Reykjavíkurmaraþon 2011 – fimmta hlaup af fimm til styrktar Krabbameinsfélaginu

Þá er komið að því – síðasta hlaupið í áheitahlauparöðinni, Reykjavíkurmarþon 2011, nk. laugardag. Ótrúlegt hvað tíminn hefur verið fljótur að líða. Mér finnst örstutt síðan ég hitti fulltrúa Krabbameinsfélagsins í lok mars sl. og ræddi við þær um þá hugmynd að hlaupa til styrktar félaginu. Síðan eru 4 áheitahlaup að baki ásamt góðum skammti af æfingum og nokkrum öðrum skemmri keppnishlaupum.

 

Áheitahlaupin sem búin eru hafa verið hvert með sínu sniði. Það skal þó viðurkennt að þungamiðjan var 100 km hlaupið. Æfingaplanið var miðað við það hlaup og þegar því var lokið má eiginlega segja að planið hafi snúist um að halda sér heilum fram yfir Reykjavíkurmaraþon.

 

Fyrsta hlaupið var Parísarmaraþonið þann 10. apríl. Það hlaup „datt“ einhvern veginn inn í undirbúninginn fyrir 100 km hlaupið þannig að ég var aldrei mjög upptekinn af því hlaupi. Þegar til kom var ég mjög afslappaður fyrir hlaupið og ætlaði að sjá til hvort ég gæti hangið á 4:15 tempói og skilað mér þannig í mark á undir 3 klst. Fyrirfram var ég hreint ekki viss um að það tækist og var heldur ekkert að stressa mig yfir því. Dagurinn reyndist síðan hinn besti og ég fór út á ca. 4:10 tempói og hélt því til enda. Þegar ég lít til baka og ber hlaupin saman er eiginlega skrítið að hugsa til þess að þarna hljóp ég ásamt rúmlega 30.000 manns en fannst ég samt hlaupa einn. Ég var ekki að keppa við neinn í kringum mig heldur bara að einbeita mér að því að halda hraðanum. Þegar í mark var komið fólst ánægjan í því að hafa náð að ljúka hlaupinu á undir 3 klst. en sætið í hlaupinu skipti engu máli.

 

Næsta hlaup var 100 km hlaupið. Tvímælalaust lang erfiðasta hlaupið af öllum hlaupunum (þótt ég eigi eftir að ljúka Reykjavíkurmaraþoninu stendur til að hlaupa það afslappað og ég veit að það verður amk 5 klst. styttra en 100 km hlaupið!). Í þessu hlaupi var ég með tvö megin markmið í kollinum. Annað var að ljúka við hlaupið á undir 9 klst. og hitt var að komast á verðlaunapall. Hvorugt markmiðið í hendi en möguleiki á þeim báðum. Fyrirfram lá nokkuð fyrir að við Jói og Trausti myndum að öllum líkindum keppa um sæti 2 og 3. Lokatími líklegur í kringum 8:45-9:15. Þegar hlaupið var rúmlega hálfnað þurfti Trausti að hætta og því lá nokkuð lengi fyrir að við Jói myndum lenda í 2. og 3. sæti þannig að það markmið átti að nást að því gefnu að ekkert óvænt kæmi uppá. Þá var bara að einbeita sér að því að halda nægilegum hraða til að skila sér í mark á undir 9 klst. Það hafðist þannig að bæði aðal markmiðin í þessu hlaupi náðust.

 

Þriðja hlaupið var Laugavegurinn. Ég hvíldi alveg í tvær vikur eftir 100 km hlaupið og þá voru 3 vikur til stefnu. Fyrsta hlaupa vikan var erfið og mér fannst ég vera þungur á mér. Það skánaði í vikunni þar á eftir og síðan var enn og aftur komið að því að trappa niður síðustu vikuna. Markmiðið í þessu hlaupi var klárlega að komast undir 6 klst. eftir vonbrigði síðasta árs. Sætið skipti mig minna máli þótt vissulega hafi ég reynt að fylgjast með hvar ég væri ca í röðinni. Þarna var ekkert í hendi fyrr en í mark var komið þar sem kálfarnir voru með uppsteit frá Emstrum og voru í innbyrðis krampakeppni. Það hafðist þó fyrir rest og undir 6 tímana komst ég. Tel reyndar vera gott rými fyrir bætingu á þessari leið.

 

Þá er það fjórða hlaupið – Jökulsárhlaupið. Þetta var í fjórða skipti sem ég tek þátt í þessu hlaupi þannig að ég er farinn að þekkja leiðina vel. Fyrirfram var ég ekki með neinar sérstakar væntingar um góðan tíma. Ég hafði reyndar um áramótin sett mér það markmið að hlaupa á undir 2:45 en það var áður en ég ákvað þátttöku í 100 km hlaupinu. Ég vissi í raun ekki vel í hvaða ástandi líkaminn væri þar sem aðeins þrjár vikur voru liðnar frá Laugavegshlaupinu og æfingarnar ekkert búnar að vera sérlega markvissar. Var samt búinn að ná nokkrum ágætum æfingum og var að mestu heill. Í rútunni á leið uppeftir barst í tal hvaða markmið væru í gangi. Ég sagðist sjálfur verða ánægður með að komast á topp 20 og stefndi að því að hlaupa að minnsta kosti á undir 3 klst., helst undir 2:50 og jafnvel undir 2:48 sem var minn besti tími í brautinni. Í upphafi hlaups sýndist mér ég vera í ca 10. sæti þegar við hlupum af akveginum og inná gönguleiðina. Eftir um 5 km skrikaði mér fótur og ég var næstum floginn á hausinn. Ég náði með undraverðum hætti að koma hinni löppinni undir mig en fékk við það vondan slink á spjaldhrygginn sem enn var aumur eftir veiðiævintýrið fyrr í sumar. Það tók mig alveg um km að jafna mig og ná aftur taktinum. Ég hélt samt mínu sæti en heyrði í nokkrum hlaupurum á hælunum á mér. Eftir um 7-8 km fóru þrír hlauparar fram úr og skömmu seinna Stefán fjallahlaupari. Á þessum kafla tók ég þá meðvituðu ákvörðun að reyna ekki að fylgja þeim eftir því mér fannst ég vera að hlaupa á óþarflega háum púlsi. Ég hugsaði með mér að réttara væri að spara sig aðeins og reyna að ná niður púlsinum og reyna þá frekar að ná þeim aftur á síðasta þriðjungi hlaupsins – sem ég vissi af eigin reynslu að væri erfiðasti hluti leiðarinnar. Á þessum tímapunkti hef ég sennilega verið í 14. sæti. Þarna gerði ég mér allt í einu grein fyrir því að ég var að hlaupa þetta hlaup aðeins öðru vísi en fyrri hlaupin. Ég var farinn að hugsa meira um lokasæti í hlaupinu en lokatíma. Veit svo sem ekki hvort þetta skiptir öllu máli en mögulega er þetta betri taktík í braut þar sem meðal hraðinn á km er breytilegur. En hvað um það áfram var hlaupið og ég reyndi að sameina það tvennt að ná púlsinum niður og missa þessa fjóra ekki of langt frá mér. Á drykkjarstöðinni við Hólmatungur sá ég ennþá í þá og gaf vel í niður brekkurnar. Næst þegar ég sá fjórmenningana sá ég að það var aðeins farið að draga í sundur með þeim. Sá sem fremstur fór var búinn að ná nokkru forskoti á hina og aðeins var farið að gliðna í sundur á milli hinna. Þegar fór að styttast í drykkjarstöðina í Vesturdal kom enn einn hlauparinn, Arnar, upp að mér og fór fram úr. Þar með var ég kominn í 15. sæti. Þegar hann var farinn tók ég eftir því að önnur skóreimin var að losna þannig að ég varð að stoppa til hnýta þvenginn uppá nýtt. Ég ætti nú að vera farinn að læra að hnýta almennilega hnúta fyrir keppnir eftir öll þessi hlaup – en maður er víst bara ekkert betri en þetta. Þar sem það var frekar kalt í hlaupinu reyndist þetta ekkert sérlega auðvelt en hafðist fyrir rest. Þá var ég búinn að missa Arnar nokkuð frá mér en púlsinn var líka orðinn ansi góður. Þegar hér var komið ákvað ég að fara að keyra upp hraðann og hætta að horfa á púlsinn. Þegar við komum að drykkjarstöðinni í Vesturdal var ég farinn að draga aftur á Arnar. Eftir sopann var rokið af stað. Neðst í brekkunum við Rauðhóla náðum við einum og enn styttist bilið í Arnar. Efst í brekkunum við Rauðhóla náðum við Stefáni og enn styttist bilið í Arnar. Eftir sopann á vatnsstöðinn sem þarna var gaf ég vel í. Skömmu seinna náði ég Arnari og öðrum til sem hann hafði þá hlaupið uppi. Ég hélt mig aftan við þá í smá stund en fann að ég gat hlaupið hraðar. Þegar þeir heyrðu þrammið þyngjast viku þeir báðir og ég komst á beinu brautina. Þegar þarna var komið hafði ég enga hlaupara séð fyrir framan en sá nú allt í einu glitta í Trausta hrausta á klöppunum. Hann hafði ég ekki séð síðan í byrjun hlaups hvar hann geystist áfram á eftir fremstu mönnum. Það gaf að sjálfsögðu auka orku eins og kókómjólkin og enn var gefið í. Ég náði honum þegar ca 4-5 km voru eftir eða þegar við komum að næst síðustu drykkjarstöðinni. Þar sem ég hafði skömmu áður séð aðeins í Bjarna fyrir framan okkur Trausta sleppti ég drykkjarstoppi og hélt áfram. Bjarni var sprækur og mér fannst ganga hægt að vinna upp bilið. Það var ekki fyrr en ca 2 km voru eftir sem ég loksins náði honum. Þá kom að því að hlaupa stíginn í skóginum á brún Ásbyrgis. Þegar ég kom þar út sá ég mikla keppni í gangi á milli Finns og Péturs en það var of stutt í markið til að ég gæti blandað mér í þeirra endasprett. Þegar upp var staðið bætti ég mig um 10 mínútur frá mínum besta tíma í þessari braut sem var frá árinu 2009. Þessi ágæta bæting kom mér frekar á óvart því þótt ég hafi gert mér smá vonir um að geta bætt tímann eitthvað átti ég ekki von á þessum tíma. Eftir á að hyggja held ég að það hafi verið skynsamlegt að slaka aðeins á eftir 7-8 km og eiga orku í síðasta þriðjunginn – en auðvitað velti ég því fyrir mér hvort ég hefði ekki átt að byrja fyrr að keyra upp hraðann. Það er þó ekkert víst og getur alveg eins verið að þá hefði ég sprengt mig. En hvað um það ég náði því markmiði sem fæddist á leiðinni að enda í topp 10.

 

Í Jökulsárhlaupinu fann ég aðeins fyrir verk í vinstra aftanverðu lærinu og niður kálfann og í hásinina eftir að ég var næstum dottinn eftir 5 km. Það var hins vegar bara seiðingur og mér fannst það ekki trufla mig. Á æfingu mánudaginn á eftir fann ég hins vegar fyrir stirðleika. Á þriðjudeginum var þetta heldur verra og á miðvikudeginum enn verra – og fór ég þó hægt yfir. Ég tók því þá ákvörðun að hvíla mig aðeins á hlaupunum og sjá til hvernig ég yrði eftir það. Ég ætlaði að reyna að taka æfingu á laugardeginum en fann strax að það var ekki að gera sig þannig að ég sleppti henni. Á mánudag í þessari viku skellti ég mér á hlaupabrettið á heimavellinum í Laugum til að testa ástandið. Ég byrjaði á 5 min tempói sem ætti að skila 3:30 klst í maraþoninu. Eftir 1 km varð ég að hægja á. Eftir um 5 km gat ég aukið hraðann aftur og náði að hlaupa 2 km á 4:30 tempói sem ætti að skila 3:10 á laugardaginn. Á þriðjudag hitti ég Rúnar Marinó nuddara. Eftir hans skoðun var ljóst að öll vinstri hliðin var meira og minna stirð og léleg. Klárlega afleiðing fallsins í veiðitúrnum fyrr í sumar og síðan slinkurinn sem ég fékk á mig í Jökulsárhlaupinu. Hann tók vel á þessu og endaði með að hnykkja með braki og brestum. Engin hlaup fram að maraþoni nema létt liðkunarskokk á föstudag. Ég veit því ekki í hvernig ástandi ég verð á laugardaginn en það gerir svo sem ekkert til. Ég veit að ég mun geta klárað hlaupið og það er í raun eina markmiðið sem ég hef fyrir þetta hlaup. Ég mun samt eins og venjulega hlaupa eins hratt og ég get og í lok hlaupsins mun það koma í ljós hverju það skilar. Ég er frekar svartsýnn á að ég nái nálægt 3:10 en frekar bjartsýnn á að ég nái 3:30. Ef eitthvað annað kemur í ljós verður það í fínu lagi svo fremi sem ég skila mér í mark!

 

Eins og þeir vita sem fylgst hafa með átakinu þá er markmið mitt að safna 1.000.000 kr. til styrktar Krabbameinsfélaginu. Upphaflega ætlaði ég að hafa markið 500.000 en ákvað á síðustu stundu að setja „teygju“ markmið eins og oft er gert í hlaupunum. Nú þegar hafa margir lagt málefninu lið og styrkt átakið með því að leggja inná söfnunarreikning félagsins 0301-26-102005, kt. 700169-2789. Inn á þann reikning eru nú komnar um 250.000 kr. Inn á hlaupastyrkur.is hefur safnast þegar þetta er skrifað rétt um 425.000 eða samtals um kr. 675.000. Ég er hæstánægður með það og þakka öllum sem lagt hafa málefninu lið fyrir þeirra framlag. Öll framlög skipta máli:

 http://www.hlaupastyrkur.is/einstaklingar  

Ég þakka fyrir allan stuðninginn og hvatninguna sem ég hef fengið bæði á hlaupabrautinni sjálfri og utan hennar. Þetta hefur verið einstaklega skemmtilegt og gefandi verkefni og ég hef kynnst mörgum nýjum hlaupafélögum á árinu.  

 Að lokum hvet ég alla til að fara út að hlaupa – á meðan við getum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er frábært framtak Gunnar og ævintýralegt á margan hátt! Vel að verki staðið og rúmlega það og gríðarleg hvatning bæði til þeirra sem hlaupa, þeirra sem hafa lent hafa í einhvers konar hremmingum og allra þeirra sem lengi hafa hugsað að þeir vildu svo gjarnan koma sér af stað. Söfnunin er kærkomin, það vita allir sem þekkja málefnið en einkunnarorðin "ég hleyp af því að ég get" kannski þau mikilvægustu!

Til hamingju með þetta allt saman, megirðu þjóta framúr sem flestum á laugardaginn!

Halla Þorvaldsd (IP-tala skráð) 18.8.2011 kl. 12:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 70682

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband