Hvar liggja styrkleikar Íslands og Íslendinga? Hvar eru sóknarfærin?

Á Íslandi býr þjóð sem telur um 320.000 manns. Þjóðin býr við mikil náttúruleg gæði. Á tiltölulega fáum árum hefur þjóðinni tekist að komast úr fátækt og náð að skipa sér meðal ríkustu þjóða heimsins. Þetta hefur þjóðinni tekist með því að læra á náttúruna og nýta sér hana til framfærslu og auðlegðar. Áar okkar sem brutust undan erlendu valdi sáu að til  þess að geta betur ráðið sínum eigin málum og tekið þau í sínar hendur yrðu Íslendingar að mennta sig. Til að byrja með voru það fyrst og fremst ævintýragjarnir ungir karlmenn sem voru aldir upp við húslestur arfasagna Íslendinga sem lögðu í ferðir til framandi landa og brutustu til mennta. Oftar en ekki var þeim þetta kleift vegna framsýni manna sem höfðu náð að komast í nokkrar álnir og gátu styrkt þá til fararinnar. Segja má að þetta hafi verið framsýnir fjárfestar sem hugsuðu ekki um stundargróða fyrir sjálfa sig heldur voru þeir að fjárfesta í framtíð Íslendinga. Þessi framtíðarsýn þeirra skilaði sér að lokum í því að árið 1911, þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar forseta, var Háskóli Íslands stofnaður. Síðan þá hefur Háskólinn vaxið og dafnað í 100 ár og hér á landi hefur verið byggt upp öflugt menntakerfi sem að flestra mati stenst vel samanburð við það sem best þekkist.

 

Fullyrða má að á þeim 100 árum sem liðin eru frá stofnun Háskóla Íslands hafi fáar ef nokkrar þjóðir heimsins náð jafn góðum árangri í að mennta þjóð sína og nýta sér menntun til almennrar velsældar fyrir þjóðfélagið allt. Mögulega er hluti af skýringunni sú staðreynd hversu fámenn þjóðin er og þegar „hún" ákveður eitthvað þá getur hún gert hlutina hratt. Á arfi forfeðranna hefur okkur tekist að búa til þjóð og þjóðskipulag sem margir líta til með aðdáun. Í smæðinni geta þó líka falist veikleikar eins og við höfum orðið áþreifanlega vör við. Á hinn bóginn þarf það ekki að koma á óvart þótt ung og kröftug þjóð geti gert mistök og stigið út af sporinu. Þá er mikilvægt að staldra við, skoða hvað fór úrskeiðis og reyna að læra af mistökunum. Finna hvar styrkleikarnir liggja og halda áfram uppbyggingunni út frá þeim.

 

Íslendingar hafa um langt árabil menntað lækna sína í Háskóla Íslands. Smæðar þjóðarinnar vegna hafa íslenskir læknar þurft að sækja sér framhaldsmenntun til erlendra landa. Í því samhengi getur verið hollt fyrir þá sem hér hafi valist til pólitískra valda á undangengnum áratugum að hafa í huga að það er ekki fyrir þeirra tilstilli að hinir íslensku læknar hafa valið sér bestu menntastofnanir beggja vegna Atlantsála og víðar. Það er þetta fólk, sem hefur á eigin vegum og verðleikum aflað sér framhaldsmenntunar og valið að snúa heima til Íslands, sem hefur lagt grunninn að þeirri heilbrigðisþjónustu sem við Íslendingar viljum gjarnan stæra okkur af í alþjóðlegum samanburði. Í þennan suðupott þess besta sem þekkist í nútíma læknisfræði heimsins hafa síðan bæst aðrar vel menntaðar heilbrigðisstéttir sem hafa komið með réttu kryddin og gert heilbrigðisþjónustuna að því sem við höfum búið við. 

 

Á síðustu áratugum hefur Íslendingum tekist að bæta við sem grunnstoð í þjóðskipulaginu mjög öflugri heilbrigðisþjónustu - að sumra mati þrátt fyrir kerfið en ekki vegna þess. Það er á þessari grunnstoð sem PrimaCare ehf. hyggst byggja upp þjónustu sem sniðin er að erlendum sjúklingum. Í alþjóðlegu samhengi geta Íslendingar sýnt fram á heilbrigðistölfræði sem á sumum sviðum stenst samanburð við það besta sem þekkist. Delottie Health Care Solution í USA hefur unnið rannsóknarskýrslu fyrir PrimaCare til að meta möguleika félagsins til að laða erlenda sjúklinga til Íslands. Í þeirri skýrslu kemur fram að sú heilbrigðisþjónusta sem veitt er á Íslandi staðsetji landið á meðal þeirra fremstu í alþjóðlegu samhengi. Þá stendur Ísland að þessu leytinu til mun framar en flest þau lönd sem nú eru að reyna að hasla sér völl á hinum ört vaxandi heilsutengda ferðamarkaði. Samkvæmt Euro Health Consumer INDEX árið 2009 lenti Ísland í þriðja sæti af 33 löndum með 811 stig af 1000 mögulegum. Í umsögn um íslenska heilbrigðiskerfið sagði að í raun væri það í stakk búið til að þjóna allt að 2 milljónum íbúa. Í sömu umsögn sagði að aðal ástæða þess hversu vel Ísland stæði í samanburðinum væri sú staðreynd að íslenskir læknar þyrftu að sækja sér framhaldsmenntun til útlanda og vegna þessa byggju Íslendingar við einstaklega gott tengslanet sem nýttist þeim vel.

 

Af framangreindu má því draga þá ályktun að einn af styrkleikum Íslands og Íslendinga felist í öflugri heilbrigðisþjónustu í alþjóðlegu samhengi. Aðrir augljósir styrkleikar þar sem Íslendingar standa framarlega í alþjóðlegu samhengi eru í sjávarútvegi og nýtingu orkuauðlinda eins og jarðvarma og fallvatna. Þá nefna margir til sögunnar landið sjálft og hreinleika þess og ef vel er haldið á spilunum geti Íslendingar gert sig gildandi í umhverfismálum. Kannski er það einmitt þar sem mestu möguleikar Íslendinga felast. Í umhverfismálum í víðu samhengi. Umgengni um náttúruauðlindir og nýting þeirra eru umhverfismál. Heilbrigðismál eru umhverfismál.

 

Í nýlegri skýrslu World Health Organization, WHO, frá 2009 sem ber heitið „Healthy hospitals, healthy planet, healthy people", segir m.a. að heilbrigðisgeirinn geti og eigi að leika lykilhlutverk í því að draga úr neikvæðum áhrifum af mannavöldum á loftslagsbreytingar. Spítalar eru orku- og aðfangafrekir í víðum skilningi þess orðs og eins og þeir starfa í dag hafa þeir margvísleg neikvæð áhrif á loftslagsbreytingar. Með því að draga úr kolefnisfótsporum spítala og stefna að því að þau verði engin getur heilbrigðisgeirinn tekið forystuna í því að stefna að heilbrigðri og sjálfbærri framtíð. Þetta er nokkuð sem fjölmörg samtök og fyrirtæki hafa áttað sig á og eru með markvissum hætti farin að nýta sér slíka nálgun - ekki eingöngu vegna þess að þau hafa trú á að það sé til lengri tíma skynsamlegri nálgun út frá sjónarmiðum sjálfbærni heldur einnig í markaðslegu tilliti.

 

Áform PrimaCare ehf. felast ekki eingöngu í því að nýta sér þá grunnstoð sem heilbrigðisþjónustan á Íslandi er orðin með viðurkenndu orðspori á alþjóðavísu. Framtíðarsýn félagsins felst jafnframt í því að tengja hina læknisfræðilegu þjónustu við ábyrga og sjálfbæra nálgun á veitingu heilbrigðisþjónustu með tilliti til umhverfisáhrifa í víðum skilningi. Víða um heim er farið að taka tillit til umhverfisáhrifa nýrra spítala og meðal annars er leitað leiða til að byggja spítala sem fá þá orku sem þeir þurfa með eins umhverfisvænum hætti og unnt er, m.a. með því að framleiða raforku með vindorku eða sólarorku. Hér á landi liggur beint við að nota okkar umhverfisvænu orku sem framleidd er með vatnsafls- eða jarðvarmavirkjunum. Íslendingum þykir fæstum að þessi nálgun teljist til tíðinda.  Þessi aðferðafræði, sem við höfum náð góðum tökum á með okkar vel menntuðu sérfræðingum á þessu sviði, veitir okkur þó ákveðið samkeppnisforskot í alþjóðlegu samhengi. Einn helsti samstarfsaðili PrimaCare er hið alþjóðlega félag Skanska. Skanska er eitt af stærstu fyrirtækjum sinnar tegundar í heiminum meðal annars á sviði hönnunar og byggingar á mannvirkjum.  Skanska hefur á undanförnum árum lagt á það mikla áherslu að allt sem þeir hanna og byggja sé gert á eins umhversvænan máta og unnt er. Með því móti hafa þeir náð að skapa sér tiltekna sérstöðu og samkeppnisforskot.

 

Áform PrimaCare snúast um að nýta sérstöðu Íslands og Íslendinga og samtvinna nokkra þá þætti sem styrkur okkar felst í. Með tilliti til þess markaðstækifæris sem viðskiptahugmyndin byggir á er staðsetning landsins mjög ákjósanleg mitt á milli austurstrandar USA og Norður-Evrópu. Eins og einn erlendur viðmælandi hafði á orði munu misvitrar ákvarðanir íslenskra stjórnmálamanna a.m.k. ekki megna að breyta legu landsins. Afmörkuð, viðurkennd og vel skilgreind hágæða læknisþjónusta á mjög samkeppnishæfum verðum, þar sem áhersla verður lögð á heildarlausn fyrir viðkomandi sjúklinga og aðstandendur þeirra er einn af styrkleikum verkefnisins. Að auki verður spítalinn byggður á eins umhverfisvænan máta og unnt er og hann verður knúinn áfram af endurnýjanlegum orkugjöfum. Staðsetning spítalans í fögru umhverfi í hlíðum Úlfarsfells í Mosfellsbæ, í einu öruggasta og hreinasta landi heims hvort sem litið er til mannlegra þátta eins og afar lágrar glæpatíðni og sýkingahættu eða hinna náttúrulegu þátta eins og hreins lofts og vatns, á sér hvergi samsvörun í veröldinni. 

 

Íslendingar hafa búið við það lán og borið til þess gæfu að læra á landið og auðlindirnar. Það hefur ekki verið þrautalaust og deilt hefur verið um aðferðirnar. Stoðirnar hafa ekki verið margar en þær hafa verið traustar og á þeim byggjum við nú í eftirleik Hrunsins. Eftir því er kallað að finna nýjar leiðir og skjóta fleiri stoðum undir tilveru Íslendinga og framtíðar efnahag þjóðarinnar. Því virðist það skjóta skökku við þegar sumir gagnrýnendur þess að nýta sér þá stoð sem heilbrigðisþjónustan getur verið nýjum hugmyndum um atvinnusköpun og gjaldeyrisöflun, tala gegn því að starfsemi þessi verði að veruleika. Oftar en ekki er málflutningurinn settur fram á þann hátt að verið sé að vernda eitthvert tiltekið núverandi fyrirkomulag sem mikil hætta er talin á að líði undir lok ef hin nýja starfsemi kemst á laggirnar. Það er eðlilegt að fara fram með varfærni og benda á hvar getur verið ástæða til að staldra við. Til þess er rökræðan. Finna leiðir til að leysa þau vandamál sem upp kunna að koma. Finna leiðir til að ýta undir nýjungar, auka fjölbreytni, fjölga tækifærum og gera það án þess að skaða aðra hagsmuni. Við höfum vítin til að varast og læra af. Við höfum vel menntað fólk sem hefur aukið við kunnáttu sína bæði í ríkisreknum og einkareknum háskólum hérlendis sem erlendis. Sá grunnur er traustur og ekki er að sjá að annað formið sé marktækt betra en hitt. Því ættum við að vera vel í stakk búinn til að taka upp jákvæða rökræðu um ný tækifæri og finna leiðir til að leysa úrlausnarefnin. Það hlýtur að vera æskilegra ef hægt er að gera það á annan hátt en að reyna að koma í veg fyrir að ný tækifæri verði að veruleika. Framþróun hefur aldrei byggt á úrtöluröddum og þeim sem tala kjark úr fólki.

 

Þetta á ekki síst við nú þegar haft er í huga að það eru blikur á lofti um það hvort okkur takist að viðhalda þeirri góðu heilbrigðisþjónustu sem við teljum til styrkleika þjóðarinnar nú um stundir. Það er farið að kvarnast úr. Það má halda því fram fullum fetum að verkefni PrimaCare snúist ekki eingöngu um að nýta fyrirséð tækifæri til sóknar heldur snýst það ekki síður um varnarbaráttu. Ef Íslendingar ætla áfram að búa við góða heilbrigðisþjónustu er mikilvægt að búa heilbrigðisstéttum gott starfsumhverfi. Þótt kjaraumhverfið skipti að sjálfsögðu miklu máli þá skiptir ekki síður máli að aðstaðan sjálf til að stunda lækningar og aðra heilbrigðisþjónustu standist alþjóðlegan samanburð. Á undangengnum „góðærisárum" var sparað í tækjakaupum og endurnýjun lækningatækja var ekki jafn hröð og skyldi. Ef ekki hefði verið fyrir veglegar gjafir hollvina ýmissa sjúkrastofnana hefði ástandið verið enn verra. Nú þegar fyrirséð er að sparnaður verður meiri en áður er hér um grafalvarlegt mál að ræða. Nú getur það ástand verið að skapast að þeir læknar sem hafa sérmenntað sig hvað mest og farið dýpst í sín fræði og áunnið sér mikla starfsreynslu finna sér ekki starfsvettvang við hæfi á Íslandi vegna aðstöðuleysis. Ef við fáum þessa sérfræðinga ekki heim, eins og áður, hefur það keðjuverkandi áhrif. Aðrir læknar sem hafa séð tækifæri til að koma heim og vinna með fremstu sérfræðingum á sínu sviði hafa ekki sömu tækifæri til þess og áður - á Íslandi. Þeir fresta því heimflutningi til að geta áfram unnið með fremstu sérfræðingum. Þegar þeir hafa sjálfir komist á þann stall að vera meðal fremstu sérfræðinga koma þeir ekki heim - vegna aðstöðuleysis. Áhrif þessarar keðjuverkunar ættu að vera öllum augljós og verulegt áhyggjuefni.

 

Verkefni PrimaCare mun eitt og sér ekki snúa þessari þróun við. Það ásamt fleirum sambærilegum sem nú eru í undirbúningi geta þó tekið þátt í því að búa til viðspyrnu á afmörkuðum sviðum. Þessi verkefni geta búið til aðstöðu og tækifæri fyrir sérfræðinga til að fá vinnu við hæfi á Íslandi sem annars hefði ekki orðið. Þessir sérfræðingar munu laða til sín aðra sérfræðinga og annað samstarfsfólk. Með þessu móti verður hægt að fjölga atvinnutækifærum í heilbrigðisgeiranum og viðhalda gæðum þess. Hver nýr sproti sem kemst upp úr sverðinum leggur sitt af mörkum með margvíslegum nýjum tækifærum og margföldunaráhrifum.

 

Áfram munum við því geta búið við það besta sem íslenskt menntakerfi hefur lagt grundvöll að. Það hefur sjaldan verið mikilvægara en á þessum tímum að hlúa vel að íslenska menntakerfinu og búa vel menntaðri íslenskri þjóð næganlega mörg spennandi atvinnutækifæri til að halda fólkinu í landinu og fá þá til baka sem sækja sér frekari menntun og reynslu erlendis. 

 

Gunnar Ármannsson

frkvstj. PrimaCare


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband