19.10.2010 | 16:20
Ísland - land tækifæranna?
Þann 15. október sl. birti John Dizard nokkur athyglisverða grein í Financial Times um ástandið á Íslandi og hvernig brugðist var við því.
Ég er enn að velta greiningu hans fyrir mér en sýnist hann hafa margt til málanna að leggja þótt sjálfsagt sé sumt ofsagt og annað um of einfaldað (?).
Hann segist ekki sammála svartsýnisröddum um framtíð landsins. Hann gengur meira að segja svo langt að segja við lesendur sína að ef Ísland væri á markaði þá ættu þeir að reyna að kaupa það. Hvers vegna skýrist í grein hans þegar hún er lesin lengra.
Hann gerir ekki lítið úr kreppunni hjá okkur. Hann segir hvert það land þar sem 85% af bankakerfinu hrynji á nokkrum dögum vera í vandræðum.
Hann gefur pólitískum valdhöfum ekki háa einkunn, hvorki þeim sem voru við völd í hruninu né þeim sem tóku við af þeim. Hins vegar virðist hann hrifinn af þjóðinni, þjóðfélagsgerðinni og þeim styrk sem felst í þjóðskipulaginu og náttúruauðlindum þeim sem hér finnast.
Hann gengur svo langt að halda því fram, að eftir á að hyggja, mætti ætla að þeir sem höfðu verið valdir til að takast á við vandann hefðu verið valdir úr hópi vanhæfra og óheiðarlegra úr hópi eyjarskeggja. Hann segir það reyndar hafa verið lán í óláni því þessir aðilar hafi ekki haft traust erlendis til að fá langtímalán til að breiða yfir hina íslensku óráðssíu eins og mörgum öðrum þjóðum hafi tekist, amk til skamms tíma - illu heilli. Hann segir þjóðina sjálfa hafa tekið í taumana og svo virðist sem hún hafi meira "common sense" en margir kjörnir fulltrúar hennar.
Hann bendir á að lýðfræðilega standi Íslendingar að mörgu leyti betur en aðrar Evrópuþjóðir. Hér séu íbúar tiltölulega ungir í samanburði við aðrar þjóðir og með mjög hátt menntunar stig. Eftirlaunaþegar séu hlutfallslega fáir.
Hann segir lífeyrissjóðakerfið okkar í raun vera yfirfjármagnað. Fiskveiðiauðlindirnar verði sífellt verðmætari og auki útflutningstekjur. Jarðvarma- og vatnsaflsvirkjanir framleiði fimm sinnum meiri orku en þurfi til heimabrúks - á vistvænan hátt.
Hann segir vissulega við mörg vandamál að glíma. Í því sambandi nefnir hann að þjóðarframleiðsla hafi dregist saman um næstum 7% á síðasta ári og það verði næstum 2% samdráttur á þessu ári. Atvinnuleysi sé um 7% og fall gjaldmiðilsins hafi dregið mjög úr innflutningi. Þá sé fjármögnun íbúðarhúsnæðis í miklum vanda.
Hann er ósammála ríkisstjórninni og AGS um gjaldeyrishöftin. Hann bendir á að ein afleiðingin af hruninu sé sú að nú sé vöruskiptajöfnuður nú um 7% af þjóðarframleiðslunni sem þýðir að með sama áframhaldi ættum við fyrir öllum erlendum skuldum á þremur árum.
Hann bendir á að þrátt fyrir að ýmislegt sé með jákvæðum hætti þá sé þó ennþá óveðursský yfir landinu: Icesave. Í júní 2009 hafi lánlausir íslenskir samningmenn undirritað Icesave samkomulagið með hinum gríðarmiklu skuldbindingum - án skyldu. Hann bendir á að eftir að ríkisstjórninni mistókst að staðfesta samninginn með löggjöf hafi íslenska þjóðin hafnað samningnum með 93% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu. Íslenska þjóðin hafi lesið smáa letrið betur en kjörnir fulltrúar hennar.
Hann bendir á að íslenska bankakerfið var í raun allt fallið og því ekkert að hafa af því umfram það sem gæti falist í þrotabúum bankanna. Hann bendir jafnframt á það að nú líti út fyrir að allt að 90% af Icesave kröfunum fáist til baka úr þrotabúi Landsbankans. Því muni Íslendingar nú geta samið á allt öðrum kjörum en þeim afarkostum sem þeim stóðu til boða þegar skrifað var undir samkomulagið í júní 2009. Í kjölfarið verði hægt að losa um gjaldeyrishöftin.
Þá verði vandamálið of fá fjárfestingartækifæri á Íslandi fyrir lífeyirssjóðina og fjárfesta.
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 13
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.