Fimm ár – og aldrei betri.

Í dag, þann 23. desember 2010, eru fimm ár liðin síðan ég fékk símtalið. Fimm ár síðan mér var sagt að ég ætti að fara beint niður á bráðamóttöku Landspítalans og þar væri gert ráð fyrir mér. Ég ætti ekki að keyra sjálfur. Fimm ár. Hugsa sér. Fimm ár.

Nú fimm árum síðar er ég í aðstöðu til að geta skrifað um þessa lífsreynslu. Merkilegt. Lengi vel vissi ég ekki hvort mér myndi endast til þess aldur við þessi tímamót. En nú er þessi tími liðinn. Ótrúlega hratt. Ótrúlega viðburðarríkur tími. Ég er afskaplega þakklátur. Þakklátur fyrir að hafa fengið að upplifa þessi fimm ár. Ég fékk meira að segja tækifæri til að upplifa Hrunið. Af því hefði ég ekki viljað missa. Hugsa sér að fá tækifæri með ykkur hinum að ganga í gegnum þetta tímabil í Íslandssögunni. Fyrir það er ég þakklátur.

Á þessum tíma var óvissan mikil. Þegar ég kom á bráðamóttökuna var mér sagt af lækni sem ég þekkti vel að blóðmagn í líkamanum væri mjög lágt. Svo lágt að í raun ætti ég ekki að geta setið uppréttur, hvað þá gengið um eða keyrt bíl – eins og ég hafði að sjálfsögðu gert þar til ég fékk símtalið. Ástandið væri það alvarlegt að ekki væri hægt að fullyrða um bata. Ég þyrfti blóð og það strax. Læknirinn sagði að hann þyrfti að ráðfæra sig við nafngreindan lækni. Ég þekkti nafnið strax enda ég starfandi sem framkvæmdastjóri Læknafélags Íslands á þessum tíma. Þessi læknir starfaði sem yfirlæknir og sérfræðingur á blóðmeinadeild Landspítalans. Það sagði mér allt sem þurfti. Sumarið 2005 fylgdi ég stjúpa mínum til grafar 53 ára gömlum. Hann hafði barist við krabbamein um nokkurra ára skeið og í ófá skiptin hafði ég heimsótt hann á krabbameins ganginn. Einhverra hluta vegna hafði ég alltaf tekið eftir því að gangurinn á móti var merktur „blóðmeinadeild“. Það þótti mér ógnvekjandi heiti á deild. Mér fannst einhvern veginn að krabbamein væri staðbundnara (að sjálfsögðu aðeins til að byrja með) og því ætti það að vera „viðráðanlegra“ en sjúkdómur sem væri um allan líkamann í blóðinu. Því leist mér ekki sérlega vel á blikuna þegar ég heyrði í hvaða tegund sérfræðings væri verið að kalla.

En hvað um það, þetta var staðan. Blóðmeinafræðingurinn mætti á staðinn og spjallaði við okkur hjónin. Það þurfti fleiri rannsóknir. Þorláksmessa og að sjálfsögðu voru sparnaðarráðstafanir í gangi á spítalanum – eins og venjulega. Því var eins fámennt á svæðinu og unnt var að komast af með. Ég var færður inn á stofu og minn ágæti læknir var einn um að taka sýni. Til stóð að taka sýni úr mjaðmabeini en þegar til kom var um svo mikla bandvefsmyndun að ræða þar að ekki náðist nothæfur mergur til sýnatöku. Því þurfti að fara í viðbeinið. Það var að mörgu leyti súrrealískt. Þar sem fámennt var á spítalanum var ekki um það að ræða að aðstoðarfólk væri á lausu. Því vorum við tvö ein um þetta, læknirinn og sjúklingurinn. Þannig háttar til við umrædda sýnatöku að sýnið þarf að komast úr sprautunni með hraði og er fjarlægt úr sprautuhylkinu áður en sprautan sjálf er fjarlægð. Því lá ég á bakinu og horfði annars vegar á loftið og hins vegar sá ég útundan mér þessa fínu „hestasprautu“ standa beint upp úr viðbeininu á mér eins og úr lélegri hryllingsmynd.

Ég fékk að fara heim eftir sýnatökuna og blóðgjöfina. En átti að koma aftur á aðfangadag og fá meira blóð og niðurstöðu úr sýnatökunni. Á aðfangadag var mér vísað inn á tveggja manna stofu. Þar inni var sjúklingur í rúminu nær dyrunum. Ég fékk gluggarúmið. Það var skilrúm á milli okkar með tjaldi. Ég sá þegar ég gekk inn að viðkomandi var langt leiddur og virtist vera um það bil að kveðja þessa tilvist. Kannski hafði ég rangt fyrir mér en þetta var tilfinningin sem ég fékk. Ég vorkenndi honum. Að fá ekki að liggja í friði við þessar aðstæður heldur var verið að troða inn á hann herbergisfélaga sem gat gengið inn einn og óstuddur. En um þetta er ekki spurt á sparnaðar tímum. Við höfðum sameiginlega salernisaðstöðu með öðru herbergi þannig að salernið var á milli herbergja. Mér var hins vegar sagt við komuna að vegna iðrakveisu sjúklings í hinu herberginu yrðum við að nota salerni sem var innar á ganginum. Allt í lagi með það hugsaði ég. Ég er það frískur að það vefst nú ekki fyrir mér. Við mig var tengdur blóðpoki. Eiginkonan sat hjá mér og við spjölluðum á meðan við biðum eftir blóðmeinasérfræðingnum sem átti að koma von bráðar með niðurstöður úr sýnatökunni daginn áður. Á meðan við biðum horfði ég á sjúkrabíl koma með blikkandi ljósum og sírenu niður Skógarhlíðina. Það ferðalag sóttist seint í umferðarþunganum rétt fyrir hádegið á aðfangadag. Vonandi ekki um bráða bráða tilfelli að ræða. Vonandi verður búið að lagfæra helstu aðleiðir þegar hið nýja hátæknisjúkrahús verður risið. En hvað um það, blóðmeinafræðingurinn mætti skömmu eftir að sjúkrabíllinn komst á leiðarenda. Vegna plássleysis gátum við valið um það að fá fréttir úr niðurstöðu rannsóknarinnar inná klósetti inn af ganginum eða okkar megin við léreftsþilið. Þar sem herbergisfélaginn var frekar rænulítill fannst okkur alveg eins gott að fá fréttirnar þar sem við vorum. Að sjálfsögðu hitti það á sama tíma og sjúklingurinn sem hafði aðgang að hinni sameiginlegu salernisaðstöðu herbergjanna tveggja þurfti skyndilega á því að halda. Því háttaði það svo til að ég fékk upplýsingarnar staðfestar um að ég væri með hvítblæði við undirleik iðrakveisu sjúklingsins úr næsta herbergi. Súrrealískt.

Hvítblæði. Frekar neikvætt orð. En hvítblæði er ekki alveg sama og hvítblæði. Til eru nokkrar tegundir. Því miður var ekki hægt að greina nákvæmlega í upphafi hvaða tegund hvítblæðis hrjáði mig. Það yrði skoðað nánar í framhaldinu. Meðal annars var fjarlægt úr mér milta til að hægt væri að skoða þetta betur. Athyglisverður tími. Miltað var fjarlægt í janúar og þá var hægt að greina nánar hvaða tegund ég hafði komið mér upp. Þó ekki alveg. Það kom ekki í ljós fyrr en síðar á árinu. En í millitíðinn gerði ég að sjálfsögðu það sem mér var ráðlagt að gera ekki. Fara á internetið. Þar las ég mér til um sjúkdóminn eins og ég gat. Samkvæmt því sem ég las þá voru ekki miklar líkur á því að ég myndi lifa í fimm ár. Sennilega ekki nema eitt til þrjú ár. Læknarnir sögðu mér að framþróun á þessu sviði væri mjög hröð. Það sem skrifað væri á netið væri yfirleitt ekki það nýjasta sem til væri í fræðunum. Ég gat samt ekki setið á mér. Ég varð að skoða og það sem ég skoðaði var ekki sérlega upplífgandi.

Nú fimm árum síðar þá trúi ég því að læknarnir hafi haft rétt fyrir sér. Það á ekki að trúa öllu því sem á netinu stendur. Hvað sem síðar verður þá verður því ekki breytt að nú eru fimm ár liðin frá því að ég fékk símtalið.

Nú fimm árum síðar er ég í betra líkamlegu formi en ég hef áður verið í. Á þessu ári hef ég hlaupið yfir 4000 km. Ég hef bætt tíma mína í nánast öllum vegalengdum á árinu, þar á meðal í maraþoni. Ég náði reyndar ekki þeim tímamarkmiðum sem ég setti mér fyrir árið en það er allt í lagi. Þau voru á minn mælikvarða háleit og duga mér þá bara fyrir næsta ár einnig – en ég ætla að ná þeim.

Það var mér sérlega ánægjulegt að hlaupa 50 km á bretti þann 17. desember sl. við hlið Gunnlaugs Júlíussonar ofurhlaupara. Þann dag, og reyndar næsta dag einnig, hljóp hann í 24 klst. samfleytt og setti glæsilegt Norðurlandamet. Ég hafði heyrt af áformum hans nokkuð áður og fannst tilvalið að nýta tækifærið og hlaupa með honum 10 km fyrir hvert ár sem liðin eru síðan ég fékk símtalið.

Allt er afstætt og erfitt að bera saman mismunandi tilvik. Það er einstakt að byrja ekki að hlaupa fyrr en eftir fertugt og vera kominn í hóp bestu ofurmaraþonhlaupara heimsins eins og Gunnlaugur hefur gert. Það er einstakt þegar fólk hefur af einhverjum ástæðum breytt um lífstíl og tekið upp á því að hlaupa. Það er einstakt að sjá fólk á sjötugs-, áttræðis- og jafnvel níræðisaldri hlaupandi út um allar koppagrundir. Það er líka einstakt að fá tækifæri til að hlaupa eftir að hafa greinst með illvígan sjúkdóm.

Eða er það? Kannski ekki. Það er kannski ekki svo einstakt. Þetta eru bara einstök dæmi. Dæmi sem sanna að þetta er hægt. Dæmin sanna að tækifærin eru fyrir hendi. Sem betur fer eru einhverjir á hverjum tíma sem sjá þau og geta gripið þau. Vonandi eru einhverjir sem sjá hvatningu í dæmunum. Dæmin eru til þess að draga lærdóm af.

Það eru forréttindi að hafa fengið tækifæri til að upplifa Hrunið. Vonandi grípa einhverjir þau tækifæri sem Hrunið felur í sér. Vonandi verða þau dæmi til þess að við hin getum dregið lærdóm af þeim.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Takk fyrir að deila þessari lífsreynslu.  Er meinið alveg horfið hjá þér eða er möguleiki á að það taki sig upp aftur?

Axel Þór Kolbeinsson, 23.12.2010 kl. 09:45

2 identicon

Þú er sannur sigurvegari Gunnar. Ég er stolt af því að fá að vera meðhlaupari þinn.

Alma María (IP-tala skráð) 24.12.2010 kl. 00:00

3 identicon

sælir þetta er alveg magnaður árangur hjá í allri þessari ótrúlegu sjúkrasögu og bilun í þessum hlaupum. það er heiður að fá að hlaupa með þér og dingla fyrir aftan þig og streða við það að ná þér.Lifðu sem lengst og njóttu lífsins.  

unnar (IP-tala skráð) 27.12.2010 kl. 11:23

4 identicon

Sannur íþróttamaður í hugsun og verkum. Gleðilegt nýtt ár.

Stefan Thordarson (IP-tala skráð) 31.12.2010 kl. 19:18

5 identicon

Já sæll! Ég hafði ekki áttað mig á þessari forsögu. Ég óska þér þér innilega til hamingju. Helgi

Helgi Hafsteinn (IP-tala skráð) 2.1.2011 kl. 02:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 70682

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband