Aftur til lífsins - að geta dregið andann, hlaupið 100 km eða unnið Tour De France

„Ég vildi frekar greinast með krabbamein en vinna „Tour De France““ segir hjólreiðakappinn Lance Armstrong, sem vann keppnina 7 sinnum eftir að hafa gengið í gegnum erfiða krabbameinsmeðferð.

 

Ég er ekki viss um að ég taki undir þessi orð Lance en ég held ég skilji hvað hann á við. Það vill enginn greinast með krabbamein. En hann segir sjálfur í bók sinni „It´s not about the bike; My journey back to life“ að sýn hans til lífsins hafi breyst og gert hann að betri manneskju að hans eigin mati. Ég get örugglega tekið undir þau orð; sýn mín til lífsins hefur breyst en auðvitað veit ég ekki hvort ég er betri manneskja en ég hefði orðið. Ég get vonað það en mig skortir samanburðinn.

 

Síðustu daga hef ég legið flatur með sérlega vonda hálsbólgu. Eiginkonan gaf mér ofangreinda bók Lance Armstrong og ég kláraði lestur hennar í gær. Þetta er góð bók og margir sameiginlegar fletir sem ég sé með hans upplifun og minni á að berjast við krabbamein. Ég er ekki sammála öllu sem hann segir en það er þó mjög margt sem hann segir sem snart mig.

 

Ástæða þess að konan gaf mér bókina var sú að ég lauk nýlega við að hlaupa 100 km keppnishlaup og af því tilefni gaf hún mér bókina. Fyrir mér var það að ljúka umræddu hlaupi mikil áskorun. Til að byrja með var það mikil áskorun að geta yfir höfuð hlaupið. Það var líka áskorun að geta klárað 10 km keppnishlaup. Þá var það næstum ókleifur veggur að geta klárað maraþon. Síðar fæddust drög að  draumi. Það var að ná því að komast á verðlaunapall í viðurkenndri hlaupakeppni á Íslandsmóti. Draumur sem ég hélt fyrir greininguna að myndi aldrei rætast. Ég valdi mér að sjálfsögðu grein sem frekar fáir leggja stund á til að auka möguleikana! En grein sem kallar á þolinmæði og úthald. Nokkuð sem krabbameinssjúklingar fá ágæta þjálfun í. Það var því sérlega ánægjulegt að heyra fyrir ræsinguna að þetta 100 km hlaup hefði verið viðurkennt sem opinbert Íslandsmeistaramót í greininni – og ég komst á pall! Ekki gleyma því að fyrir ekki svo löngu síðan var draumurinn einfaldlega sá að geta dregið lífsandann. Lance Armstrong átti sér sama draum – áður en honum datt til hugar að hann gæti unnið Tour De France.

 

Þar sem panta þurfti bókina fékk ég hana ekki í hendur fyrr enn á mánudaginn var, sem kom sér vel í flensunni. Sjálfsagt get ég að einhverju leyti kennt sjálfum mér um hversu svæsin hálsbólgan er búin að vera. Eftir meðferðina hefur ónæmiskerfið verið heldur lakara en það var áður. Rúmri viku fyrir hlaup fór ég að finna fyrir kvefpest og á fimmtudeginum fyrir hlaup vaknaði ég upp með hálsbólgu. Í síðustu viku var síðan haldið í fyrsta veiðitúr sumarsins og þar var reynt að halda hálsbólgunni niðri með verkjalyfjum og bjór. Ekkert sérlega skynsamlegt ekki síst þar sem það styttist í næsta stóra hlaup, Laugaveginn þann 16. júlí. En ég sagði ekki að maður yrði skynsamari af því að ganga í gegnum krabbameinsmeðferð – kannski stundum þvert á móti. Ég að minnsta kosti geri orðið ýmislegt sem ég myndi ekki hafa gert áður. Carpe diem, seize the day!

 

Mér fannst athyglisvert í frásögn Lance að lesa um baráttu hans við að komast aftur í fremstu röð hjólreiðakappa. Það var erfitt ferðalag með miklum sjálfsefasemdum. Hann gafst upp á leiðinni, oftar en einu sinni. Ef hann veiktist hélt hann að krabbinn væri aftur kominn á stjá. Ef hann var slappur á æfingu var hann viss um krabbinn væri á ferðinni. Þetta eru tilfinningar sem ég þekki hjá sjálfum mér. Efasemdirnar og hræðslan við að fá bakslag. En einhver innri þrá rak Lance aftur af stað. Einhver þörf hans til að sanna fyrir sjálfum sér að hann gæti. Sú upplifun hans held ég að margir krabbameinssjúklingar eigi sameiginlega. Einhverja þrá til að sanna eitthvað fyrir sjálfum sér.  Eitthvert markmið sem hver og einn setur sér. Einhver fortíðardraumur. Gera eitthvað sem aldrei hafði verið gert áður. Eða gera eitthvað aftur. Eða gera það betur. Auðvitað fara fæstir í skó Lance Armstrong og vinna Tour De France. En flestir eiga sér sitt eigið Tour De France. Það er það sem skiptir máli. Í mínu tilviki var Tour De France að geta hlaupið. Þess vegna hleyp ég – af því að ég get það.

 

Ég held að margir sem hafa gengið í gegnum krabbameinsmeðferð geti fundið sér samsvörun í sögu Lance. Það að fá annað tækifæri í lífinu er ekki öllum gefið. Það að ganga í gegnum krabbameinsmeðferð gerir mann sjálfkrafa að hluta af mjög sérstöku samfélagi. Samfélagi þar sem einstök samkennd ríkir og samfélagi þar sem fólk skilur vel hvert annað. Sjálfum er mér ekkert sérlega vel við að tala um líkur. Tilteknar líkur gera afskaplega lítið fyrir einstaklinginn – bara svo fremi sem það eru einhverjar líkur, von. Annað hvort finnst lækning – eða ekki. Annað hvort ertu 100% réttu megin – eða ekki.

 

Hvað er það sem gerir sumum okkar kleift að komast í gegnum krabbameinsmeðferð og öðrum ekki? Er það eitthvað í okkur sjálfum, eru það vísindin eða einfaldlega kraftaverk? Lance svarar þessari spurningu að mínu mati vel (lausl. þýðing):

 „Ég veit það ekki. Ég veit að sumt fólk lítur til mín í von um svar. En ef ég vissi svarið hefðum við lækningu við krabbameini og það sem meira er, við myndum vita tilganginn með tilverunni. Ég get veitt hvatningu, von og ráðgjöf en ég get ekki svarað því sem ekki er hægt að vita. Persónulega þarf ég þess ekki. Ég er ánægður með að vera á lífi og geta upplifað leyndardóminn“.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 70682

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband