11.11.2010 | 16:36
Hin ýmsu andlit heilbrigðis- og mannréttindaráðherrans Ögmundar
Starfs míns vegna er ég um þessar mundir að rifja ýmislegt upp sem sagt hefur verið í opinberri umræðu um heilbrigðismál á Íslandi síðustu misserin. Leit mín að skilaði mér m.a. inn á ágæta heimasíðu fyrrverandi heilbrigðisráðherra og núverandi mannréttindaráðherra.
Það er fróðlegt að lesa margt sem þar er að finna og eldist efnið misvel eins og gengur. T.d. er afar fróðlegt að lesa margt af því sem Ögmundur, sem þáverandi heilbrigðisráðherra, skrifaði um heilbrigðismál og sagði að aldrei mætti gerast og bera það saman við boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum nú. Þann 4. júlí 2009 birti Ögmundur á heimasíðu sinni grein eftir hann sjálfan sem birtist í Morgunblaðinu 3. júlí 2009. Í henni segir m.a.: "Það hefur sýnt sig að vinna sem er unnin úr tengslum við starfsfólk og samfélagið sem viðkomandi stofnanir eiga að þjóna skilar ekki árangri. Þvert á móti skilja slík vinnubrögð eftir sig sviðna jörð og óánægju". Ég verð að játa það að þótt ég sé ekki alltaf sammála Ögmundi þá er ég sammála þessum orðum hans. Af fréttum að dæma í dag eru amk á níunda þúsund manns sem skrifuðu undir mótmæli í gær á Suðurlandi vegna stórfellds niðurskurðar á framlögum til heilbrigðismála sammála þessu. Í dag standa fyrir dyrum fjöldamótmæli til að mótmæla áformum ríkisstjórnarinnar og meirihluta Alþingis vegna fyrirhugaðra lokana á sjúkrahúsum á Selfossi, Vestmannaeyjum og Höfn. Ástæða óánægju Sunnlendinga og annarra sem mótmælt hafa af sama tilefni vegna niðurskurðar í þeirra heimabyggð, stafar ekki síst af því að niðurskurðaráformin eru unnin úr tengslum við starfsfólkið og samfélagið á staðnum. Slík vinnubrögð skilja eftir sig sviðna jörð og óánægju eins og Ögmundur bendir réttilega á.
Í yfirferð minni um heimasíðu Ögmundar rakst ég á grein eftir hann sem birt er þann 9. apríl 2009. Þar er mannréttindaráðherrann að fjalla um styrkjamál Sjálfstæðisflokksins. Í niðurlagi pistilsins lýsir ráðherrann því yfir að það sé hans sannfæring og staðreynd að Geir H Haarde sé heiðarlegur og gegnheill maður- ef frá er skilin pólitísk villukenning Geirs. Einmitt það já. Mannréttindaráðherrann taldi rétt að láta Landsdóm skera úr um sekt eða sakleysi Geirs fyrir að hafa ekki gert nóg í aðdraganda hrunsins. Mann sem hann telur gegnheilan og heiðarlegan. Fyrir lá að margir höfðu lýst yfir efasemdum um að lögin um Landsdóm hefðu staðist tímans tönn og væru í samræmi við almennar og viðurkenndar mannréttindareglur í dag. Mannréttindaráðherrann kaus að láta einstaklinginn ekki njóta vafans, jafnvel þótt hann teldi hann gegnheilan og heiðarlegan. Var þá verið að draga Geir fyrir Landsdóm vegna pólitískrar villukenningar hans?
Ögmundur sem heilbrigðisráðherra dró til baka obbann af sparnaðartillögum forvera síns í starfi. Hann færði sveitum landsins von og boðaði nýjar starfsaðferðir og meira samráð. Svo virðist sem athafnaleysi hans í sparnaðaraðgerðum sé nú að bitna á sveitum landsins með harkalegri niðurskurði en ella hefði þurft að vera. Hinar nýju starfsaðferðir birtast í minna samráði en áður hefur sést.
Ögmundur sem mannréttindaráðherra stendur að því að draga mann fyrir Lansdóm fyrir meint athafnaleysi. Mann sem hann telur gegnheilan og heiðarlegan. En mann sem mannréttindaráðherrann hefur opinberlega sakað um að vera haldinn pólitískri villukenningu.
Það er eitt að hafa mismunandi pólitískar skoðanir en annað að saka pólitíska andstæðinga um pólitískar villukenningar. Það er síðan enn annað að nýta sér pólitísk völd til að ná sér niður á þeim sem aðhyllast aðrar hugsjónir en mannréttindaráðherrann sjálfur.
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 13
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.