25.10.2010 | 15:29
Er eftirspurn eftir íslenskum forsætisráðherrum?
Í mai 2009 setti ég niður á blað vangaveltur mínar um ríkislaunataxtann og birti á heimasíðu þáverandi vinnuveitanda míns Læknafélags Íslands.
Að undanförnu hefur aftur vaknað upp nokkur umræða um launakjör hjá hinu opinbera og var m.a. ritstjórnargrein í Fréttablaðinu í síðustu viku um málefnið. Af þessu tilefni hef ég ákveðið að birta þessar vangaveltur mínar hér á þessum vettvangi.
"Eins og alþjóð veit er íslensk þjóð í vanda. Valdhafar glíma við erfið verkefni og það skiptir okkur öll miklu að vel takist til í þeirri glímu. Eins og gengur eru skiptar skoðanir um þær leiðir sem valdar eru. Ein leiðin sem hin nýja ríkisstjórn virðist ætla að fara er að breyta launauppbyggingu opinberra starfsmanna. Hin nýja leið felur í sér að forsætisráðherra landsins eigi að hafa hæst laun þeirra sem starfa fyrir hið opinbera. Í því felst að breyta þarf launauppbyggingu opinberra starfsmanna verulega. Ef gæta á innra samræmis milli hópa og taka tillit til menntunar, reynslu og annarra persónulegra eiginleika sem notaðir hafa verið sem mælikvarðar hingað til hlýtur að þurfa að endurskoða það kerfi allt. Væntanlega felur þessi endurskoðun í sér samþjöppun í launastigum þar sem svigrúmið verður minna en áður og raða þarf störfum opinberra starfsmanna á þann hátt að laun þeirra rúmist milli lægstu launa, sem í dag eru nálægt 160.000 kr., og hæstu launa sem í dag eru 935.000 kr., sem eru laun forsætisráðherra. Þessi aðferð mun óhjákvæmilega fela í sér minni launakostnað hjá hinu opinbera þar sem laun allra hópa opinberra starfsmanna hljóta að lækka með þessari aðferðafræði. Það er í sjálfu sér jákvætt fyrir ríkissjóð og mun spara umtalsvert fé sem ekki veitir af. Þessu hefur leiðarahöfundur Morgunblaðsins, meðal annarra, áttað sig á og telur þetta vera eðlilega aðgerð af hálfu stjórnvalda. Hann tekur undir þessa hugmynd ríkisstjórnarinnar gagnrýnislaust en hefur af því mestar áhyggjur hvort hið sama muni ekki örugglega ganga yfir forseta lýðveldisins.
Það er nauðsynlegt markmið hjá hinni nýju ríkisstjórn á þessum erfiðu tímum að minnka útgjöld ríkisins. Kannski er það óhjákvæmilegt að grípa þurfi til ráðstafana sem lækka launakostnað þess opinbera. Molahöfundur leyfir sér hins vegar að efast um að þessi aðferðafræði við að lækka launakostnað ríkisins sé hin rétta.
Það skal viðurkennt að útfærslan hefur ekki verið kynnt nákvæmlega þannig að vel má vera að ríkisstjórnin muni á síðari stigum gera nákvæmari grein fyrir útfærslunni sem leiði til þess að molahöfundi hugnist leiðin betur. En eins og sakir standa er margt sem vekur spurningar.
Forsætisráðherra er alltaf á vaktinni. Laun hans taka mið af því. Laun hans eru því heildarlaun en ekki laun fyrir hefðbundna 40 stunda vinnuviku. Eigi laun forsætisráðherra að vera hæstu laun innan ríkiskerfisins mun það þýða að heildarlaun annarra ríkisstarfsmanna muni þurfa að taka mið af því. Hvernig verður það útfært? Hvernig verða laun vaktavinnustarfsmanna t.d. borin saman við laun forstjóra ríkisstofnana sem ekki þurfa að vinna mikla yfirvinnu? Verða laun deildarlækna og slökkviliðsmanna sem ganga vaktir hærri en laun forstjóra Landspítala og Slökkviliðs? Eða verður það kannski ábyrgðin sem mestu skiptir en ekki vinnutíminn? Eða reynslan? Verður tekið tillit til betri lífeyrisréttinda forsætisráðherra en annarra opinberra starfsmanna þegar heildarkjör verða metin? Þrátt fyrir nýlegar breytingar á lögum um lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra hefur þessi hópur mun betri heildarréttindi en aðrir hópar opinberra starfsmanna, t.d. mun betri makalífeyri. Þá er rétt að halda því til haga að þeir þingmenn og ráðherrar sem ekki eru nýir á þingi hafa undanfarin ár notið umtalsverðra sérkjara sem aðrir opinberir starfsmenn hafa ekki notið. Er þá sanngjarnt nú á erfiðleikatímum að hæsta launaviðmiðið innan opinbera kerfisins eigi að liggja hjá þeim sem hafa verið í þeirri stöðu að safna sér í digra eftirlaunasjóði?
Nú vill molahöfundur ekki draga úr því að vissulega er starf forsætisráðherra mikilvægt, mjög mikilvægt. Molahöfundur trúir því að flestir vilji hæfa manneskju til að gegna því embætti og að eðlilegt sé að launa viðkomandi manneskju vel fyrir að takast þetta vandasama verk á herðar. En hvort það sé eðlilegt að laun fyrir þetta starf séu þau hæstu innan kerfis þess opinbera er ekki sjálfgefið. Kannski eiga laun þessarar manneskju að vera þau hæstu en þá mega þau ekki vera það lág að þau geti verið hamlandi fyrir starfsemi þess opinbera.
Á þeim uppgangstímum sem íslensk þjóð hefur lifað síðast liðin fá ár eru flestir sammála um að launakjör sumra hafi verið úr takti við það sem eðlilegt megi teljast. Því fylgdi þó það ástand að stórir hópar vel menntaðra einstaklinga áttu kost á störfum þar sem laun voru góð þótt þau væru almennt ekki talin úr hófi. Það þótti á þeim tíma jákvætt fyrir íslenskt samfélag m.a. vegna skatttekna til samfélagslegrar neyslu. Þessu ástandi fylgdi þó sá ókostur, að mati sumra, að hið opinbera átti í erfiðleikum með að ná í og halda hæfu starfsfólki. M.a. þess vegna hefur því verið haldið fram að eftirlit og reglusetning hafi ekki verið nægilega góð af hálfu þess opinbera.
Að mati molahöfundar er hætta á því að sama ástand viðhaldist framfylgi ríkisstjórnin ákvörðun sinni um að laun forsætisráðherra skuli verða þau hæstu innan ríkiskerfisins. Þrátt fyrir þau áföll sem dunið hafa yfir eru hæstu laun á almenna markaðinum töluvert hærri en þau laun sem forsætisráðherra hefur nú. Það þýðir að laun sérfræðinga á hinum almenna markaði eru hærri en þau laun sem munu bjóðast sérfræðingum hjá hinu opinbera. Það mun viðhalda því ástandi sem kvartað var undan að hefði átt þátt í því að valda hinni íslensku þjóð því tjóni sem við nú stöndum frammi fyrir.
Burtséð frá ofangreindum vangaveltum má velta því fyrir sér hvort það sé yfirhöfuð eðlilegt að pólitískur starfsmaður ríkisins sé sá hæst launaði. Hvernig er hann valinn? Þarf hann að ganga í gegnum hefðbundið hæfnismat opinberra starfsmanna þar sem sú krafa er gerð að allir sem áhuga hafi geti sótt um opinber störf og að einungis skuli ráða þann hæfasta sem ríkinu stendur til boða? Um þetta eru vissulega skiptar skoðanir. Í morgunútvarpi Bylgjunnar þann 14. maí sl. lýsti Atli Gíslason, þingmaður í öðrum stjórnarflokknum, þeirri skoðun sinni að þingmenn ættu ekki að sækjast eftir þingmennsku vegna launanna heldur af hugsjón. Hvernig fer það saman við það að ákveða að þingmaður sem sækist eftir sæti á þingi og verður síðar ráðherra, jafnvel forsætisráðherra, skuli verða sá starfsmaður ríkisins sem hæst hefur launin? Það er rétt að halda því til haga að ekki eru allir sammála Atla því þingmaðurinn Pétur Blöndal, sem var viðmælandi í sama þætti á Bylgjunni, hélt því fram að til að þjóðin ætti völ á sem best menntuðu fólki til starfa fyrir sig á þingi þyrfti m.a að taka tillit til kostnaðar við nám og námslán sem því fylgdi.
Það verður forvitnilegt að sjá hvernig ríkisstjórnin ætlar að meta nám opinberra starfsmanna til launa. Fyrir liggur að læknar, sem langflestir hafa aflað sér sérfræðimenntunar á eigin kostnað, ljúka almennt 11 til 14 ára háskólanámi. Væntanlega munu þeir þess vegna raðast ofarlega í hinn nýja ríkislaunataxta. Hvernig hvert námsár í háskóla verður metið til launa á enn eftir að koma í ljós. Það liggur þó væntanlega (?) fyrir að lengd háskólanáms mun hafa áhrif á launaröðunina. Hvernig reynsla og aðrir persónulegir eiginleikar verða metnir á eftir að koma í ljós. Þó liggur fyrir að pólitískt starf einstaklinga getur komið til með að borga sig í þessu samhengi jafnvel á kostnað menntunar og reynslu.
Ein hliðin á þessu máli snýr að eftirspurnarhliðinni. Almennt er viðurkennt að laun ákvarðist að nokkru leyti af þeirri eftirspurn sem er eftir viðkomandi starfskröftum. M.a. þess vegna varð ríkið undir í samkeppni um hæfasta starfsfólkið í fjármálageiranum. (Þessi setning er reyndar umdeilanleg í ljósi þess sem gerðist - en þó ekki (þeir sem stýrðu málum í einkageiranum stóðust ekki væntingar og alls ekki þeir sem áttu að hafa eftirlit með þeim)). Til að skýra þetta betur er nærtækt fyrir starfsmann Læknafélags Íslands að bera saman pólitíska starfsmenn ríkisins og lækna. Er mikil eftirspurn erlendis eftir íslenskum þingmönnum eða íslenskum ráðherrum? Er mikil eftirspurn eftir íslenskum læknum erlendis? Til að svara þessari spurningu væri t.d. hægt að telja auglýsingar eftir viðkomandi starfskröftum í opinberum fjölmiðlum og fagtímaritum. Af tillitssemi er það ekki gert.
Ef ríkislaunin mega ekki verða hærri en kr. 935.000 hvernig hafa þá stjórnvöld hugsað sér að halda uppi vaktþjónustu á sviði lækninga? Eins og fjárrmálaráðherra og heilbrigðisráðherra hafa lýst á undanförnum vikum vilja þeir deila byrðunum og vinnunni. Það á að leggja af aukavaktir og það á jafna launin þannig að þeir sem hafa þau hæst eiga að hafa þau lægri. Það er sjálfgefið í jöfnu ríkisstjórnarinnar að hæstu laun mega ekki vera hærri en laun forsætisráðherra. En hverjir eiga þá að vinna vinnuna? Hverjir eiga að taka vaktir lækna þegar þeir hafa fengið laun sem slaga upp í laun forsætisráðherra? Vissulega koma laun lækna til með að lækka þegar boðaður ríkislaunataxti ríkisstjórnarinnar tekur gildi. Það þarf þó ekki mikla umhugsun til að átta sig á því að starfmenn þess opinbera sem þurfa að taka vaktir, m.a. til að halda uppi almannaþjónustu, verða tiltölulega fljótir að rekast upp í járnþak ríksstjórnarinnar um hámarkslaun vegna langs vinnutíma. Hvernig ríkisstjórnin kemur til með að bregðast við því þegar kemur að mönnun læknisstarfa verður fróðlegt að sjá. Ein leiðin er sú að fjölga læknum í viðkomandi sérfræðigrein. Með því verður unnt að manna vaktir með fleiri læknum þannig að enginn þeirra fái greidd laun sem eru hærri en kr. 935.000 á mánuði. Það mun þó ekki spara ríkissjóði neinar fjárhæðir því eins og ástandið er á Íslandi í dag er vandinn ekki endilega fólginn í því að manna dagvinnutímann (amk ekki ennþá) heldur hitt að of fáir læknar eru til staðar til að dreifa byrðum vaktskyldunnar (sem í dag með illu eða góðu gerir marga lækna að hátekjufólki á íslenskan mælikvarða).
Það væri hægt að halda áfram á þessum nótum um nokkurn tíma. Molahöfundur lætur þó nægja að benda á nokkur álitaefni til viðbótar án þess að fjalla sérstaklega um þau.
Er eðlilegt að lækka laun þeirra sem hafa verið ráðnir til starfa á síðustu mánuðum og árum miðað við tilteknar forsendur og hafa jafnvel sleppt hendinni af vel launuðum störfum í útlöndum til að taka við störfum hér á landi? Getur verið að ríkið baki sér skaðabótaábyrgð í slíkum tilvikum?
Mun þessi hugmynd ríkisstjórnarflokkanna um hámark ríkislauna, ef hún verður framkvæmd, hafa áhrif á kjör þeirra verktaka/ráðgjafa sem fengnir hafa verið til verka á síðustu mánuðum? T.d. má nefna sérstakan ráðgjafa frá Frakklandi sem aðstoða á við að finna íslenska sökudólga. Eða verða starfsmenn/ráðgjafar/verktakar af hennar tegund undanþegnir hámarki ríkislaunaþaksins.
Það kemur molahöfundi verulega á óvart hversu gagnrýnislausir íslenskir fjölmiðlar hafa verið á þessar hugmyndir ríkisstjórnarinnar. Molahöfundur kann ekki skýringar á því. Kannski líkar starfsmönnum einkareknu fjölmiðlanna vel við þessar sparnaðartillögur ríkisstjórnarinnar þar sem þeir vonast eftir betri tíð með blóm í haga fyrir hina íslensku þjóð með lækkun launa opinberra starfsmanna. Kannski vilja starfsmenn opinberra fjölmiðla ekki gagnrýna stjórnvöld um of af ótta við að störf þeirra kunni að verða í hættu. Sé svo er þeim vorkunn því vissulega eru störf opinberra starfsmanna í hættu eins og störf annarra launþega. Það hafa stjórnendur þess opinbera þegar sýnt með uppsögn starfsmanna, og þá ekki síst þeirra starfsmanna sem hafa að mati vinnuveitenda sýnt einhvers konar mótþróa í gegnum tíðina.
Rétt er að taka fram að félagar í Læknafélagi Íslands hafa mjög margir lýst því yfir að þeir séu tilbúnir til að taka á sig sambærilegar byrðar og aðrir í þjóðfélaginu. Þeir eru hins vegar ekki tilbúnir til að taka á sig meiri byrðar en aðrir þjóðfélagshópar.
Að lokum er rétt að taka fram að molahöfundur deilir áhyggjum ráðherra ríkisstjórnarinnar um framtíð Íslands og Íslendinga. Af því tilefni er rétt að benda á að á Íslandi eru rétt rúmlega 1000 læknar, yngri en 67 ára, með lækningaleyfi til að þjóna íslensku þjóðinni. Það gerir um 310 320 íbúa á lækni. Á hinum norðurlöndunum er sambærilega tala um 250 til 290 manns. Þar er talinn mikill skortur á læknum. Meðal annars leita þær þjóðir eftir íslenskum læknum".
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 13
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.