14.2.2023 | 10:55
Hugleiðing Jóns Sigurðssonar (f. 1934, d. 15.1.2023) um hvort verkfall sé frambærilegt vopn í launabaráttu
Hefur ekkert áunnist sl. tæpu 50 ár í fyrirkomulagi kjarabaráttu? Á árinu 1996 var hart tekist á um fyrirhugaðar breytingar á vinnulöggjöfinni. Nánast öll stéttarfélög og mörg önnur hagsmunafélög skiluðu umsögnum til Alþingis með alvarlegum athugasemdum um fyrirliggjandi frumvarp. M.a. skilaði Lagastofnun ítarlegu áliti með margvíslegum ábendingum. Þá voru fjölmargir aðilar kallaðir til funda við félagsmálanefnd um málið til frekari útskýringa. M.a. var ég í þeim hópi fyrir hönd BHM og sáum við marga meinbugi á fyrirhuguðum breytingum. Að lokum var frumvarpið afgreitt af meirihlutanum gegn mjög hörðum andmælum minnihlutans.
Eins og segir í nýjum Landsréttardómi var þó tilgangurinn m.a. með breytingunum sá að bæta samskiptareglur á vinnumarkaði í því augnamiði að auðvelda og einfalda gerð kjarasamninga. Hafi breytingunum verið ætlað að stuðla að friðsamlegum samningum og draga úr átökum á vinnumarkaði og langvinnum vinnustöðvunum með skýrari leikreglum sem ættu að stuðla að frjálsum samningum á vinnumarkaði.
Í þessu samhengi er afar fróðlegt að lesa grein Jóns Sigurðssonar sem birtist í Morgunblaðinu 14. mars 1974. Á þessum tíma sem hann ritaði greinina hafði hann m.a. verið ráðgjafi í fjármálaráðuneytinu, hagsýslustjóri 1966-1967 og ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis 1967-1974.
Við lestur greinarinnar hvarflar sú hugsun óneitanlega að manni að lítið hafi áunnist á þessu sviði frá því að greinin var skrifuð.
Ég hef ritað upp valda kafla úr grein hans, sem er töluvert lengri, og fært stafsetningu til nútímans en aðrar breytingar á texta hef ég ekki gert.
XXXXX
Þegar litið er á launabaráttu allra launþega samtaka sem heild, er hún í eðli sínu pólitísk. Þá er ekki átt við, að hún sé flokkspólitísk, heldur pólitísk að því leyti, að henni verður ekki ráðið til lykta með neinum rökrænum hætti, heldur verður að koma til pólitískt mat, þar sem andstæðir hagsmunir eru vegnir hverjir gegn öðrum. Hér er að nokkru fjallað um tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu, en jafnframt ákveðið, hver skuli vera fjármálalegur styrkur atvinnufyrirtækja. Þá fela ákvarðanir á þessu sviði í sér mikilvægustu forsendur allrar hagþróunar á samningstímanum.
Hvernig sem á þessa baráttu er litið, er öllum aðilum að ágreiningnum nauðsynlegt, að honum verði ráðið til lykta, hverju sinni sem hann rís. Sé það ekki gert án þess að til verkfallsátaka komi, skaðast allir aðilar að málinu, oft mest þeir, sem síst skyldi. Auk þess bitna afleiðingarnar á blásaklausu og óviðkomandi fólki, eins og dæmin sanna.
Eðlilegt er að líta á beitingu verkfalls í upphafi sem neyðarrétt í þeim almenna skilningi, sem því hugtaki er fenginn, þ.e. að hagsmunum eða verðmætum sé þegar svo ber undir heimilt að fórna, sé það nauðsynlegt til að varðveita aðra hagsmuni eða verðmæti, sem eru miklum mun meiri.
Þegar verkalýðsfélög voru að berjast fyrir því, sem nú er litið á sem sjálfsagðan rétt, að geta sest niður við sama borð og atvinnurekendur og samið við þá um kjör félagsmanna sinna, var verið að slást um mannréttindi. Þar voru hagsmunir, sem eru meira virði en svo, að þeir verði metnir til fjár. Þess vegna átti hin almenna regla neyðarréttarins algerlega við. Sú eyðilegging verðmæta og sú röskun, sem verkfallið hafði í för með sér, var réttlætanlegt eins og á stóð til að tryggja verkalýðnum ómetanleg mannréttindi.
Viðhorfið til verkfallsbeitingar sem neyðarréttar við núverandi aðstæður hlýtur að endurskoðast og spurningar að rísa um það, hvort þeir hagsmunir, sem verið er að sækja, séu raunverulega meiri, þegar á heildina er litið en þeir, sem fórnað er með verkfalli. Því verður heldur ekki trúað, að ekki sé finnanleg önnur, greiðari og ódýrari leið til að koma þeim raunhæfu kjarabótum, sem rúmast innan getu hagkerfisins, til skila til þeirra, sem launþegasamtökin telja á hverjum tíma mest þurfandi fyrir slíkar kjarabætur.
Það, sem mestu ræður um þessa bjartsýni, er að vitneskjan um raunverulega afkomu atvinnugreina og þjóðarbúsins til að byggja á raunhæfar ákvarðanir um kjör er nú að verða svo góð, að hún verður að teljast grundvöllur að nýju fyrirkomulagi í þessu efni. Þessi vitneskja er öllum aðilum vinnumarkaðarins aðgengileg og engum á að líðast að starfa eins og svo sé ekki.
Liður í umsköpun ákvarðanatöku á þessu sviði yrði að vera nýtt verksvið og aukið valdsvið sáttasemjara ríkisins til að koma í veg fyrir verkföll og jafnvel skera úr ágreiningi hjá einstökum félögum og innan einhverra marka í heildarsamningum. Meiri háttar ágreiningi þyrfti sáttasemjari að mega skjóta til Alþingis, enda væri þar um að ræða stórpólitískt mál, sem telja verður rökrétt, að Alþingi ráði til lykta eins og stjórnskipun ríkisins gerir ráð fyrir og þegnarnir beygi sig fyrir niðurstöðu þess, hvernig sem þeim líkar, rétt eins og um væri að ræða hegningarlög, skattalög eða lög um almannatryggingar.
Næst á eftir því að víkja sé undan að fást við vandamál er íhaldssemi alltaf auðveldasta viðbragð við þeim. Og það þarf kjark til að snúa af þeirri leið, sem lengi hefur verið gengin. Það er að mínu mati allt of kostnaðarsöm íhaldssemi hjá launþegasamtökum að halda áfram þeirri verkfallsstefnu, sem þau hafa haft uppi. Samfélagið hefur ekki efni á að láta hnefaréttinn ráða til að lykta ágreiningi á þessu sviði fremur en öðrum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggfærslur 14. febrúar 2023
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.9.): 0
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 34
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 28
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar