Laugavegurinn 2011 – þriðja hlaup af fimm til styrktar Krabbameinsfélaginu

Laugardaginn nk. mun ég hlaupa Laugavegshlaupið 2011 sem er þriðja hlaupið af fimm til styrktar Krabbameinsfélaginu. Spennan er farin að byggjast upp og fylgst er vel með veðurspánni – sem stendur er hún mjög góð og eykur það eftirvæntinguna. Ég hljóp þessa leið í fyrsta sinn í fyrra í sérlega góðu veðri. Samt eru minningarnar æði blendnar. Ég hafði stefnt á að komast leiðina á undir 6 tímum en það fór töluvert öðruvísi. Fékk magakrampa á leið upp í Hrafntinnusker eftir um 8 km og losnaði ekki við hann það sem eftir lifði hlaups. Hljóp í keng 45 km og gat enga næringu innbyrt á leiðinni og satt að segja var þetta frekar leiðinleg lífsreynsla. En eins og mottóið segir: það sem ekki drepur mann styrkir mann. Nú verður reynt aftur og vonandi verður þetta hlaup skemmtilegra en fyrir ári og enn er stefnt að því að komast undir 6 tímana.

 

Ég skal játa það að ég er töluvert forvitinn að sjá hvernig líkaminn bregst nú við í löngu og erfiðu fjallahlaupi rétt um mánuði eftir 100 km hlaupið. Þótt ég hafi sennilega aldrei á æfinni verið í jafn góðu formi verður því ekki neitað að álagið síðustu mánuðina hefur verið umtalsvert. Það tók tíma að jafna sig eftir 100 km hlaupið og síðan að koma sér af stað aftur. Ég var ekki fyrr farinn að hreyfa mig þegar aftur var komið að því að trappa niður. Ég renni því nokkuð blint í sjóinn en er þó ánægður með nokkrar lykilæfingar sem ég náði á þessu tímabili.

 

Eins og þeir vita sem fylgst hafa með átakinu þá er markmið mitt að safna 1.000.000 kr. til styrktar Krabbameinsfélaginu. Nú þegar hafa margir lagt málefninu lið og styrkt átakið með því að leggja inná söfnunarreikning félagsins 0301-26-102005, kt. 700169-2789. Í tengslum við Reykjavíkurmaraþonið, sem verður  síðasta hlaupið mitt í átakinu, er búið að opna styrktarsíðu. Þar er hægt að fara inná meðfylgjandi vefslóð og slá inn nafnið mitt og nota þá leið til áheits:

 http://www.hlaupastyrkur.is/einstaklingar  

Fyrir sjálfan mig og aðra áhugasama um hlaup og æfingar ætla ég að lýsa aðeins 100 km hlaupinu og þeim undirbúningi sem ég hef náð fyrir Laugaveginn eftir 100 km hlaupið.

 

Morguninn 11. júní var vaknað snemma til að sinna hefðbundnum morgunverkum og koma sér í gallann. Hlaupið átti að hefjast kl. 7 og mælt var með því að keppendur væru mættir um kl. 6:30. Á hlaupasvæðinu var undirbúningur á fullu þegar ég mætti og hlauparar að týnast inn. Sigurjón Sigurbjörnsson mætti með bikarinn frá síðasta 100 km hlaupi og það var auðséð að þann bikar ætlaði hann með heim aftur, amk þurfti Gísli Ásgeirsson að rykkja vel í til að Sigurjón sleppti takinu. En hvað um það, það styttist í ræsingu og eftirvæntingin augljós hjá keppendum. Það eina sem hægt var að setja út á skipulagninguna hjá keppnishöldurum var að veðrið sem lofað hafði verið var eitthvað að flýta sér og fór mun hraðar yfir en til stóð. Strekkingsvindur var að austan og því ljóst að við myndum þurfa að hlaupa til skiptis með hann í fangið og bakið. Það eru ekki kjöraðstæður til hlaupa því einhvern vegin er það svo að vindurinn í bakið skilar ekki því sem hann tekur úr á móti. Ofan á þetta bættist að það fór að rigna aðeins þegar líða tók á morguninn en sem betur fer stóð það þó ekki lengi. Upp úr hádeginu fór aðeins að draga úr vindstyrknum og má segja að þetta hafi verið þokkalega bærilegt eftir það.

 

Það lá strax fyrir að þetta hlaup gæti orðið sögulegt. Sigurjón gaf það út að hann stefndi á að slá sitt eigið Íslandsmet og það myndarlega því hann ætlaði að reyna að hlaupa á undir 8 klst. Sjálfur stefndi ég á að komast undir 9 klst. og helst sem næst 8:30. Jói Gylfa og Trausti Valdimars voru áræðanlega með svipuð markmið í huga þótt ég viti ekki þeirra ýtrustu markmið. Þá voru þarna fleiri keppendur sem voru líklegir til að fara undir 10 klst. tímamörkin. Þess má geta að fram að þessu hlaupi hafði aðeins tveimur Íslendingum tekist að rjúfa þann múr og þeir báðir reyndar einnig 9 klst. múrinn (Sigurjón 8:20 og Ágúst Kvaran 8:43).

 

Strax eftir ræsinguna tók Sigurjón á mikinn sprett og skildi aðra keppendur eftir í reyk. Ég, Jói og Trausti héldum hópinn til að byrja með og Sæbjörg Logadóttir kom í humátt á eftir okkur. Á eftir henni komu síðan Elín Reed og Anton Magnússon. Þannig hélst þetta lengi framan af en á endasprettinum náði Björn Ragnarsson að skjóta sér á milli Elínar og Antons og smeygja sér undir 10 klst. tímamörkin.

 

Fyrstu ca 30 km hlupum við þremenningarnir saman og skiptumst á að brjóta vindinn á bakaleiðinni. Það gekk vel en verður að viðurkennast að við hlupum of hratt á móti vindinum. Sigurjón gerði það auðvitað að verkum að okkur fannst við ekkert fara sérlega hratt! Við vorum oftast á kringum 4:40 pace á bakaleiðinni þótt einstaka ferð hafi verið hægari og þá nálægt 5:00 pace. Þessi kafli var léttur eins og við mátti búast og mikið spjallað. Við dáðumst að sjálfsögðu að Sigurjóni sem hljóp listilega vel og ekki má gleyma því að hann hafði engan að skiptast á við að brjóta vindinn fyrstu kílómetrana – frekar en sigurvegarinn í kvennaflokki hún Sæbjörg.

 

Eftir þessa fyrstu ca 30 km þurfti ég að kasta af mér vatni. Við það missti ég Jóa og Trausta nokkuð framúr mér. Þegar ég lagði aftur af stað ætlaði ég að ná þeim til að geta nýtt áfram samvinnuna á móti vindinum. Þeir voru hins vegar ekkert á þeim buxunum að slaka á og héldu sínu spori giska léttir. Trausti hafði reyndar einnig tekið pissustopp um leið og ég en verið fljótari þannig að það var alltaf styttra í hann. Ég náði honum eftir einn eða tvo leggi og við hlupum síðan saman þar til fór að draga af Trausta vegna kvilla sem hann fékk í annað lærið. Það var afar leitt að þurfa að sjá á eftir honum úr hlaupinu eftir ca 55 km.

 

Eftir um 45 km fannst mér ég vera búinn að hlaupa heldur of hratt miðað við ástandið á mér þá. Vindurinn var erfiður og tveimur dögum fyrir hlaup vaknaði ég upp með hálsbólgu sem hafði heldur verið að færast í aukana fram að hlaupadegi. Ég ákvað því á þessum tímapunkti að slá aðeins af og einbeita mér að því að komast vegalengdina á undir 9 klst. og jafnframt að halda þriðja sætinu sem ég var þá í. Þeir keppendur sem á þeim tíma voru næstir mér voru Trausti og Sæbjörg. Eins og ég nefndi þurfti Trausti því miður að hætta en Sæbjörg hélt sínu striki og endaði á að setja glæsilegt Íslandsmet í kvennaflokki á 9:12. Þegar upp var staðið mátti ég hafa mig allan við að ljúka hlaupinu á undan henni og þess má geta að hún hljóp seinni 50 km heldur hraðar en ég.

 

Við 60 km markið sagði Gunnlaugur Júlíusson ofurhlaupari mér að nú væri hlaupið fyrst að hefjast. Það voru sérlega upplífgandi upplýsingar! Mér leið reyndar ágætlega á þessum tímapunkti og aðeins minna en heilt maraþon eftir. En auðvitað hafði Gunnlaugur rétt fyrir sér. Nú fór þreytan að segja verulega til sín og andlega hliðin fór að skipta miklu máli. Á hverjum snúningi frá 30 km markinu jókst alltaf bilið milli mín og Jóa og frá 45 km markinu hafði bilið milli mín og Sæbjargar annað hvort verið það sama eða örlítið minna. Þegar ég fór af stað í legginn eftir 60 km fór ég að hugsa um það eitt að nú þyrfti ég að „ýta“ markinu upp í 70 km, reyndi að hugsa ekkert um þá 30 km sem þá væru eftir. Þegar 65 km voru komnir þá var hugsunin sú að nú þyrfti ég bara að klára þennan legg og þá gæti ég „ýtt“ markinu upp í 80 km. Við 70 km markið tók ég eftir því að bilið á milli mín og Jóa hafði ekki aukist. Km 70 til 80 voru ansi erfiðir en ég tók þó eftir því að ég var farinn að minnka bilið á milli okkar Jóa. Ég vissi það þá alla vega að honum leið ekkert betur en mér og var örugglega í sömu baráttunni í hausnum. Við 80 km markið fannst mér ég ná góðum áfanga. Þá var „bara“ tæpt hálft maraþon eftir. Þegar ég var að koma í marksvæðið við 85 km snúninginn sá ég að Jói var ekki enn farinn út. Ég ætlaði að herða aðeins á mér en fékk þá strax aðkenningu að krampa í annað lærið. Ég varð því að slá strax af aftur og nánast læðast upp brekkuna að markinu. Sem betur fer þá losnaði ég fljótt við krampann og gat farið út rétt á eftir Jóa. Það kom fljótlega í ljós að Jói var í enn meiri vandræðum en ég þannig að ég náði honum brátt þótt ekki hafi verið neinn glæsibragur á því. Við 90 km var bara eitt 10 km hlaup eftir. Þótt það væri ekki langt varð þó að fara gætilega því lítið mátti út af bregða til að krampinn léti ekki aftur á sér kræla. Síðasti 5 km leggurinn var allt að því skemmtilegur. Það var frábær tilfinning þegar einungis um tveir km voru eftir og mér var orðið ljóst að ég kæmist vel undir 9 klst. og myndi að auki komast á pall og það í annað sætið.

 

Þetta var mjög skemmtilegt hlaup og vel getur verið að ég eigi eftir að endurtaka það síðar. Að sjálfsögðu var sérlega ánægjulegt að hafa verið þátttakandi í því hlaupi þar sem sett voru tvö glæsileg Íslandsmet í flokkum karla og kvenna. Í báðum tilvikum tímar sem skipa sigurvegurunum í fremstu röð hlaupara í þessari vegalengd á Norðurlöndunum og jafnvel í heiminum. Að auki stimplaði Sigurjón sig inn sem einn af allra bestu hlaupurum í þessari vegalengd í sínum aldursflokki frá upphafi. Þessum frábæra árangri til viðbótar komumst við Jói báðir undir 9 klst. markið og Elín Reed bætti sinn tíma verulegu og fór langt undir 10 klst. markið. Björn náði því einnig eins og áður hefur verið nefnt. Í þessu eina hlaupi bættust því við 5 Íslendingar sem náð hafa að hlaupa vegalengdina á undir 10 klst. og þar af tveir undir 9 klst.

 

Þetta hlaup tók í. Ég gerði lítið næstu daga annað en að hvíla mig. Á miðvikudeginum eftir hlaup var ég kominn á árbakka norður í Mývatnssveit í árlegan veiðitúr. Það var að venju ánægjulegt þótt kalt hafi verið í veðri. Ég var stirður og skakkur fyrstu dagana en það lagaðist þegar á leið veiðitúrinn. Einkennum hálsbólgunnar var haldið niðri með mismunandi tegundum verkjalyfja. Á laugardeginum var haldið heim á leið og þá sagði líkaminn hingað og ekki lengra. Ég lá flatur fram á miðvikudag með þá alverstu hálsbólgu sem ég hef náð mér í.

 

Á föstudeginum 24. júní varð mér litið á dagatalið og fór að telja. Það voru víst ekki nema þrjár vikur þar til Laugvegshlaupið var á dagskrá. Ekki seinna vænna að fara að láta reyna á skrokkinn þótt hálsbólgan væri enn til staðar. Ég byrjaði á léttri brettaæfingu á föstudeginum sem gekk ágætlega. Næst var að skella sér á sæmilega langa laugardagsæfingu. Ég mætti í sundlaug Garðabæjar kl. 09:30 og ætlaði að hlaupa með Ragga hring sem átti að vera 20-25 km. Þegar til kom vorum við þeir einu sem mættum úr skokkhópnum okkar en hittum þess í stað galvaskan hóp undir stjórn Sigurðar P. sem var að fara í sína lengstu æfingu fyrir Laugaveginn. Við ákváðum að slást í för með þeim og sjá til hversu langt við myndum fara með þeim. Ég hafði þá þegar lokið við rúmlega 5 km hring og fannst frekar langt að fara 37-38 km og var hreint ekki viss um hvort ég myndi ráða við það. Þegar komið var upp að lykkju og hópurinn tók strikið yfir í norðurenda Heiðmerkur stóðst ég ekki mátið og skellti mér með. Ég hafði farið frekar rólega af stað en gaf vel í upp Vífilstaðahlíðina. Ég fór í humátt á eftir næst fremstu mönnum og náði þeim við stóra hringinn í norðurendanum. Var ánægður með stöðuna og gaf vel í niður brekkurnar og að Gvendarbrunnum. Þegar þangað var komið var vegurinn hlaupinn til baka og þar tæmdist tankurinn skyndilega. Ég þurfti að hægja verulega á mér og var samt að drepast. Þegar við vorum að nálgast Vífilstaðahlíðina sá ég mér þann kost vænstan að hringja í eiginkonuna og fá hana til að bjarga mér úr minni sjálfsköpuðu prísund. Þegar upp var staðið hljóp ég um 32 km og var sprækur fram að 25-26 km. Það var í sjálfu sér ágætt en augljóst að töluvert vantaði upp á að ég væri tilbúinn í alvöru átök á Laugaveginum.

 

Í vikunni á eftir tók ég 12 og 18 km æfingar á brettinu á mánudeginum og þriðjudeginum sem gengu ágætlega. Á fimmtudeginum skellti ég mér góðan túr upp í Heiðmörk og hljóp að Helgafellinu, gekk upp og hljóp niður. Fór torfæra leið til baka yfir að Búrfelli og niður Búrfellsgjána og þaðan heim. Fann vel fyrir lærunum daginn eftir og hvíldi því. Á laugardeginum tók ég þátt í Snæfellsjökulshlaupinu sem var þreytt í fyrsta sinn. Mjög skemmtilegt hlaup og við vorum heppin með veður. Fyrstu tæpu 9 km voru allir á fótinn og stundum nokkuð bratt auk þess sem skaflar voru okkur til skemmtunar á efsta hlutanum. Ég fann það á leiðinni upp að framanverð lærin voru ekki alveg að fíla þessa meðferð þannig að ég hægði aðeins á mér og gekk upp bröttustu brekkurnar. Þegar upp var komið spretti ég úr spori eins og ég gat og reyndist það frekar létt. Niðurhlaupið gekk því mun betur en hlaupið upp og náði ég að mjaka mér upp um nokkur sæti. Fann hins vegar æði vel fyrir hlaupinu daginn eftir og einnig á mánudeginum. Læri og mjaðmaliðir aumir og ekki frá því að ég fyndi aðeins til í öðru hnénu.

 

Fyrsta heila æfingavikan að baki og bara tvær vikur í Laugaveginn og því í raun komið að niðurtröppun. Frekar skrítin tilhugsun því mér fannst ég ekki enn vera búinn að ná úr mér hundraðkallinum og því langt frá því að vera tilbúinn. Ég hvíldi alveg á mánudag og þriðjudag og tók mjög stutt hlaup á miðvikudeginum. Þá virtist allt vera komið í lag þannig að ég ákvað að taka langa hlaup þessarar viku á fimmtudeginum. Ég fór upp í Heiðmörk með það í huga að hlaupa amk 30-35 km og reyna að þræða brekkur eins og hægt væri. Það er skemmst frá því að segja að þessi æfing gekk vel og þegar ég var kominn heim var ég búinn með um 41 km þannig að það var ekki um annað að ræða en að bæta við 1,2 km til að klára maraþonvegalengdina. Mér telst til að með þessu hlaupi sé ég búinn að hlaupa 11 hlaup á æfingum og keppni á árinu sem eru 42,2 km eða lengri. Á laugardeginum var ég í fjölskylduútilegu í Fljótstungu (hinu megin við Húsafell) þannig að ég hljóp sama hring og ég gerði fyrir ári síðan af sama tilefni. Í fyrra var hringurinn 25 km en ég lét mér duga 24 km nú. Þessi æfing gekk vel en ég fann þó að ég var aumur í öðru hnénu. Ein vika í Laugaveginn. Á mánudaginn tók ég léttan 14 km hring með Bjössa uppí Heiðmörk og fann ekkert fyrir hnénu. Ég var búinn að ákveða að taka þátt í Ármannshlaupinu á þriðjudag og átti það að vera smá test á ástandið. Ég hef lítið hlaupið hratt undanfarnar vikur þannig að það var nokkuð óljóst hvernig þetta myndi ganga. Mig langaði að reyna að hlaupa á undir 40 mín en ætlaði þó ekki að keyra mig út í hlaupinu. Þegar til kom gekk þetta vel og mér fannst þetta léttara nú en fyrir ári síðan þegar ég sló af eftir 5 km til að taka ekki of mikið úr mér. En eins og síðar kom í ljós reyndist það síðan til lítils.

 

En sem sagt, mér sýnist ég vera búinn að stilla drusluna eins og hægt er og nú er það bara hvíld fram að hlaupi. Það yrði reyndar kærkomið ef þessi ólánshálsbólga yrði ekki með í för en mér finnst eins og hún sé nú loksins á einhverju undanhaldi. Ég er svo sem búinn að halda það áður og hafa rangt fyrir mér þannig að það verður að koma í ljós eins og annað.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að lesa þessa lýsingu hjá þér Gunnar. Við fjölskyldan verðum líklegast í mörkinni um helgina og hlökkum til að taka á móti þér í markinu. Ég spái því að maginn verði góður og að þú farir langt undir 6 tímana. Gangi þér vel.

Alma María Rögnvaldsdóttir (IP-tala skráð) 14.7.2011 kl. 10:34

2 identicon

Sæll Gunnar, skemmtilegt að fylgjast með þessu ævintýralega keppnis sumri hjá þér. Ég spái sub 5:30, léttskýjuðu, 10 stiga hita og logni á Laugardaginn.

Gunnar Már Gunnarsson (IP-tala skráð) 14.7.2011 kl. 12:32

3 identicon

Ég dobbla það sem Gunnar Már sagði!

Börkur (IP-tala skráð) 14.7.2011 kl. 20:23

4 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Mihi opus est minkere sagði kappinn eftir 30 km. Þessar þvaglátasögur róa mig alveg í sófanum yfir e-u einkisverðu bulli í kassanum.

Sigurbjörn Sveinsson, 14.7.2011 kl. 21:07

5 identicon

Heill og sæll Gunnar.

Innilega til hamingju með þinn glæsilega árangur í hlaupinu í gær. Gaman verður að lesa blogg þitt um þetta hlaup.

Hlaup þín eru mikil hvatning fyrir mjög marga. Vð fylgjumst með.

Ragnheiður Haraldsdóttir

Ragnheiður Haraldsdóttir (IP-tala skráð) 17.7.2011 kl. 08:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband