Jökulsárhlaup 2011 – fjórða hlaup af fimm til styrktar Krabbameinsfélaginu

Þá er þetta farið að styttast. Nk. laugardag mun ég hlaupa fjórða hlaupið af fimm til styrktar Krabbameinsfélaginu og þá er bara Reykjavíkurmaraþonið eftir.

 

Þetta er í fjórða sinn í röð sem ég tek þátt í Jökulsárhlaupinu. Að mínu mati er þetta eitt skemmtilegasta hlaupið sem ég tek þátt í á hverju sumri. Landslagið sérlega fallegt og brautin krefjandi þótt hún sé að meðaltali niðurhallandi. Það má kannski segja að „galli“ sé við brautina að augun þurfa að vera býsna límd á henni þannig að útsýnisins verður kannski ekki notið sem skyldi. En þó, víða má sjá vel yfir þar sem brautin er sæmilega slétt.

 

Ég á góðar minningar úr Jökulsárhlaupinu í fyrra. Ég ætlaði reyndar ekki að taka þátt en eftir lélega frammistöðu á Laugaveginum í fyrra skráði ég mig í Jökulsárhlaupið á sunnudeginum eftir Laugavegshlaupið. Þá voru sex dagar í það. Núna er búið að færa hlaupið aftur fyrir verslunarmannahelgi sem gefur þrjár vikur á milli hlaupanna. Í fyrra „kom“ Laugavegurinn í lappirnar í Vesturdal þannig að þaðan var þetta frekar erfitt. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist nú þegar hvíldin er meiri en á móti kemur að álagið er líka búið að vera meira. En það var gott að geta hlaupið í fyrra á fullu blasti í ca 20 km og ná þannig gremjunni eftir Laugaveginn úr skrokknum. Það gerði ekkert til þótt síðustu 13 km hafi verið þungir. Þessi skyndiákvörðun um þátttöku gerði það líka að verkum að ég vann til 1. verðlauna í útdráttarkeppni sem þýddi flugfar út í heim fyrir 100.000. Þannig að Laugavegurinn í fyrra var kannski ekki svo slæmur eftir allt saman!

 

En að Laugaveginum í ár. Í fyrra hét ég mér því að ég myndi fara Laugaveginn á undir 6 tímum í ár – sem var markmiðið í fyrra. Um áramótin bætti ég heldur í og setti markmiðið á 5:45. Þá var ég ekki búinn að ákveða þátttöku í 100 km hlaupinu þannig að mér fannst þetta vel raunhæft markmið. Eftir að ákvörðun hafði verið tekin um 100 km hlaupið fannst mér raunhæfara að stefna á 6 tímana og var hreint ekkert viss um að það myndi hafast. Á milli hlaupanna voru 5 vikur og nokkuð fyrirséð að fyrstu 2 vikurnar færu í hvíld. Fyrsta æfingavikan var strembin og gaf ekkert sérstaklega fögur fyrirheit. Eftir það batnaði þó ástandið þannig að mér fannst vel raunhæft að stefna á upphaflega markmiðið.

 

Í ár ákvað ég að sofa heima hjá mér nóttina fyrir hlaup og taka rútuna uppeftir. Ekkert nýtt og engar tilraunir í matarmálum. Í fyrra keyrðum við upp í Hrauneyjar kvöldið fyrir hlaup og komum við á veitingastað í bænum þar sem ég hafði ekki borðað áður. Hef þann kvöldverð sterklega grunaðan um ófarirnar daginn eftir. Núna vaknaði ég rúmlega þrjú og fékk mér mitt hefðbundna ristaða brauð og grænt te. Eftir það gengu morgunverkin eins og í sögu og ég var vel stemmdur. Kl. 3:50 sendi ég sms á hlaupafélagana sem búa inni í Hafnarfirði og ætluðu að pikka mig upp á leiðinni. Ekkert svar þannig að um kl. 4 hringdi ég í Unnar. Ekkert svar. Kl. 4:10 hringdi ég í Helgu. Ekkert svar heldur. Skrítið að hitta á þau bæði í sturtu eða að blása á sér hárið? Þegar þarna var komið sögu hugsaði ég með mér að ef ég ekki heyrði í þeim á næstu mínútum myndi ég fara á mínum bíl niður á Engjaveg. Kl. 4:15 var hringt. Erum á leiðinni. Nokkrum mínútum síðar henti ég mér inní bílinn hjá þeim og reykspólað var af stað. Dekkjaslit á leiðinni var f.o.f. á köntunum og með hraðatölur verður farið eins og þyngdarmælingar kvenna. Þau höfðu gleymt einni stillingu á vekjurklukkunni sem heitir ON og símarnir stilltir á „silent“. Einhverra hluta vegna vaknaði Unnar kl. 4:09. Þau í Hafnarfirði, ég í Garðabæ. Brottarfarartími rútu frá Laugardal kl. 4:30. Það var heppilegt að dótið höfðu þau tekið til kvöldið áður og verður að segjast eins og er að það var vel af sér vikið að ná í tíma en þegar við renndum í hlað voru rúturnar settar í gang. Af stað var haldið með óblásið hár, tannburstann á lofti og stírurnar í augunum.

 

Í Hrauneyjum var eðli málsins samkvæmt margt um manninn og fiðringur í loftinu. Þar sem við höfðum lent í síðustu rútunni fengum við að bíða eftir útlendum strandaglópum sem höfðu villst af leið. Þegar við fórum af stað var okkur sagt að við yrðum 1:45 á leiðinni upp í Landmannalaugar. Hmmm, þá myndum við renna í hlað kl. 09 en þá átti að starta fyrsta hópnum. Þetta var sem sagt svona dagur. Allt á síðustu stundu og ennþá meiri spenna. En sennilega hefur tíminn eitthvað verið ofáætlaður og rútubílstjórinn stóð sig vel. Við vorum komin á svæðið rétt um kl. 08.

 

Mér fannst vera frekar svalt og var á báðum áttum með klæðnað. Ætlaði að hlaupa í hnébuxum og hlýrabol en ákvað á síðustu stundu að fara í síðermabol undir hlýrabolinn og losa mig þá við hann á leiðinni. Það reyndist ágætt því mér leið vel upp í Hrafntinnusker og það var ekki fyrr en komið var niður Jökultungurnar sem mér fór að hitna verulega. Því ákvað ég að koma við í Bláfjallakvíslinni og skilja bolinn þar eftir.

 

Á leiðinni upp í Hrafntinnusker fann ég vel fyrir því að ég hef ekki æft fjallahlaup fyrir þetta tímabil. Strax eftir 3 km fann ég að kálfarnir voru ekki alveg sáttir við hraðann þannig að ég reyndi að slaka aðeins á án þess þó að hægja mikið á mér. Það slapp til en ég var þó hræddur um að ég gæti átt eftir að borga fyrir þennan þjösnaskap síðar. Á þessum kafla fóru nokkrir fram úr mér en þó ekkert mjög margir. Þegar nálgaðist skálann í Hrafntinnuskeri náði ég einhverjum til baka og leið bara býsna vel. Þegar ég fór frá drykkjarstöðinni voru 69 mínútur liðnar frá startinu þannig að ég hafði verið tveimur mínútum fljótari en árið áður – en leið þó mun betur núna.

 

Þegar ég fór af stað frá Hrafntinnuskeri hljóp á eftir mér einhver sem hafði komið þangað rétt á undan mér og var að láta fylla á vatnsbrúsa hjá sér. Hann náði mér fljótlega og hljóp síðan með mér þar til við komum niður Jökultungurnar. Við náðum engum og enginn náði okkur. Á leiðinni tókum við spjall saman og kom í ljós að hann heitir Bjarni og hafði helgina áður gengið 24 tinda gönguna í Eyjafirðinum. Þegar við komum á flatann neðan við Jökultungurnar skildi á milli okkar og þegar ég var að fara frá drykkjarstöðinni við Álftavatn var hann að koma. Þar sem hann var með derhúfu með (eyðimerkur) slöri þekkti ég hann ekki og mundi ekki til þess að hafa séð hann áður. En til marks um það hversu tómur maður getur verið í höfðinu eftir 55 km fjallahlaup þá sá ég mann að nafni Bjarni í „heita“ pottinum eftir hlaupið og heyrði hann spjalla við einhvern í pottinum um að hann hefði helgina áður gengið 24 tindana í Eyjafirðinum. En það var ekki nóg fyrir mig til að kveikja á perunni um þetta væri sá sami Bjarni og var samferða mér milli Hrafntinnuskers og Álftavatns. Ég kveikti ekki á því fyrr en daginn eftir þegar ég fór að kanna hvar þessi Bjarni hefði endað en hann kom í mark á góðum tíma skammt á eftir mér.

 

Frá Álftavatni fór ég af stað eftir 2:14 og að Bláfjallakvísl fóru engir fram úr mér en við Kvíslina náðu mér þó einhverjir. Ég sá einn þjóta framhjá án þess að stoppa við töskurnar og þar hefur væntanlega verið Siggi Kiernan á ferðinni en ég sá hann aldrei fara fram úr þótt ljóst sé á millitímum við Hrafntinnusker og Álftavatn að hann hafi verið á eftir. Hann lenti líka í smá basli á þessum legg en náði að vinna vel úr því.

 

Frá Bláfjallakvísl og að Emstrum fannst mér ganga vel. Ég hljóp þessa ca 16 km á 1:36 og fannst ég frekar halda aftur af mér þar sem ég hafði áhyggjur af síðasta kaflanum frá Emstrum. Á þessum kafla náði ég þó 4 hlaupurum og enginn fór fram úr mér. Þarna nýttist mér vel að lítið var um brekkur en í staðinn langir sléttir kaflar á söndunum. Þarna fannst mér allar löngu æfingarnar fyrir 100 km hlaupið nýtast vel. Á drykkjarstöðinni við Emstrur leið mér vel og þaðan fór ég þegar 3:50 voru liðnar frá startinu. Það hvarflaði að mér augnablik að ef ég héldi sama dampi þá væri séns á að klára hlaupið á 5:30-5:35. Þessi hugsun dvaldi hins vegar stutt við því um leið og ég lagði af stað niður brekkuna frá Emstruskála fékk ég krampakippi í báða kálfana. Það var því ekkert annað að gera í stöðunni en að hægja á og reyna að komast niður án þess að læsast. Þessi kafli og þar til komið var upp úr giljunum var vægast sagt leiðinlegur. Tveir af þeim sem ég hafði farið fram úr áður þutu framhjá mér þegar ég var rétt búinn að paufast upp eina brekkuna. Og ég sá fleiri nálgast. Nálgast eins og orm sem liðaðist um slóðann og var að reyna að ná í skottið á mér. Þegar ég loksins komst upp úr síðasta gilinu komu á siglingu Agga, sem vann glæsilegan sigur í kvennaflokki, og einhver þjóðverji. Þarna voru brekkurnar – í bili amk – loksins búnar og við tók frekar sléttur kafli að Kápunni. Þarna tókst mér að greikka sporið án þess að allt færi í lás og náði að halda í við Öggu og þjóðverjann. Ég elti reyndar þjóðverjann einhverja bölvaða vitleysu og við lentum ofan í einhverju smá gili en komust þó upp úr því án of mikils tímataps. Kálfarnir voru hins vegar ekkert sérlega hressir með þennan vitleysisgang. En hvað um það mér tókst að hanga nokkuð vel á eftir þeim að Kápunni og það virtist aftur fara að lengjast bilið í þá sem komu þar á eftir. Kápan var erfið og þá alveg sérstaklega niðurferðin. Þar sá ég á eftir Öggu á harðaspretti á meðan ég „læddist“ niður Kápuna eins og ósmurður staurkarl. Ég fékk krampakippi reglulega en gat samt haldið áfram á gönguhraða. Frá Þröngánni og í mark gekk sæmilega og virtist sem kælingin í ánni gerði gott. Það var svo sem ekki hratt farið en ég þurfti ekki að ganga nema bröttustu brekkurnar. Þarna hljóp ég fram á Jón Ebba sem hafði farið enn verr úr krampakeppninni en ég sjálfur og þótt það sé honum eflaust lítil huggun þá hefur hann sennilega unnið þá keppni þetta árið.

 

Í mark kom ég á tímanum 5:52 og einhverjar sekúndur. Alveg frábært! Bæting frá því í fyrra um 58 mínútur og ólíkt skemmtilegri upplifun nú en þá þótt síðasti kaflinn hafi verið erfiður. En til marks um það hversu tvísýnt þetta getur verið þá var ég ekki viss um að komast undir 6 tímana fyrr en minna en 1 km var eftir í markið. Þótt hvarflað hafi að mér eitt augnablik að ég gæti verið nálægt 5:30 þá var það áður en kramparnir byrjuðu. Eftir það var þetta allt saman óljóst og ekkert í hendi fyrr en það var í hendi. Það skyldi enginn vanmeta krampa.

 

Þrjár vikur í næsta hlaup, Jökulsárhlaupið. Hvíla sig og snúa síðan enn og aftur í gang. Hingað til hef ég verið heppinn með meiðsl á tímabilinu. Fann aðeins fyrir eymslum í öðru hné í kringum 100 km hlaupið en ekkert sem hefur verið til stórra vandræða. Tók tvær stuttar liðkunar æfingar á þriðjudegi og miðvikudegi eftir Laugaveginn. Hvíldi á fimmtudeginum og tók síðan 25 km æfingu á föstudeginum. Sú æfing gekk vel og var með frekar erfiðu undirlagi. Ætlaði að taka rúmlega 20 km æfingu á laugardeginum en varð að stytta hana þar sem hnéð fór að angra mig eftir rúmlega 10 km. Hafði þó ekki miklar áhyggjur af þessu þar sem ég þóttist vita að komandi veiðitúr með hvíld fram á þriðjudag myndi gera gott. Það stóð heima, hef nánast ekkert fundið fyrir hnénu síðan.

 

Veiðitúrinn var auðvitað mjög skemmtilegur en segja má að ég hafi verið sérlega heppinn að hlaupasumrinu skyldi ekki ljúka þarna. Fyrsta vaktin byrjaði hálf brösuglega. Ég var að hnýta nýja flugu á tauminn og þegar ég var að herða hnútinn missti flugan gripið í renniláslykkjunni hjá mér og stakkst á kaf í vísfingur og þumalfingur. Sá krókur sem fór í vísifingur fór á kaf og uppfyrir agnhald. Það er í fyrsta sinn sem ég prófa það. Ég náði honum ekki úr og varð að finna mér töng til að ná taki á króknum og gat þannig rifið hann út. Sem betur fer var þetta ekki stór krókur og því gatið ekkert sérlega stórt. En mikið getur blætt úr litlu gati. Þegar ég var rétt búinn að klára að hnýta fluguna almennilega á án þess að tjóna mig meira var komið að mér að kasta. Út á lítinn klett og kastað út. Bamm! Flugan tekin með látum og lax rauk um hylinn og ætlaði sér niður strauminn fjær. Með því að taka fast á honum tókst mér að lempa hann og fá hann til að snúa við. Hann tók þá ákvörðun að skella sér niður strauminn nær, sem var ágætt því þá fældi hann síður fiskana sem eftir voru. Ég þurfti að stökkva yfir á annan klett sem gekk vel en síðan var eftir að koma sér niður. Ég tók skrefið á brúnina og hélt ég myndi síðan taka næsta skref niður. Það var öðru nær. Það næsta sem ég vissi var að ég missti undan mér löppina sem átti á stíga á brúnina og ég skall niður á spjaldhrygginn. Ég missti andann og fann að þetta var vont. Ég þorði ekki að standa strax upp og lét félagann sem var rétt á eftir mér taka stöngina. Sem betur fer hafði mér tekist að halda strekktu á laxinum í fallinu og hann á húrrandi siglingu niður strauminn – en ennþá fastur. Ég náði að jafna mig og komst að því að ég var óbrotinn og skakklappaðist til félagans og tók aftur við stönginni. Fallegum nýrunnum laxi var landað skömmu síðar, en mikið var haft fyrir honum. En sennilega var ég stálheppinn, aðeins ofar og þá hefði ég lent á mjóbakinu, aðeins neðar og þá hefði ég lent á rófubeininu. Ekki víst að ég hefði þá sloppið jafn vel. Það sem eftir lifði veiðitúrsins voru bruddar verkjatöflur og haldið áfram að veiða.

 

Næstu daga bruddi ég bólgueyðandi og hljóp varlega. Á fimmtudeginum hljóp ég 25 km hring sem gekk ágætlega þótt ég væri ekki verkjalaus. Á laugardeginum, viku fyrir keppni, hljóp ég 16 km inni í Þórsmörk. Hljóp að hluta til sömu leið og hlaupin er í Laugavegshlaupinu. Ólíkt léttara nú heldur en sem lokaspretturinn fyrir tveimur vikum. Í gær, mánudag, hljóp ég í fyrsta skipti í langan tíma interval æfingu sem samanstóð af þremur settum með þremur eins km sprettum hvert eða samtals 9 sprettir. Ég er staddur á Dalvík og tók þessa æfingu á malarbrautinni í bænum. Þessi æfing gekk vonum framar og mér fannst ég ágætlega sprækur. Í dag verður tekin róleg 10-15 km æfing og sennilega eitthvað svipað á morgun eða fimmtudag. Að öðru leyti tek ég því rólega fram á laugardag.

 

Eins og þeir vita sem fylgst hafa með átakinu þá er markmið mitt að safna 1.000.000 kr. til styrktar Krabbameinsfélaginu. Nú þegar hafa margir lagt málefninu lið og styrkt átakið með því að leggja inná söfnunarreikning félagsins 0301-26-102005, kt. 700169-2789. Í tengslum við Reykjavíkurmaraþonið, sem verður  síðasta hlaupið mitt í átakinu, er búið að opna styrktarsíðu. Þar er hægt að fara inná meðfylgjandi vefslóð og slá inn nafnið mitt og nota þá leið til áheita:

 http://www.hlaupastyrkur.is/einstaklingar 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 70682

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband