Áramótaannáll 2010 - Hlaupaannáll

Hlaupaárið 2010 hefur almennt verið gott hlaupaár þótt vissulega hafi skipst á skin og skúrir í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Ég hef ekki hlaupið jafnmikið magn á einu ári áður og ekki keppt í jafnmörgum keppnishlaupum á einu ári áður og margt skemmtilegt hefur á dagana drifið bæði við æfingar og í hinum ýmsu keppnishlaupum.  

 

Þökk sé frábærri hlaupasíðu, http://www.hlaup.com/, er afar auðvelt að skrásetja og halda utan um allar æfingar. Mér telst til að ég hafi hlaupið 4.100 km á árinu. Þeir km skiptast annars vegar í 2.433,1 km sem hlaupnir hafa verið á hlaupabretti og 1.667,5 km sem ég hef hlaupið úti. Til nánari skýringar á þessari skiptingu á milli inni og úti hlaupa hef ég mér það til varnar að vegna tiltekinna atvika í fortíðinni, sem ég nýlega skrásetti að hluta og birti á bloggsíðu minni, http://garmur.blog.is/blog/garmur/entry/1127959/, þá er ég með heldur lakara ónæmiskerfi en gengur og gerist. Þess vegna verður brettið oftar fyrir valinu en annars hefði verið og reyni ég að forðast að hlaupa úti ef mjög kalt er í veðri og kalsasamt. Þrátt fyrir að hafa reynt að passa mig vel síðasta vetur held ég samt að ég hljóti að hafa höggvið nálægt Evrópumetinu í samanlögðu kvefi á einum vetri.   

 

Samkvæmt skráningarkerfi http://www.hlaup.com/ skiptast hlaupin niður á mánuði með þessum hætti:

janúar              286,4 km         (197,2 - 89,2)

febrúar             513,8 km         (395,1 - 118,7)

mars                 561,0 km         (309,1 - 251,9)

apríl                 450,7 km         (367,5 – 83,2)

maí                  264,9 km         (93,1 – 171,8)

júní                  341,4 km         (100 – 241,4)

júlí                   211,3 km         (48,4 – 162,9)

ágúst                201,3 km         (56,1 – 145,2)

september        305,9 km         (211,3 – 94,6)

október            309,8 km         (157,2 – 152,6)

nóvember        307,1 km         (252 – 55,1)

desember         334,0 km         (246,1 – 100,9)  

 

Mér telst til að keppnishlaupin á árinu séu samtals 15 og í þeim voru 274 km lagðir að baki. Ég hafði ekki hugsað út í þessa tölfræði fyrr en ég sá súperhlauparann Geir Jóhannsson taka þessa tölfræði saman hjá sér undir lok ársins. Mér er til efs að það séu margir sem hafa tekið þátt í jafnmörgum keppnishlaupum og hann á árinu!  

 

Í upphafi ársins 2010 setti ég mér nokkur tímamarkmið í einstökum vegalengdum. Ég var ákveðinn í því að reyna að hlaupa maraþon á undir 3 klst um vorið og setti því markmiðin í 5 km, 10 km og hálfmaraþoni til samræmis við það – skv. því sem þar til gerðar reiknivélar gefa upp. Það er skemmst frá því að segja að ég náði engu þessara markmiða á árinu. Þrátt fyrir það er ég ánægður með árið þegar upp er staðið. Þótt ég hafi ekki náð þeim markmiðum sem ég setti mér þá náði ég þó að bæta tíma mína í öllum þessum vegalengdum. Markmið ársins 2010 verða einfaldlega yfirfærð yfir á árið 2011 og undirmarkmiðið verður að bæta alla tíma.   

 

Mér gekk ljómandi vel í mínu fyrsta maraþoni vorið 2009 (http://www.hlaup.com/ShowFrasogn.aspx?sagaId=56) og því ákvað ég að nota sama hlaupaprógramm og ég notaði þá – en jók þó æfingamagnið um 15 - 20%. Kannski ekki skynsamleg nálgun því eins og þeir sem til þekkja vita er magn ekki sama og gæði. Hins vegar þá hef ég litið á hlaupin út frá öðrum sjónarhóli en þeim að allt snúist um keppnishlaupin. Vissulega eru þau skemmtileg og sjálfsagt að setja sér markmið í þeim. Í mínum huga er það þó ekki síður mikilvægt að njóta þeirra hlaupa/æfinga sem eru á milli keppnishlaupanna. Það er með hlaupin eins og svo margt annað í lífinu að það er ferðalagið sjálft sem skiptir svo miklu. Ef maður gleymir ferðalaginu er hætt við að lífið verði sífelldar öfgar á milli gleði og sorga eftir því hvernig hver áfangastaður reynist þegar á hólminn er komið. Þess vegna veitir góð æfing mér ekki síður gleði en góður árangur í keppnishlaupi. Ég veit fátt betra í lok hverrar viku en að fara yfir æfingar vikunnar í huganum og gleðjast yfir þeim sem vel hafa gengið. Þess vegna nýt ég æfinganna og þær verða fyrir vikið stundum lengri en til stóð í upphafi. Ég held að þessi afstaða hafi reynst mér vel þegar ég varð að hætta í maraþoninu í Kaupmannahöfn í vor eftir að hafa hlaupið 25 km. Mér fannst síður en svo að æfingar vetrarins hefðu farið forgörðum þótt mér tækist ekki að ljúka hlaupinu en hafði mestar áhyggjur af því hvort ég hefði hlaupið of lengi á annarri löppinni og væri þar með búinn að skemma fyrir mér allt sumarið sem var framundan.   

 

Eftir maraþonið í Kaupmannahöfn var ég lengi framan af sumri að basla með lélegan vöðva aftan í vinstra lærinu sem hamlaði mér nokkuð. En þó ekki það mikið að það héldi mér frá æfingum og keppni þannig að ég gat vel notið hlaupasumarsins. Náði meira að segja að komast undir 40 mín múrinn í Miðnæturhlaupinu sem mér fannst hreint ekki sjálfgefið fyrirfram. Ég tók þátt í mínu fyrsta Laugavegshlaupi og verður að segjast eins og er að það hafi verið hreinasta hörmung. Ekki var þar við lærið að sakast því ég hljóp svo hægt að það reyndi aldrei neitt á það. Á leið upp í Hrafntinnusker fékk ég svona hressilega magaverki að ég hélt ég myndi ekki ná að ljúka hlaupinu. Síðustu rúmu 45 km hlaupsins hljóp/joggaði ég meira og minna í keng og upplifði þá „skemmtun“ að ná engum hlaupara það sem eftir lifði hlaups á meðan heilu rútufarmarnir fóru fram úr mér. En í markið komst ég þótt á röngum klukkutíma hafi verið. Enda ekki margir valkostir í boði þegar ferðafélagarnir bíða við marklínu og hinn valkosturinn var að gefast upp í einhverjum skálanum og vera keyrður niður á Hvolsvöll að hlaupi loknu í fullkominni óvissu um að komast til baka inn í Mörkina á laugardeginum. Eftir að heim var komið var ég svo fúll með hlaupið að ég skráði mig í Jökulsárhlaupið sem var helgina eftir en þar hafði ég ekki ætlað að taka þátt. Það var eins og venjulega bráðskemmtilegt hlaup og þar gat ég tekið vel á því alveg niður í Vesturdal. Þegar þangað var komið kom hins vegar Laugavegurinn í lappirnar þannig að síðustu 13 km voru heldur þungir. Þessi skyndiákvörðun með þátttöku í Jökulsárhlaupinu hafði hins vegar skemmtilega aukaverkun því með þátttökunni var ég komin í útdráttarhóp þeirra sem tóku þátt í einhverju af 5 tilgreindum utanvegahlaupum sumarsins. Þetta var eina hlaupið af þeim sem ég tók þátt í en dugði til þess að ég var dreginn út og vann fyrstu verðlaun sem voru flugfar með Icelandair eitthvert út í heim. Partur af vinningnum hefur þegar verið notaður til kaupa á flugfari til Parísar næsta vor þar sem til stendur að reyna við 3 klst. markmiðið. Þannig að segja má að hinn slaki árangur í Laugavegshlaupinu hafi skilað mér fyrsta vinningi í hús!    

 

Mér fannst hálf leiðinleg tilhugsun ef ég myndi ekki ná að hlaupa maraþon hlaup á árinu þannig að ég ákvað að taka þátt í haustmaraþoninu hér heima. Ég hafði slakað vel á seinni hlutann af ágúst og fram í september þannig að æfingatíminn sem ég hafði til stefnu var ekki langur. Ég náði góðum 4 vikum og þar sem ég hafði æft vel fyrri hluta ársins taldi ég þetta duga til að geta hlaupið á skikkanlegum tíma. Stefnan var að reyna að hlaupa á undir 3:15. Þegar dagurinn rann upp reyndist hann vera bjartur, kaldur og sáralítill vindur. Sem sagt kjöraðstæður. Ég hljóp af stað heldur hraðar en ég hafði ætlað en leið bara ljómandi vel. Ég ákvað því að hlaupa áfram á þessum hraða og sjá hvað ég myndi endast lengi á honum og planið var að hægja aðeins á mér um leið og ég þyrfti að fara að streða við halda hraðanum. Það reyndist síðan ekki vera fyrr en við Nauthól í seinni ferðinni sem þetta fór að þyngjast og ég þurfti að hægja aðeins á mér. Náði mér hins vegar vel á strik síðustu 3 km og endaði á því að bæta tímann frá því um vorið 2009 um rúmar 3 mínútur. Kom mér skemmtilega á óvart því ég hélt að ekki væri innistæða fyrir bætingu eftir nokkuð skrikkjótt sumar.    

 

Fyrir utan mörg skemmtileg keppnishlaup, sem ég nefni ekki hér, eru þrjú (fjögur) hlaup önnur mér sérlega minnisstæð. Það fyrsta var á afmælisdaginn minn, þann 10. apríl, en þá hljóp ég 43 km á bretti eða 1 km fyrir hvert ár. Ég tók uppá þessu í fyrra og úr því að ég gerði þetta aftur þá er þetta víst orðin hefð héðan í frá (verð að hita upp 1,8 km fyrir maraþonið í París sem ber upp á þennan dag). Ég kláraði hlaupið á fínum tíma og reiknaðist til að með því að draga fyrstu 800 metrana frá þá hefði ég lokið við maraþonvegalengdina á tæpum 3:07 sem gáfu góð fyrirheit fyrir maraþonið í Köben. En það fór eins og það fór. Næsta verkefni sem mér finnst vert að halda til haga er að í byrjun ágúst prófaði ég að taka eina langa helgi og sjá hvernig það myndi virka. Á laugardeginum hljóp ég maraþonvegalengdina á tæpum 3:20 og á sunnudeginum hljóp ég hálft maraþon á bretti á tæpum 1:35. Þetta gekk betur en ég átti von á. Það er þó rétt að geta þess að tíminn í laugardagshlaupinu er ekki með drykkjarpásum. Að lokum vil geta þess að þann 17. des. sl. hjóp ég 50 km á bretti með Gunnlaugi Júlíussyni sem setti glæsilegt nýtt Norðurlandamet í 24 klst. brettahlaupi með því að hlaupa rúmlega 208 km. Þetta var sérlega skemmtilegt hlaup og alveg ótrúlegt hvað tíminn var fljótur að líða. Ég setti stefnuna á það fyrirfram að virkur hlaupatími væri innan við 4 klst. og það gekk vel eftir og átti ég nokkrar mínútur uppá að hlaupa. Það skrítna við þetta hlaup var að mér fannst það aldrei sérlega langt og því kom það mér eiginlega á óvart að ég skyldi vera aðeins eftir mig eftir hlaupið. En auðvitað stafaði það eingöngu af samanburðinum. Þegar ég byrjaði að hlaupa var Gunnlaugur búinn með eitt maraþon og var að byrja á því þriðja þegar ég fór og hann lauk við tæplega 5 maraþon áður en yfir lauk. Magnað.   

 

Fínu hlaupaári lauk í dag með hinu árlega gamlárshlaupi ÍR. Gott veður, metþátttaka og skemmtilegt. Hljóp í sparigallanum á ca 40:20 sem er fínn tími og ekki langt frá mínu besta.  

 

Þakka hlaupafélögunum á brautinni og öllu því skemmtilega fólki sem ég kynntist þar fyrir skemmtilegt ár og sérstakar kveðjur til félaga úr Skokkhópi Garðabæjar.  

 

Megi nýtt ár færa okkur öllum ennþá betri árangur en þetta sem er að kveðja.  

 

Bestu kveðjur  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband