavegurinn var 5 vikum eftir 100 km hlaupið. Fyrstu 2 vikurnar fóru alveg í hvíld og síðan tók við baráttan við að snúa líkamanum í gang aftur og gera hann kláran fyrir Laugaveginn. Það gekk alveg þokkalega en ég fann þó fyrir því að tíminn þarna á milli hefði mátt vera lengri. Hlaupið gekk samt vel og ég var á góðum tíma í Emstrum. Gældi meira að segja við það í huganum í smá stund að ég gæti endað nálægt 5:30 5:35. En þessi hugsun stóð stutt. Þegar ég var að hlaupa frá Emstrum fékk ég krampa í báða kálfa sem fylgdu mér meira og minna í mark. Því varð þetta bara spurningin að komast í mark á undir 6 tímum. Það hafðist á tímanum 5:52:21.
Jökulsárhlaupið var það fjórða í röðinni. Það var mjög skemmtilegt eins og venjulega þótt nú hafi veðrið aldrei þessu vant verið frekar leiðinlegt. Það voru 3 vikur á milli Laugavegshlaupsins og Jökulsárhlaupsins. Mér fannst ég ná að jafna mig ágætlega þarna á milli en lenti þó í smá óhappi í veiðitúr þar sem ég datt illa á spjaldhrygginn. Við það stífnaði öll vinstri hliðin upp og ekki bætti úr skák að ég var næstum dottinn eftir ca 5 km í hlaupinu og fékk þá vondan slink á bakið sem orsakaði verk niður í vinstra lærið. Ég jafnaði mig samt frekar fljótt og eftir 2-3 km fannst mér sem þetta væri komið í lag og ég fann ekki fyrir þessu það sem eftir lifði hlaups. Þetta var frekar taktískt hlaup af minni hálfu þar sem ég slakað aðeins á um miðbik hlaupsins en fór að auka áreynsluna þegar komið var í Vesturdal. Þaðan og í mark náði ég að vinna mig upp um nokkur sæti og endaði að lokum í 9. sæti á mínum besta tíma á þessari leið eða 2:38:13.
Reykjavíkurmaraþonið var tveimur vikum eftir Jökulsárhlaupið. Það er skemmst frá því að segja að ég gat lítið hlaupið þessar tvær vikur þar sem afleiðing byltunnar og slinksins sem ég fékk í Jökulsárhlaupinu fór að láta á sér kræla með stífleika í vinstra læri. Í hlaupinu sjálfu fór ég samt af stað á ágætum hraða og fann ekkert til í lærinu til að byrja með. En eftir um 8 km fór ég að finna fyrir stífleika og varð að hægja á mér jafnt og þétt. Þegar ég var búinn með ca. 16-18 km hætti þetta að versna og ég fann þann hraða sem ég gat skakklappast á í mark. Þetta skilaði sér í tímanum 3:15:34. Þótt þetta sé hægasta maraþonhlaupið mitt til þessa þá var þetta það langerfiðasta. Þetta var eiginlega vont frá km 8 og versnaði stöðugt eftir það. Ég þurfti að hafa mikið fyrir því að halda þeim hraða sem ég var á hverju sinni og freistingin til að fara að labba var mikil. Hins vegar var veðrið alveg frábært og ekki síður stemmningin. Þar sem þetta var líka síðasta hlaupið í áheitahlauparöðinni beit ég á jaxlinn og hugsaði með mér að ég skildi hlaupa alla leið það yrði nægur tími til að jafna sig að þessu hlaupi afloknu.Mig langar að halda til haga minningum um tvö hlaup til viðbótar á árinu. Það eru vor og haust maraþonin. Vormaraþonið datt inní undirbúninginn fyrir 100 km hlaupið og var ef ég man rétt 3 vikum eftir Parísarmaraþonið. Það hlaup áttum við sem vorum að æfa fyrir 100 km hlaupið að hlaupa á tempruðum hraða þar sem það var fyrirhuguð löng æfing daginn eftir. Það fór auðvitað svo að við hlupum þetta í raun of hratt miðað við planið. Sigurjón var reyndar mættur til leiks með það í huga að negla á þetta en við Jói Gylfa og Trausti Valdimars ætluðum að vera á rólegri nótum. Sigurjón hljóp þetta taktískt á eftir Örvari Steingríms og hafði betur á lokasprettinum. Jói hljóp þetta örugglega og sigldi þriðja sætinu í höfn á 3:04:03. Við Trausti hlupum fyrstu þrjá leggina saman og vönduðum okkur við það að hlaupa ekki hraðar en á 4:30 tempói. Þegar síðasti leggurinn hófst gáfum við aðeins í og enduðum á 3:07:29 og 3:09:50. Báðir með negatívt splitt og Trausti á betri tíma en hann náði í Rotterdam þremur vikum fyrr. Þetta var sérlega skemmtilegt hlaup og gaman að hafa spjallfélaga nánast allan tíman. Þrjátíu km æfingin daginn eftir gekk vel en var hlaupin mjög hægt enda nýfallinn snjór yfir öllu og þungfært.
Ég fékk þá flugu í höfuðið þegar fór að líða á september að það gæti verið gaman að taka þátt í haustmaraþoninu. Ef ég gerði það þá væri ég búinn að hlaupa 5 maraþon frá síðasta haustmaraþoni á 12 mánuðum. Ekkert endilega mjög skynsamlegt en hins vegar mjög skemmtilegt. Það var býsna þungt að koma sér af stað aftur. En eftir fyrstu 2 vikurnar fór þetta að rúlla betur og mér fannst ég ágætlega undirbúinn þegar kom að hlaupinu. Hlaupið gekk ljómandi vel og ég rann skeiðið á rétt rúmum 3:10. Þótt það sé enginn sérstakur tími þá dugði hann nú samt í annað sætið sem var óvæntur bónus.
Í upphafi ársins setti ég mér nokkur tímamarkmið í einstökum vegalengdum eins og venjulega. Ég held því fram að ég hafi náð amk þremur þeirra og kannski fjórum. Ég byrjaði á Parísarmaraþoninu þar sem markmiðið var að komast undir 3 klst. Það náðist. Þá var alltaf aðal markmiðið mitt í 100 km að komast undir 9 klst. þótt ég hafi aðeins gælt við 8:30 sem ítrasta markmið ef veður og allar aðstæður væru góðar. Ég tel því þetta markmið í húsi. Ég setti mér í upphafi árs það markmið að hlaupa Jökulsárhlaupið á 2:45 og það náðist. Þá er það vafamálið. Í upphafi árs var sett upp sem markmið í Laugaveginum 5:45. Það var áður en ég ákvað að hlaupa í 100 km hlaupinu. Eftir að ég ákvað að taka þátt í því þá fannst mér raunhæfara að stefna á undir 6 tímana í Laugavegshlaupinu þar sem það stutt væri á milli þessara hlaupa. Þetta er umdeilanlegt en þar sem þetta er minn pistill þá held ég því fram að ég hafi náð þessu markmiði!
Ég náði engum markmiðum í styttri vegalengdunum en hef mér til afsökunar að ég lagði ekki mikla áherslu á þau hlaup. Ég hljóp ekkert formlegt hálfmaraþon en náði samt að bæta tímann minn í hálfu þegar ég hljóp Parísarmaraþonið. Náði því meira að segja í báðum leggjunum. Í 10 km hlaupunum þá einhvern veginn duttu þau alltaf einhvers staðar inn í undirbúning fyrir lengri hlaupin þannig að ég hljóp aldrei 10 km hlaup úthvíldur og með blastið í botni. Ég náði samt að bæta mig vel í vegalengdinni þótt markmiðið (38:30) hafi ekki náðst. Ég hljóp í Valshlaupinu á tímanum 39:19 og var þá í miklu magni og fannst ég vera þungur. Ég hljóp bara eitt 5 km keppnishlaup og það var skömmu eftir Parísarmaraþonið þannig að það var bara hlaupið til að vera með. Markmið ársins 2012 verða því þau sömu og áður í styttri vegalengdunum en í lengri vegalengdunum verður markmiðið að bæta sig nema í Laugaveginum; þar er tímamarkmið undir 5:30.
Í lok árs veittist mér sú upphefð að nafnið mitt var sett á lista með 5 alvöru langhlaupurum í karlaflokki í kjöri um langhlaupara ársins 2011. Ég neita því ekkert að ég hafði gaman að því. En eins og gengur eru sjálfsagt skiptar skoðanir á því hverjir eiga heima á svona lista. Að mínu mati er augljóst að Kári Steinn og Sigurjón eiga heima þarna. Báðir stóðu sig frábærlega á árinu, settu glæsileg Íslandsmet og eru ofarlega á alþjóðlegum listum auk þess sem Kári Steinn hljóp sig inná Ólympíuleikana. Birgir og Þorbergur eru klárlega í hópi okkar alsterkustu hlaupara. Biggi búinn að vera mörg undanfarin ár sterkasti maraþonhlauparinn í karlaflokki og er enn að bæta sig. Þorbergur er auðvitað í sérflokki þegar kemur að utanvega hlaupum og það verður ekki síður spennandi að fylgjast með honum þegar hann snýr sér að maraþonhlaupum. Körfuboltastrákurinn Arnar er náttúrulega einn alefnilegasti hlaupari sem við eigum og er reyndar ekki bara efnilegur heldur líka góður. Ef hann hættir að elta tuðruna og snýr sér alfarið að hlaupum verður hann ekki bara góður á íslenskan mælikvarða heldur getur gert sig gildandi á alþjóðlegan mælikvarða. Hvað mig sjálfan varðar lít ég svo á að ég sé fulltrúi allra þeirra sem þurft hafa af einhverjum ástæðum að koma sér af stað eftir mótlæti. Þetta er hægt ef viljinn og tækifærið er fyrir hendi.
Fínu hlaupaári lauk í dag með hinu árlega gamlárshlaupi ÍR. Gott veður, góð þátttaka og skemmtilegt. Hljóp í sparigallanum í góðum hópi.
Þakka hlaupafélögunum á brautinni og öllu því skemmtilega fólki sem ég kynntist þar fyrir gott hlaupaár og sérstakar kveðjur til félaga úr Skokkhópi Garðabæjar, ÍR hlaup og innipúkunum í IP.
Megi nýtt ár færa okkur öllum mörg slitin skópör.
Bestu kveðjur gá
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 5
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 13
- Frá upphafi: 70682
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Flott ár að baki hjá þér og vonandi verður 2012 ekki síðra.
Sjáumst á hlaupum!
Börkur (IP-tala skráð) 1.1.2012 kl. 01:13
Takk fyrir skemmtilgan pistil Gunnar. Til hamingju með hlaupaárið og megi 2012 verða frábært hlaupár.
Takk fyrir öll samhlaup ársins.
Kær kveðja
Alma María Rögnvaldsdóttir (IP-tala skráð) 2.1.2012 kl. 00:50
Gleðilegt ár og til hamingju með frábært hlaupaár 2011!
Ingólfur Einarsson (IP-tala skráð) 2.1.2012 kl. 17:40
Flottur pistill hjá þér og glæsilegt ár að baki, það verður fróðlegt að sjá hvað þú gerir á þessu ári, en hvað sem það verður þá verður það örugglega gott!
Geir Jóhannsson (IP-tala skráð) 6.1.2012 kl. 13:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.