Er íslenska heilbrigðiskerfið gott – er innflutningur erlendra sjúklinga góð eða vond hugmynd?

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðu um lækningatengda ferðamennsku síðustu daga og reyndar allt síðast liðið ár. Ýmsar skoðanir hafa verið viðraðar bæði til að mæla með en einnig til að mæla gegn. Í þessum pistli ætla ég ekki nema að takmörkuðu leyti að fara inn í þá umræðu. Ég get þó upplýst að ég hef sl. mánuði reynt að safna saman þeirri gagnrýni sem fram hefur komið til að geta tekið upp rökræðuna við þá sem það vilja. Það er eðlilegt og sjálfsagt að rökræðan fari fram þannig að fólk geti betur vegið og metið kosti jafnt sem ókosti. Þá er ekki síður mikilvægt að fólk fái upplýsingar um fyrirætlanir þeirra aðila sem eru að undirbúa starfsemi á þessu sviði þannig að rökræðan geti farið fram um áformin á málefnalegum nótum.   

Tilefni þess að ég rita niður þessar hugleiðingar mínar nú er viðtal sem tekið var við Þuríði Backman, formann heilbrigðisnefndar Alþingis, á RUV í kvöldfréttum þann 10. janúar sl. Þar var verið að leita viðbragða hennar vegna fréttaflutnings yfir helgina um fyrirætlanir fjögurra fyrirtækja á að flytja inn sjúklinga til Íslands og veita þeim læknisþjónustu hér á landi.   

Í viðtalinu lýsti hún áhyggjum sínum af því að þetta gæti verið vísir að tvöföldu heilbrigðiskerfi hér á Íslandi þar sem hinir efnameiri gætu keypt sér þjónustu sem stæði öðrum ekki til boða. Þótt þessi ábending sé ekki tilefni skrifa minna vil ég þó leyfa mér að halda því fram að nú þegar sé hér á Íslandi tvöfalt heilbrigðiskerfi upp að vissu marki. Þeir efnameiri geta nú þegar leyft sér að kaupa sér þá heilbrigðisþjónustu sem þeir kæra sig um hvar sem þjónustuna er að finna. Eru til fjölmörg dæmi þess að hinir efnameiri fari til útlanda og kaupi sér heilbrigðisþjónustu – ekki síst þegar þeim þykir biðlistinn á Íslandi of langur. Þeir efnaminni njóta reyndar góðs af því þar sem biðlistinn styttist og viðkomandi greiðir úr sínum eigin vasa en ekki með samsvarandi fjárhæð af skattfé borgaranna. Eins og ég skil umræðuna þá horfa gagnrýnendur tvöfalds kerfis fram hjá þessu þar sem viðkomandi einstaklingar kaupa sér þjónustuna utan íslenskrar landhelgi og þar með virðast önnur lögmál eiga að gilda. Þetta er þó eingöngu partur af sögunni því sum læknisþjónusta er undanskilin greiðsluþátttöku ríkisins - að mismiklum hluta eða að öllu leyti. Í því felst tvöfalt kerfi á þann hátt að þeir sem eru „heppnir“ fá niðurgreiddan sjúkdóm en hinir „óheppnu“ ekki. Reglulega fara fram viðræður milli ríkisvaldsins og veitenda þjónustunnar um hvað skuli vera niðurgreitt af ríkinu og hvað ekki. Í því felst tvöfalt kerfi. Árlega ákveður ríkisvaldið hversu miklu skuli verja til kaupa á heilbrigðisþjónustu af skattfé borgaranna og fyrir þá. Fjármunir til þessar kaupa eru takmarkaðir og fara verður vel með þá. Það er vitað og því er leitað leiða til að spara. Stundum felst sparnaðurinn í því að í lok árs lengjast biðlistar eftir sumum aðgerðum. Þeir sem geta og vilja geta þá valið sér að kaupa þjónustuna annars staðar. Aðrir ekki. Tvöfalt kerfi? Að mínu mati jaðrar það við hræsni að taka þessa þjónustu út fyrir sviga og halda því fram að hérlendis ríki jöfnuður á þessu sviði og að hér eigi eða þurfi að ríkja fullkominn jöfnuður á þessu sviði. Á meðan við sem þjóð getum ekki leyst vanda hluta þjóðarinnar sem er í vandræðum með að leysa úr þeirri lægstu grunnþörf að geta átt til hnífs og skeiðar finnst mér sem ýmsir séu með ódýrum hætti að reyna að afla sér vinsælda með því að tala á þennan klisjukennda hátt. Þar sem ég reikna með að einhverjir kunni að vilja leggja út af orðum mínum á sem verstan veg er rétt að taka það fram að ég er ekki að tala fyrir því kerfi sem við sjáum hvað ýktast í Bandaríkjunum né heldur er ég að halda því fram að ekki eigi að tryggja þegnum þessa lands sómasamlega heilbrigðisþjónustu. En eins og ég nefndi í upphafi þessarar málsgreinar er þetta í raun önnur rökræða en sú sem kveikti áhuga minn á að tjá mig um ummæli Þuríðar.    

Ummæli þau sem ég staldraði við hjá Þuríði eru þessu: „ ...alvarlegri hlið væri það að þarna væri kominn þá samanburður bæði hvað varðaði aðstöðu og laun og kjör við þá starfsmenn sem eru þá starfandi utan þessa einkasjúkrahúss“. Af fréttamanni er haft eftir Þuríði að þetta gæti þýtt að erfiðar yrði fyrir hið opinbera að keppa um starfsfólk við einkasjúkrahúsið.   

Það er margt við þessi ummæli að athuga sem þarfnast nánari rökræðu. Það sem vakti þó sérstaka athygli mína eru ekki ummælin um kjörin heldur ummælin um aðstöðuna. Það leiddi mig til að velta fyrir mér í víðara samhengi þeirri aðstöðu sem við höfum búið sjúklingum og heilbrigðisstarfsfólki. Í umræðu dagsins köllum við þetta heilbrigðiskerfi og hælum okkur af því að standast samanburð við það besta í heiminum. En gerum við það raunverulega? Er heilbrigðiskerfið okkar gott? Ég hef sjálfur haldið því fram og ekki síst við erlenda aðila. Ég hef í því sambandi bent á heilbrigðistölfræði því til staðfestingar. Ég er hins vegar ekki sannfærður um kerfið okkar sé gott og hef af því verulegar áhyggjur að það sé farið að þróast til verri vegar.   

Mín skoðun er sú að við höfum staðið okkur jafn vel og raun ber vitni - ekki vegna heilbrigðiskerfisins heldur þrátt fyrir það. Mín reynsla er sú að heilbrigðiskerfið hafi þróast einhvern vegin en ekki verið skipulögð og ákveðin með nægjanlega samræmdum hætti. Kerfið er eins og stagbætt flík sem ennþá veitir okkur skjól en það er farið að blása á milli gisinna saumanna.  

Ástæða þess, að mínu mati, að við höfum náð góðum árangri við veitingu heilbrigðisþjónustu er sú að við höfum búið við það lán að íslenskir læknar hafa þurft að leita sér framhaldsmenntunar erlendis. Þeir hafa leitað til bestu skóla beggja vegna Atlantshafsins. Þeir hafa fram til síðustu missera flestir leitað heim. Hér heima hefur síðan orðið suðupottur þess besta sem þekkist í læknisfræði heimsins. Út í þennan suðupott hafa síðan bæst við aðrar vel menntaðar heilbrigðisstéttir sem hafa komið með réttu kryddin og gert heilbrigðisþjónustuna (ekki kerfið) að því sem við höfum búið við.   

Nú eru hins vegar blikur á lofti. Íslenskir læknar eru farnir að hugsa sig betur um áður en þeir taka ákvörðun um að koma heim aftur. Heimurinn hefur minnkað og hin „ramma taug“ er kannski eins römm og hún var. Í dag er auðveldara en áður að halda uppi samskiptum við vini og ættingja þótt höf og álfur skilji að. 

Vissulega hefur efnahagsástandið áhrif á val lækna í kjaralegu tilliti. En ekki eingöngu. Aðstaðan skiptir máli. Vinnuaðstaðan. Vinnuandinn. Viðmótið. Mögulegir vinnuveitendur. Einn eða fleiri? Mögulegir samstarfsaðilar. Kerfið.  

Reglulega berast af því fréttir að sjúkrastofnunum eru gefin lækningtæki. Sem er vel – og eins gott. Í góðærinu var sparnaður í heilbrigðiskerfinu krafan. Endurnýjun tækja sat þá á hakanum. Hvernig skyldi þeim málum verða háttað í nánustu framtíð?   

Í mínu umhverfi heyri ég fleiri og háværari raddir um að almenn aðstaða sem býðst læknum hér á landi sé farin að hafa veruleg áhrif á ákvarðanatökuna. Takist mönnum að yfirstíga hugsunina um lægri tekjuöflunarmöguleika hér á landi í samanburði við það sem þekkist utan Íslands þá er það oft aðstöðumunurinn sem ræður úrslitum. Þetta á sérstaklega við þá lækna sem hafa sérmenntað sig sem mest og kynnst því besta. Þessi staðreynd hefur keðjuverkandi áhrif. Ef þeir læknar sem mesta sérmenntunina hafa kjósa að koma ekki heim hefur það áhrif á hina líka. Þeir fá ekki tækifæri á Íslandi til að vinna með þeim sem lengst hafa náð. Það dregur enn frekar úr áhuga sumra lækna að koma heim. Það fækkar því í „heimavarnarliðinu“. Það getur leitt til þess að á sumum sviðum verði ekki um að ræða tvískipt heilbrigðiskerfi hér á landi – heldur ekkert heilbrigðiskerfi. Sumar aðgerðir verða ekki gerðar hérlendis ef fram fer sem horfir. Þá verður að senda alla viðkomandi sjúklinga út fyrir íslenska landhelgi með tilheyrandi kostnaði.   

Til að sporna við þessari þróun verður að bregðast. Ríkið virðist ekki vera í góðri aðstöðu til þess um þessar mundir. Var það reyndar ekki heldur á nýliðnum „góðæristíma“. Ef einkaframtakið getur fjölgað möguleikunum og jafnvel bætt aðstöðuna á einhverjum sviðum er kannski von til þess að hægt verði að snúa þróuninni að einhverju leyti við.   

Það er eðlilegt að rökræðan fari fram. Það er betra ef hún getur farið fram án fyrirfram gefinna fordóma og alhæfinga. Þeir sem gagnrýna hvað mest kerfið eins og það er í USA benda iðulega á veikleika þess. Þeir sem gagnrýna ríkiskerfin sem mest gera oftast það sama. Það er því forvitnilegt að heyra þegar sumir fræðimenn, eins og t.d. Dr. Birgit Toebes lagaprófessor og virtur fræðimaður á sviði heilbrigðisréttar og alþjóðlegrar mannréttindaverndar, heldur því fram að Bandaríska einkarekna kerfið og hið Evrópska ríkisrekna kerfi séu að nálgast hvort annað, eins og hún sagði á ráðstefnu á vegum HR í nóvember sl. Ástæðan er sú að verið er að reyna að sníða helstu agnúa af kerfunum sem virðist leiða þessi mismunandi kerfi nær hvoru öðru þar sem reynt er að finna besta milliveginn.   

Það er rétt sem bent hefur verið á að við megum ekki láta reka á reiðanum og láta „gróðavon kaupsýslumanna“ ráða þróun heilbrigðiskerfisins. Né heldur megum við vera stíf og þver og ekki megum við vera hugsunarlaus.   

Ég er þeirrar skoðunar að við höfum hingað til of mikið látið reka á reiðanum og látið heilbrigðiskerfið þróast án nægjanlegrar og yfirvegaðrar umhugsunar. Því miður virðist mér vera svo fyrir okkur komið að við séum mögulega að missa niður margt af því góða sem hefur einkennt heilbrigðisþjónustuna okkar. Þar er ekki við einkaframtakið að sakast. Ef einkaframtakið getur lagt gott til og er reiðubúið að taka áhættu, sem ríkið getur ekki og á ekki að taka, finnst mér ástæðulaust að gera lítið úr því og tala með niðrandi hætti um fjármagnseigendur eins og sumir virðast líta á sem sérstaka íþrótt.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Allir sem eitthvað þekkja til heilbr,mála myndu samþykkja það sem þú ert að segja.

Það er mikið ofbeldi gagnvart heilbrigðisstarfsfólki að meina því að selja þekkingu sína og starfsreynslu á markaði.

Ríkiseinokun leiðir óhjákvæmilega til lélegra og fjárfrekra lausna. Það ætti etv að gera sama v lögfræðinga , stofna lögfræðistofnun þar sem allir lagalærðir geta sótt um vinnu og halda starfsaðstöðu og launum í lágmarki svo allir þeir sem einhvern metnað hafa sæki í önnur störf.

Þetta er afvegaleidd taumlaus forsjáhyggja

ÞSVERR

þórður sverrrisson (IP-tala skráð) 12.1.2011 kl. 16:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband