Málefnaleg rökræða um ný tækifæri í heilbrigðisþjónustu?

Í dag fékk ég birta í Fréttablaðinu stutta grein með ofangreindri fyrirsögn. Tilefnið eru nýleg skrif Ingibjargar Pálmadóttur fyrrv. heilbrigðisráðherra og viðtal á föstudaginn á stöð 2 við Ögmund Jónasson innanríkisráðherra. Reyndar má kannski segja að það sem ýtti endanlega við mér með að rita þennan stutta pistil var viðtal Sigurjóns M. Egilssonar í þætti hans Sprengisandi sl. sunnudag við Ögmund. Þar kallaði Ögmundur eftir málefnalegri umræðu um þau úrlausnarefni sem við er að eiga hverju sinni. Hann hefur reyndar kvartað nokkuð undan því að undanförnu að honum finnist fjölmiðlamenn ekki vera nægjanlega málefnalegir í umfjöllun sinni og hafa áhuga á aukaatriðum en ekki því sem máli skiptir. Um það ætla ég ekki að dæma hér en það er forvitnilegt að sjá hvernig Ögmundur nálgast sjálfur hina málefnalegu rökræðu um ýmis álitaefni. Hann er gjarn á að taka einstök dæmi og alhæfa út frá þeim. Þá finnst honum greinilega ekkert að því að væna fólk sem hann hefur hlustað á um lygar og gera þeim upp fyrirætlanir. Sennilega er ég ekki nógu sjóaður í hinni pólitísku umræðu til að átta mig á leikreglunum og hvenær málefnaleg rökræða telst málefnaleg og hvenær ekki.

Það er hins vegar réttmæt krafa Ögmundur að þeir sem eru með áform um t.d. einkarekstur í heilbrigðisþjónustu geri grein fyrir því hvernig hann er áformaður. Með því móti er betur hægt að rökræða um mögulega kosti og ókosti. Það hyggst ég gera á næstunni.

"Nýverið hefur í dagblöðum og ljósvakamiðlum birst gagnrýni á fyrirhuguð áform um innflutning á erlendum sjúklingum til Íslands. M.a. hefur Ögmundur Jónasson innríkisráðherra, verið duglegur að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þrátt fyrir gagnrýni hans hefur hann þó látið hafa eftir sér að svo fremi sem ekki verði grafið undan almannaþjónustunni og skattfé borgaranna ekki notað þá sé hann ekki mótfallinn hugmyndunum.

Það er ánægjulegt og tímabært að þessi umræða fari fram og fái þá athygli sem eðlilegt er fyrir nýjar hugmyndir sem geta haft víðtæk áhrif til framtíðar. Hingað til hafa sumir þeirra sem um málið hafa fjallað á opinberum vettvangi gert það af takmarkaðri þekkingu og fordómum. Á það sérstaklega við um þann markað sem verið er að leita á og jafnframt um áform þeirra sem eru að reyna að hrinda nýjum hugmyndum í framkvæmd. Því er mikilvægt að rökræða um málefnið fari fram þannig að unnt sé draga fram í sviðsljósið kosti og galla þessara áforma.

Til að umræðan verði málefnaleg er æskilegt að talsmenn beggja sjónarmiða, með og á móti, temji sér slíka nálgun. Ingibjörg Pálmadóttir fyrrv. heilbrigðisráðherra og Ögmundur Jónasson gera aðstandendum þessara áforma upp fyrirætlanir eins og að til standi að komast inn bakdyramegin inn í íslenska heilbrigðiskerfið og að koma hér upp tvöföldu heilbrigðiskerfi. Hvað varðar áform PrimaCare stendur hvorugt til og fékk Ögmundur Jónasson frá fyrstu hendi upplýsingar um það á næstsíðasta degi hans í embætti heilbrigðisráðherra. Ingibjörg hefur ekki óskað eftir neinum upplýsingum um áform PrimaCare áður en hún ákvað að gera forsvarsmönnum fyrirtækisins upp ímyndaðar fyrirætlanir.

Að sjálfsögðu er aðeins hægt að drepa á fá atriði í stuttri grein sem þessari en ég vænti þess að á næstu vikum og mánuðum muni verða áframhaldandi umræða um þessi áform.

Það er einnig von mín að þeir sem vilja leggja rökræðunni gott til geri það á uppbyggilegan hátt með það í huga hvernig við getum best tryggt að ný starfsemi fái brautargengi og geti skapað störf og gjaldeyristekjur án þess að raska því kerfi sem við viljum búa við."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir bloggið þitt á dreng með hvítblæði og þarf að lesa í dag eitthvað sem aðrir skrifa , takk

Guðrún (IP-tala skráð) 5.2.2011 kl. 20:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband