Átakastjórnmál Ögmundar Jónassonar mannréttindaráðherra

Á Pressunni í dag er sagt frá því að Ögmundur mannréttindaráðherra hafi einn ráðherra mætt á fund um fátækt. Gott hjá honum og sýnir gott fordæmi.

Hann benti á það réttilega að ástandið væri erfitt og að það yrði ekki bætt "með einni aðgerð heldur með margþættum sem snúa bæði að tekjum og útgjöldum fólks, þannig að þetta er allt mynstrið sem þarf að vera undir sem skapar okkur lífskjör".

Þessu er ég sammála hjá Ögmundi. Ég vona þó að hann eigi ekki við að hann ætli að auka tekjur ríkisins með því að auka útgjöld fólks með hærri sköttum. Vonandi á hann við það að hér þurfi að ýta undir atvinnusköpun og skapa þannig störf sem auka skatttekjur ríkisins og framfærslufé almennings.

Ögmundur er hins vegar augljóslega einn þeirra mörgu þingmanna sem getur með engu móti rifið sig upp úr átakastjórnmálunum. Hann þurfti að bæta því við að allt sem miður hefur farið væri fyrri ríkisstjórn að kenna. "Það er staðreynd að það hafa verið rifin göt á velferðarkerfið og unnin á því stórkostleg spjöll. Krafan er nú á okkur að stoppa upp í þessi göt og fá úr þessu bætt."

Ef við gefum okkur nú það að Ögmundur hafi rétt fyrir sér með að allt sem úrskeiðis fór sé fyrri ríkisstjórn að kenna þá er það mín skoðun að það hjálpi lítið til við uppbygginguna nú að klifa stöðugt á því. Með því á ég ekki við að þeir sem sannanlega brutu af sér í störfum sínum verði ekki látnir sæta ábyrgð.

En á hinn bóginn er ég hreint ekki sammála Ögmundi um að það sé fyrri ríkisstjórn/stjórnum einni/einum að kenna hvernig fór. Ég get vel viðurkennt að ég er að sjálfsögðu mjög óánægður með að fyrri ríkisstjórnir stóðu ekki betur að málum en raun ber vitni. Ég treysti þessu fólki með atkvæði mínu til þess að sjá um að búa okkur það umhverfi og þann lagaramma sem myndi veita okkur meiri hagsæld til framtíðar. En þegar nú er litið yfir hina sviðnu jörð og steinum lyft virðist sem æði margt hafi hjálpast að. Meira að segja forseti lýðveldisins virðist hafa tapað áttum. Ég ætla ekki að rekja það allt hér en get þó ekki orða bundist með það að Ögmundi mannréttindaráðherra væri hollt að staldra stundum við og rifja það upp með sjálfum sér hvað hann og hans félagar í stjórnarandstöðunni lögðu til málanna í aðdraganda hrunsins. Þegar það er skoðað var þeirra krafa oftast á þá leið að ríkið ætti að verja meiri fjármunum til velferðarkerfisins en minni. Ríkið ætti að eyða meiru í stað þess að spara og safna sér sjóði til mögru áranna. Samkrull sumra stjórnamálaflokka við ákveðnar viðskiptablokkir virðist ekki hafa verið til bóta og það á jafnt við um ríkisstjórnarflokka sem stjórnarandstöðuflokka. Ábyrgðin virðist því liggja mjög víða og það er í sjálfu sér sorglegt. Nánast allt sem gat brugðist gerði það.

Mannréttindaráðherrann okkar er ekki maður einhamur og hefur komið víða við. Dæmi um það sem hann lagði til málanna má finna á heimasíðu hans frá 15. janúar 2004. Þar greinir hann frá fundi fulltrúa stærstu heildarsamtaka launafólks með trúnaðarmönnum á Landspítala Háskólasjúkrahúsi sem voru að mótmæla stórfelldum niðurskurði á sjúkrahúsinu sem myndi leiða til þess að hátt í 300 einstaklingar myndu missa vinnuna.

Í pistlinum segir hann m.a. frá ávarpi sínu á fundinum þar sem fram kom m.a.:

"Ég hef velt því fyrir mér hvað skýri þessa hrottafengnu aðför að Landspítala háskólasjúkrahúsi, hvort hér geti verið um að ræða mistök. Eða hvort það geti verið að ríkisstjórn og fjárveitingavald hafi haldið að allt muni bjargast einhvern veginn eins og gerst hefur undanfarinn áratug þrátt fyrir erfiðan hallarekstur á þessu stærsta sjúkrahúsi landsins.

Er ekki annars kominn tími til að skoða þennan niðurskurð með hliðsjón af því sem er að gerast í þessu þjóðfélagi og meta þær upphæðir sem ríkisstjórnin neitar heilbrigðiskerfinu um í samhengi við þær milljarða fúlgur sem eru á sveimi í alls kyns braski.

Menn vita sem er að þegar heilsan brestur þá brestur allt, þá verður nánast allt annað í lífinu hégómi einn. Og nú segi ég í nafni félaga í BSRB – í krafti samþykkta og yfirlýsinga frá BSRB fyrr og síðar – við munum ekki í andvara- og aðgerðaleysi horfa uppá þá aðför sem nú er gerð að þessu sjúkrahúsi og þar með öllu því fólki sem hingað leitar til að fá aðhlynningu og bót meina sinna.Við erum reiðubúin að taka þátt í öllu starfi sem snýr að skynsamlegri ráðstöfun fjármuna, við viljum svo sannarlega að ráðdeild sé sýnd. En stjórnendur þurfa jafnframt að sýna sanngirni og framkvæma af yfirvegun. Það er staðreynd að á mörgum sviðum er starfsemin hér verulega undirmönnuð með þeim afleiðingum að fólk býr við of mikið vinnuálag sem síðan kemur niður á starfseminni. Og nú á að herða enn að; eru menn með öllum mjalla? Ég skora á ríkisstjórnina að sýna þann manndóm að endurskoða ákvarðanir sínar, nú þegar fram kemur hve alvarlegar afleiðingar þær hafa í för með sér"

Sem sagt á þessum tíma barðist Mannréttindaráðherrann gegn sparnaði á Landspítalanum og vildi auka útgjöldin til heilbrigðiskerfisins. Hann taldi þá sem leituðu sparnaðarleiða ekki með öllum mjalla.

Hvað gerði Ögmundur þegar hann varð heilbrigðisráðherra? Jú hann var samkvæmur sjálfum sér og dró til baka allar sparnaðarhugmyndir Guðlaugs Þórs og fékk fyrir mikið lof, m.a. í sérstakri yfirlýsingu frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hvað hefur gerst síðan? Það þekkja allir sem fygljast með fréttum og sjá fjöldmótmæli við heilbrigðisstofnanir landsins. Svo notuð séu orð Ögmundar sjálfs má spyrja hvort það geti verið að ríkisstjórnar- og fjárveitingarvald hafi haldið að allt muni bjargast einhvern veginn eins og gerst hefur undanfarinn áratug þrátt fyrir erfiðan hallarekstur. Svo enn séu notuð orð Ögmundar "Það sem mælir gegn þessari kenningu er hins vegar stærðargráðan - hve hátt niðurskurðarsveðjan er nú reidd til höggs".

Nú má vel vera að einhverjir hugsi með sér að þetta sé ósanngjörn upprifjun og aðstæður séu aðrar nú en þegar Ögmundur lét ofangreind orð falla. En er það svo? Það var verið að reyna að takast á við sífellt aukin útgjöld til heilbrigðiskerfisins. Ögmundur vildi auka þau ennþá meira. Núna vitum við það að við eyddum um efni fram. Hefðum við verið í betri aðstöðu ef farið hefði verið eftir tillögum Ögmundar? Í leit sinni að vinsældum ákvað Ögmundur að draga til baka allar sparnaðartillögur fyrri heilbrigðisráðherra. Hverjar eru afleiðingarnar? Í stað þess að bregðast við frestaði hann vandanum og jók hann þar með. Afleiðingin er stórfelldari niðurskurðartillögur til heilbrigðismála en við höfum áður séð.  Eru stjórnvöld með öllum mjalla? -svo enn séu notuð orð Ögmundar.

Fyrr í pistli mínum sagði ég það litlu skila að horfa sífellt til baka og benda á hvað aðrir gerðu margt vitlaust í aðdraganda hrunsins. Það gegnir hins vegar öðru við nú í eftirleiknum. Nú ríður á að halda valdhöfum við efnið og reyna að fá þá til að koma með lausnir sem gagnast þjóðinni sem best. Til þess bauð þetta fólk sig fram til stjórnmálaþátttöku.

Ef Jón Daníelsson hagfræðingur hefur rétt fyrir sér með það að mestan hluta þess tjóns sem rekja megi til efnahagshruns megi rekja til eftirfarandi aðgerða eða aðgerðaleysis eftir hrunið held ég að Ögmundur mannréttindaráðherra ætti að einbeita sér meir að því að finna lausnir við núverandi vanda frekar en að eyða tíma sínum í að benda á hvað margt var illa gert í aðdraganda hrunsins. Að mínu mati á það að vera hlutverk sagnfræðinga og þeirra sem hafa skilgreindu hlutverki þar að gegna eins og t.d. réttarkerfinu.

Hinn gríðarlegi niðurskurður sem nú stendur fyrir dyrum í heilbrigðiskerfinu er meiri en þurft hefði að vera ef fyrr hefði verið gripið í taumana. Með aðgerðarleysi sínu sem heilbrigðisráðherra jók Ögmundur Jónasson þann vanda sem fyrirséður var. Ögmundur mannréttindaráðherra hefur nýlega greitt með því atkvæði að annar ráðherra verði látinn sæta ábyrgð fyrir Landsdómi fyrir að hafa ekki brugðist við fyrirséðum vanda. Hversu samkvæmur skyldi mannréttindaráðherrann vera sjálfum sér?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki thad ad eg skilji hvert ord en tulkadi eftir thvi sem eg hef kynnst hingad til og var huxad til throun danska "velfærdsamfundsins" å 8 åratugnum, hækkunn skatta og heilbrigdisthjonusta handa øllum. personulega finnst mer thad vera nåkvæmlega thad sem island vantar.

vid hækkun skatta koma meiri utgjøld til heimilana, en adeins i formi skatta. utgjøldinn verda jo minni å ødrum svidum thar sem velfærdsamfundet styrkist og ser um landann i heild sinni. okeypis læknathjonusta, nidurgreidsla lyfja og yfir høfud hamingjusamari og heilbrigdari thjod. 

en eg er nottla algjør kommi ;) 

Tinna B. Gudjonsdottir (IP-tala skráð) 27.10.2010 kl. 12:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband