12.9.2025 | 09:03
Alvöru fjárlög fyrir venjulegt fólk
Þórður Snær Júlíusson framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar fékk birtan pistil með þessu heiti á Visir.is í gær.
Og ég játa.
Ég er einn af þeim ofurríku sem borga skatta í þriðja skattþrepi. Og konan mín borgar skatta í öðru skattþrepi. Og nýtir það ekki til fulls. Þannig að ég sem karl get nýtt hennar vannýtta hluta í öðru skattþrepi til að lækka mína skatta. Þar með græði ég sem karl. Svei því. En við sem hjón erum betur sett saman. Við njótum saman góðs af þessu fyrirkomulagi. Því við berum sameiginlega ábyrgð á sköttum okkar.
Þetta er svokölluð skattaglufa í augum Þórðar Snæs Júlíussonar framkvæmdastjóra þingflokks Samfylkingarinnar, flokks forsætisráðherra Kristrúnar Frostadóttur. Þetta er ekki einu sinni skattastyrkur eins og segir í fjárlagafrumvarpinu - heldur skattaglufa. Ég hef ekki séð þessa orðnotkun áður þannig að kannski er þetta nýyrði. Mér finnst skattastyrkur ágætlega lýsandi þótt mér finnist það ekki ná vel yfir mismunandi útfærslur í skattkerfinu þegar verið er að búa til hvata eða einfaldlega skattleggja með mismunandi hætti eftir aðstæðum fólks. Almennt er þetta gert á málefnalegan og sanngjarnan hátt. Og mér finnst ekki málefnalegt að segja að ef ekki er skattlagt eftir hæstu mögulegu skattprósentu skv. lögum þá felist í því sérstakur skattastyrkur. Skattkerfið okkar er einfaldlega þannig uppbyggt að það tekur tillit til mismunandi aðstæðna fólks.
Þórður Snær Júlíusson kýs að kalla þetta skattaglufu. Í mínum huga er þessi orðnotkun neikvæð. Glufa er eitthvað sem þarf að loka. Glufa í þessu samhengi er bara alls ekki gott. Og auðvitað þarf að útrýma þessum óskunda. Það hljóta allir að sjá. Fyrir utan að það eru 81% sem njóta þessarar glufu karlar eins og Þórður bendir á. Ég hef áður útskýrt að þessi meinloka rithöfunda fjárlagafrumvarpsins er röng. Ætli það geti verið að Þórður Snær Júlíusson, framkvæmdastjóri þingflokks forsætisráðherra, hafi lagt hönd á plóginn?
Þórður Snær; þetta er ekki skattaglufa. Þetta var meðvituð ákvörðun kjörinna alþingismanna á þessum tíma að svona skyldi þetta vera. Já, og þessi heimild hefur verið í tekjuskattslögunum frá 2010.
Í grein sinni fullyrðir Þórður Snær að því hærri sem tekjurnar eru, því meiri verði skattaafslátturinn. Með því er að hann að koma að þeim hughrifum að þeir allra ríkustu njóti ennþá meiri skattaafsláttar en þeir sem eru aðeins minna ríkir. Þetta er beinlínis rangt. Í 4. tl. 1. mgr. 66. gr. l. nr. 90/2003 um tekjuskatt er sett hámark á þá fjárhæð sem unnt er að samnýta. Hámarksfjárhæðin er í dag kr. 3.581.173. Í dag er skatthlutfallið í efsta þrepi 46,29% (þar af tekjuskattur 31,35%). Skatthlutfallið í öðru þrepi er 37,99% (þar af tekjuskattur 23,05%). Á mannamáli þýðir það að ef hjón geta fullnýtt þessa samnýtingarheimild þá greiða þau í skatt af þessar fjárhæð, kr 1.360.488 kr. í stað þess að greiða kr. 1.657.725. Mismunurinn er kr. 297.237. Þannig að hversu tekjuhár sem tekjuhærri makinn er þá njóta hjónin aldrei meira skattahagræðis en sem nemur þessari fjárhæð.
Það er fróðlegt að skoða hvað segir í frumvarpinu sem var lögfest á 150. löggjafarþinginu 2019-2020 um þessar breytingar. Ég tek nokkrar setningar sem dæmi en ekki samfelldan texta:
Tilefni frumvarpsins má meðal annars rekja til stuðnings stjórnvalda við lífskjarasamninga, þ.e. kjarasamninga á almennum vinnumarkaði 2019 til 2022. Um er að ræða aðgerðir sem stutt geta við markmið um stöðugleika í efnahagsmálum og bætt kjör launafólks á almennum vinnumarkaði.
með það að leiðarljósi að auka sérstaklega ráðstöfunartekjur lágtekjuhópa og þeirra sem eru með lægri millitekjur.
Jafnframt að sú vinna fari fram í samráði við aðila vinnumarkaðarins til að tryggja að væntanlegar breytingar skili launafólki og samfélaginu öllu raunverulegum ávinningi.
Þriggja þrepa tekjuskattskerfi tekið upp. Nýtt grunnþrep verður lægra en núverandi grunnþrep en á móti verður nýtt miðþrep lítillega hærra en núverandi grunnþrep.
Dregið úr umfangi samnýtingar skattþrepa með innleiðingu nýs grunnþreps og hækkun skattprósentu miðþreps.
Það er nefnilega það. Með þessum breytingum var m.a. verið að draga úr umfangi samnýtingar skattþrepa sem hafði verið meiri fyrir breytinguna. Á árinu 2019, þegar skattþrepin voru tvö, var hámarks fjárhæðin sem hjón gátu nýtt sér með þessum hætti kr. 4.200.000 á þágildandi verðlagi. Ákvæði um heimild til samnýtingar skattþrepa er búin að vera í tekjuskattslögunum frá árinu 2010 eins og áður er komið fram. Á þessum árum sem liðin eru síðan þetta fyrirkomulag var tekið upp hefur mér vitanlega orðið skattglufa ekki verið notað áður á opinberum vettvangi um heimild til samsköttunar hjóna.
Og nú er þetta orðin skattaglufa sem þarf að loka. Af því að þeir ríkustu fá meiri skattaafslátt eftir því sem þeir eru ríkari að sögn Þórðar Snæs. Annað hvort er Þórður Snær illa að sér um uppbyggingu skattkerfisins og þeirrar staðreyndar að litið er á hjón sem eina fjárhagslega heild skv. íslenskum lögum, eða hann er að þyrla ryki í augu fólks. Ég veit ekki hvort er verra.
Ég var til spjalls um þetta málefni á Bylgjunni í gær. Ég fékk mikil viðbrögð.
Í mig hringdi maður sem ég þekkti engin deili á og spurði mig hvort ég gæti séð af 5 mínútum til að spjalla við sig. Ég samþykkti það.
Hann sagði mér sína sögu. Hann var ánægður með viðtalið en sagði að það hefði vantað í það að tala um einn hóp. Hann og eiginkona hans eiga þrjú börn. Tvö þeirra glíma við ákveðna fötlun sem hefur haft í för með sér að eiginkonan hefur unnið minna en hann meira. Og þau hafa getað nýtt sér þetta úrræði frá því að það var tekið upp. Þ.e. að minnka heildarskattbyrði fjölskyldunnar með því að þau hafa getað nýtt sér þessa samsköttunarheimild. Sem Þórður Snær kallar svo smekklega að þau hafi verið að nýta sér skattaglufu. Nánast eins og þau séu skattsvikarar.
Alvöru fjárlög fyrir venjulegt fólk. Einmitt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 12. september 2025
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.9.): 310
- Sl. sólarhring: 342
- Sl. viku: 1404
- Frá upphafi: 72403
Annað
- Innlit í dag: 272
- Innlit sl. viku: 1239
- Gestir í dag: 264
- IP-tölur í dag: 257
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar