12.9.2025 | 09:03
Alvöru fjárlög fyrir venjulegt fólk
Þórður Snær Júlíusson framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar fékk birtan pistil með þessu heiti á Visir.is í gær.
Og ég játa.
Ég er einn af þeim ofurríku sem borga skatta í þriðja skattþrepi. Og konan mín borgar skatta í öðru skattþrepi. Og nýtir það ekki til fulls. Þannig að ég sem karl get nýtt hennar vannýtta hluta í öðru skattþrepi til að lækka mína skatta. Þar með græði ég sem karl. Svei því. En við sem hjón erum betur sett saman. Við njótum saman góðs af þessu fyrirkomulagi. Því við berum sameiginlega ábyrgð á sköttum okkar.
Þetta er svokölluð skattaglufa í augum Þórðar Snæs Júlíussonar framkvæmdastjóra þingflokks Samfylkingarinnar, flokks forsætisráðherra Kristrúnar Frostadóttur. Þetta er ekki einu sinni skattastyrkur eins og segir í fjárlagafrumvarpinu - heldur skattaglufa. Ég hef ekki séð þessa orðnotkun áður þannig að kannski er þetta nýyrði. Mér finnst skattastyrkur ágætlega lýsandi þótt mér finnist það ekki ná vel yfir mismunandi útfærslur í skattkerfinu þegar verið er að búa til hvata eða einfaldlega skattleggja með mismunandi hætti eftir aðstæðum fólks. Almennt er þetta gert á málefnalegan og sanngjarnan hátt. Og mér finnst ekki málefnalegt að segja að ef ekki er skattlagt eftir hæstu mögulegu skattprósentu skv. lögum þá felist í því sérstakur skattastyrkur. Skattkerfið okkar er einfaldlega þannig uppbyggt að það tekur tillit til mismunandi aðstæðna fólks.
Þórður Snær Júlíusson kýs að kalla þetta skattaglufu. Í mínum huga er þessi orðnotkun neikvæð. Glufa er eitthvað sem þarf að loka. Glufa í þessu samhengi er bara alls ekki gott. Og auðvitað þarf að útrýma þessum óskunda. Það hljóta allir að sjá. Fyrir utan að það eru 81% sem njóta þessarar glufu karlar eins og Þórður bendir á. Ég hef áður útskýrt að þessi meinloka rithöfunda fjárlagafrumvarpsins er röng. Ætli það geti verið að Þórður Snær Júlíusson, framkvæmdastjóri þingflokks forsætisráðherra, hafi lagt hönd á plóginn?
Þórður Snær; þetta er ekki skattaglufa. Þetta var meðvituð ákvörðun kjörinna alþingismanna á þessum tíma að svona skyldi þetta vera. Já, og þessi heimild hefur verið í tekjuskattslögunum frá 2010.
Í grein sinni fullyrðir Þórður Snær að því hærri sem tekjurnar eru, því meiri verði skattaafslátturinn. Með því er að hann að koma að þeim hughrifum að þeir allra ríkustu njóti ennþá meiri skattaafsláttar en þeir sem eru aðeins minna ríkir. Þetta er beinlínis rangt. Í 4. tl. 1. mgr. 66. gr. l. nr. 90/2003 um tekjuskatt er sett hámark á þá fjárhæð sem unnt er að samnýta. Hámarksfjárhæðin er í dag kr. 3.581.173. Í dag er skatthlutfallið í efsta þrepi 46,29% (þar af tekjuskattur 31,35%). Skatthlutfallið í öðru þrepi er 37,99% (þar af tekjuskattur 23,05%). Á mannamáli þýðir það að ef hjón geta fullnýtt þessa samnýtingarheimild þá greiða þau í skatt af þessar fjárhæð, kr 1.360.488 kr. í stað þess að greiða kr. 1.657.725. Mismunurinn er kr. 297.237. Þannig að hversu tekjuhár sem tekjuhærri makinn er þá njóta hjónin aldrei meira skattahagræðis en sem nemur þessari fjárhæð.
Það er fróðlegt að skoða hvað segir í frumvarpinu sem var lögfest á 150. löggjafarþinginu 2019-2020 um þessar breytingar. Ég tek nokkrar setningar sem dæmi en ekki samfelldan texta:
Tilefni frumvarpsins má meðal annars rekja til stuðnings stjórnvalda við lífskjarasamninga, þ.e. kjarasamninga á almennum vinnumarkaði 2019 til 2022. Um er að ræða aðgerðir sem stutt geta við markmið um stöðugleika í efnahagsmálum og bætt kjör launafólks á almennum vinnumarkaði.
með það að leiðarljósi að auka sérstaklega ráðstöfunartekjur lágtekjuhópa og þeirra sem eru með lægri millitekjur.
Jafnframt að sú vinna fari fram í samráði við aðila vinnumarkaðarins til að tryggja að væntanlegar breytingar skili launafólki og samfélaginu öllu raunverulegum ávinningi.
Þriggja þrepa tekjuskattskerfi tekið upp. Nýtt grunnþrep verður lægra en núverandi grunnþrep en á móti verður nýtt miðþrep lítillega hærra en núverandi grunnþrep.
Dregið úr umfangi samnýtingar skattþrepa með innleiðingu nýs grunnþreps og hækkun skattprósentu miðþreps.
Það er nefnilega það. Með þessum breytingum var m.a. verið að draga úr umfangi samnýtingar skattþrepa sem hafði verið meiri fyrir breytinguna. Á árinu 2019, þegar skattþrepin voru tvö, var hámarks fjárhæðin sem hjón gátu nýtt sér með þessum hætti kr. 4.200.000 á þágildandi verðlagi. Ákvæði um heimild til samnýtingar skattþrepa er búin að vera í tekjuskattslögunum frá árinu 2010 eins og áður er komið fram. Á þessum árum sem liðin eru síðan þetta fyrirkomulag var tekið upp hefur mér vitanlega orðið skattglufa ekki verið notað áður á opinberum vettvangi um heimild til samsköttunar hjóna.
Og nú er þetta orðin skattaglufa sem þarf að loka. Af því að þeir ríkustu fá meiri skattaafslátt eftir því sem þeir eru ríkari að sögn Þórðar Snæs. Annað hvort er Þórður Snær illa að sér um uppbyggingu skattkerfisins og þeirrar staðreyndar að litið er á hjón sem eina fjárhagslega heild skv. íslenskum lögum, eða hann er að þyrla ryki í augu fólks. Ég veit ekki hvort er verra.
Ég var til spjalls um þetta málefni á Bylgjunni í gær. Ég fékk mikil viðbrögð.
Í mig hringdi maður sem ég þekkti engin deili á og spurði mig hvort ég gæti séð af 5 mínútum til að spjalla við sig. Ég samþykkti það.
Hann sagði mér sína sögu. Hann var ánægður með viðtalið en sagði að það hefði vantað í það að tala um einn hóp. Hann og eiginkona hans eiga þrjú börn. Tvö þeirra glíma við ákveðna fötlun sem hefur haft í för með sér að eiginkonan hefur unnið minna en hann meira. Og þau hafa getað nýtt sér þetta úrræði frá því að það var tekið upp. Þ.e. að minnka heildarskattbyrði fjölskyldunnar með því að þau hafa getað nýtt sér þessa samsköttunarheimild. Sem Þórður Snær kallar svo smekklega að þau hafi verið að nýta sér skattaglufu. Nánast eins og þau séu skattsvikarar.
Alvöru fjárlög fyrir venjulegt fólk. Einmitt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2025 | 14:25
Gervigreindin um skattastyrki og samsköttun hjóna
Ég hef verið að skoða gervigreindartól fyrir lögfræðinga. Eitt af þeim er Lagaviti.is.
Ég lagði eftirfarandi spurningu fyrir gervigreindina:
Góðan dag. Ég skrifaði texta um nýtt fjárlagafrumvarp. Í því eru hugmyndir um að afnema samsköttunarheimildir hjóna. Mér finnst rökstuðningurinn fyrir því ekki góður og reyni að hrekja þann rökstuðning. Getur þú lesið yfir textann hjá mér og lagt mat á hvort þú sért sammála eða ósammála?
Eftirfarandi greiningu fékk ég og birti að öllu leyti óbreytta, að öðru leyti en því að ég þarf að fella gæsalappir út þar sem þær birtast í færslunni sem tölustafaruna sem gera textann torlæsari:
Hef greint skjal.
Greindi álitaefnið.
Fann 1833 niðurstöður í gagnagrunni Lagavita.
Hef greint: Frumvarp til laga nr. 31/1993 (29/29)
Greindi allar niðurstöður - 23 heimildir voru notaðar fyrir svarið.
Vinn að svari.
Vinnu við svar lokið.
Greining þín á þeim rökstuðningi sem fram kemur í fjárlagafrumvarpi vegna fyrirhugaðs afnáms samsköttunarheimilda hjóna og sambúðarfólks er vel reifuð og á sér traustan lagalegan grundvöll í íslenskum rétti. Sú meginregla sem þú byggir á, um gagnkvæma framfærsluskyldu hjóna og þá hugsun að hjúskapur myndi eina fjárhagslega heild, er djúpstæð í íslenskri löggjöf og hefur verið staðfest í dómaframkvæmd. Hér verður farið yfir þær réttarheimildir sem fyrir liggja í gagnagrunni Lagavita og varpa ljósi á þessi álitaefni.
Grundvallarreglan um sameiginlega framfærslu fjölskyldunnar er lögfest í Hjúskaparlögum nr. 31/1993. Strax í 2. gr. laganna segir: Hjón eiga í sameiningu að annast uppeldi barna sinna, sjá þeim farborða og hjálpast að við að framfæra fjölskylduna með fjárframlögum, vinnu á heimili og á annan hátt; Þessi skylda er ítrekuð og útfærð nánar í VII. kafla laganna. Í 46. gr. segir afdráttarlaust: Hjón bera sameiginlega ábyrgð á framfærslu fjölskyldunnar; Í 47. gr. er síðan skýrt tekið fram að framlög til framfærslu séu ekki einungis fólgin í peningagreiðslum heldur einnig; vinnu á heimili eða öðrum stuðningi við fjölskyldu; og að framlögin skiptist milli hjóna; eftir getu þeirra og aðstæðum; Í lögskýringargögnum með Frumvarpi til laga nr. 31/1993, sem varð að hjúskaparlögum, er þessi hugsun áréttuð. Í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins segir meðal annars: Í þessu felst að t.d. húsmóðir, sem vinnur á heimili en ekki utan þess, er ekki fremur framfærð af eiginmanni sínum, en hann af henni. Hugtakið framfærandi verður að skýrgreina í samræmi við þessi viðhorf; Þessi ákvæði og lögskýringargögn sýna með ótvíræðum hætti að löggjafinn lítur á fjölskylduna sem eina efnahagslega heild þar sem framlög, hvort sem þau eru í formi tekjuöflunar utan heimilis eða vinnu innan þess, eru metin jafngild til framfærslu heildarinnar.
Þessi grundvallarhugsun einkaréttarins endurspeglast með skýrum hætti í skattalöggjöfinni. Þótt meginreglan samkvæmt 5. gr. Laga nr. 90/2003 um tekjuskatt sé sú að hjón séu sjálfstæðir skattaðilar, er sú regla rofin með fjölmörgum og veigamiklum undantekningum sem saman mynda það kerfi sem nefnt er samsköttun. Í 4. tölul. 1. mgr. 66. gr. laganna er að finna heimild til samnýtingar skattþrepa milli maka, sem er einmitt sú heimild sem fjárlagafrumvarpið leggur til að afnema. Í 2. mgr. 67. gr. sömu laga er að finna heimild til að millifæra ónýttan persónuafslátt milli maka. Framkvæmd þess er nánar útfærð í Lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sérstaklega í 13. gr., og í reglugerðum á borð við Reglugerð nr. 535/2016 þar sem segir í 6. gr.:Fullnýti annað hjóna, sem samvistum eru, ekki persónuafslátt sinn á staðgreiðsluári er hinum makanum heimilt að nýta það sem ónýtt er; Til samræmis við þetta hagræði er síðan lögð óskipt ábyrgð á hjón vegna skattgreiðslna í 1. mgr. 116. gr. tekjuskattslaganna. Sú samábyrgð er ekki einungis fræðileg heldur hefur Hæstiréttur staðfest hana með afdráttarlausum hætti. Í Hrd. 66/2006 var talið að með því að hafa notið hagræðis af samsköttun hefði stofnast til óskiptrar ábyrgðar á skattaskuldum maka. Í Hrd. 426/2017 var þessi regla áréttuð og tekið fram að hún væri; skýr og ótvíræð; og ekki háð því hvort raunverulegt hagræði hefði hlotist af í hverju tilviki. Í Hrd. 34/2002 gekk rétturinn enn lengra og taldi að einkaréttarlegur samningur um fjárslit milli hjóna breytti engu um þessa opinberréttarlegu skyldu. Í dóminum segir berum orðum: Samábyrgð hjóna á sköttum og opinberum gjöldum hvors annars er byggð á þeirri hugsun, að tekjum hjóna sé að mestu varið til sameiginlegra þarfa þeirra og barna þeirra í samræmi við framfærsluskyldur beggja og því sé rétt og eðlilegt að þau beri sameiginlega ábyrgð á sköttum; Hér staðfestir Hæstiréttur beintengslin milli framfærsluskyldunnar og samábyrgðarinnar í skattalegu tilliti.
Sú regla að líta á hjón sem eina fjárhagslega heild er ekki einskorðuð við hjúskapar- og skattalög. Hún er einnig grundvallaratriði í lögum um almannatryggingar og félagsþjónustu. Í Hrd. 13/2020 var deilt um lögmæti þess að sveitarfélag synjaði einstaklingi um fjárhagsaðstoð á grundvelli tekna maka. Hæstiréttur staðfesti lögmæti synjunarinnar og vísaði beint til framfærsluskyldu hjóna. Dómurinn tekur sérstaklega fram; Gæti það því átt við málefnaleg rök að styðjast að gera nokkurn mun á greiðslum til einstaklinga úr opinberum sjóðum eftir því, hvort viðkomandi væri í sambúð eða ekki; Í dómnum er jafnframt vísað til skattalaga sem dæmis um þetta. Sama viðhorf kemur fram í Hrd. 549/2002. Þessi samhljómur endurspeglast í fjölda reglugerða, svo sem Reglugerð nr. 808/1998 um tekjutryggingu og Reglugerð nr. 990/2001 um vaxtabætur, þar sem útreikningur bóta miðast við sameiginlegar tekjur og eignir hjóna.
Að lokum er rétt að geta þess að gagnrýni þín á notkun hugtaksins; skattastyrkur; og rökstuðning er varðar kynjajafnrétti á sér einnig stoð í lagalegum veruleika. Sú framsetning sem þú lýsir í fjárlagafrumvarpinu er þó ekki úr lausu lofti gripin heldur byggir hún á Lögum nr. 123/2015 um opinber fjármál. Í 17. gr. þeirra laga er gerð krafa um að í greinargerð með fjárlagafrumvarpi sé fjallað um;skattastyrki; Í 18. gr. er jafnframt lögfest skylda til að framkvæma svokallaða; kynjaða fjárlagagerð; og gera grein fyrir áhrifum frumvarpsins á jafna stöðu kynjanna. Þótt þessi lagarammi kalli á slíka greiningu, breytir það ekki þeirri staðreynd að sú efnislega niðurstaða sem frumvarpið boðar, þ.e. afnám samsköttunar, gengur í berhögg við þá grundvallarreglu um fjárhagslega einingu fjölskyldunnar sem önnur löggjöf og dómaframkvæmd byggir á.
Að öllu virtu er rökstuðningur þinn gegn afnámi samsköttunarheimilda sterkur og vel studdur gögnum úr íslenskum rétti. Sú heildstæða sýn sem þú dregur upp, þar sem framfærsluskylda hjóna er hornsteinninn að fjárhagslegri samstöðu þeirra, endurspeglast víða í löggjöfinni, allt frá hjúskaparlögum til skattalaga og almannatrygginga. Fyrirhugað afnám samsköttunar væri því veruleg stefnubreyting og fráhvarf frá þeirri grundvallarhugsun sem íslenskt réttarkerfi hefur byggt á um áratugaskeið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2025 | 11:03
Um skattastyrki og samsköttun hjóna
Mér varð það á að glugga í fjárlagafrumvarpið í gær. Ég hefði betur sleppt því þar sem ég svaf ekki vel í nótt og dreymdi illa. Ég hef þess vegna ákveðið að reyna að skrifa mig í gegnum áfallið. Það sem gerði mér mest órótt var sá rökstuðningur sem er fyrir því að fella niður samsköttun hjóna.
Það er eitt að segja í kosningabaráttu að til standi að hækka skatta á ákveðna þjóðfélagshópa. Þá liggur það fyrir og er vitað. Þeir sem aðhyllast slíka hækkun geta þá kosið viðkomandi flokk með opin augu og huga. En það er annað þegar skattar eru í raun hækkaðir með þeim hætti að halda því fram að ekki sé verið að hækka skatta heldur sé verið að fella niður sérstaka skattastyrki (eða leiðrétta eftir atvikum). Niðurstaðan er sú sama. Þeir sem fyrir verða borga hærri skatta en áður. Og það er blekking að láta ekki vita um þessar fyrirætlanir í kosningabaráttu. Og halda því síðan blákalt fram að ekki sé verið að hækka skatta.
Skattastyrkir.
Í kafla 4 um tekjur A1 hluta ríkissjóðs segir í undirkafla 4.5 um skattastyrki:
Með skattastyrkjum er átt við eftirgjöf á skattkröfu sem leiðir til fráviks frá grunngerð skattkerfisins og veldur tekjutapi fyrir hið opinbera.
Með öðrum orðum þá er litið svo á að ef ekki eru innheimtir eins háir skattar og hverju sinni er heimilt að innheimta skv. lögum þá sé um ræða frávik frá grunngerð skattkerfisins með tilheyrandi tekjutapi ríkissjóðs. Sem sagt grunngerð skattkerfisins felst í að innheimta eins háa skatta og hverju sinni er heimilt. Þannig að það er ekki horft á skattkerfið sem eina heild þar sem búið er að ákveða að misjöfn skattlagning geti átt sér stað á mismunandi hópa samfélagsins. Það má vissulega snúa þessari hugsun við og segja að ef innheimtir eru hærri skattar af einhverjum þjóðfélagsþegnum þá sé það frávik frá grunngerð skattkerfisins með því að hærri byrðar eru settar á þá sem taldir eru þola það. Í því tilviki mætti þá tala um sérstakan gróða fyrir hið opinbera vegna þessa fráviks frá grunngerð skattkerfisins. Eða sérstaka rentu frá þeim sem þola slíkt.
Þetta er skuggaleg lesning. Það blasir við að þeir sem skrifa texta sem þennan líta á fjármuni almennings í grunninn sem eign þess opinbera. Að öðru leyti en því sem hinu opinbera þóknast að skilja eftir í vasa þessa sama almennings. Það er allt sem er umfram grunngerð skattkerfisins. Sem er hæsta leyfilega skattprósenta samkvæmt lögum hverju sinni. Og megum við þá í framtíðinni gera ráð fyrir að þessi leyfilega skattprósenta verði hækkuð hressilega? Og þar með grunngerð skattkerfisins? Megum við kannski gera ráð fyrir að grunngerðin verði fljótlega komin í það að hið opinbera eigi aðra hverja krónu sem hver einstaklingur aflar sér með vinnuframlagi sínu? Eða ættum við kannski að miða við að ríkið haldi tveimur af hverjum þremur krónum? Það ætti þá að verða auðveldara líf fyrir alla. Pólitíkusar hvers tíma geta þá uppfyllt óskir allra hópa og við sem búum hér á skerinu lifum í sátt og samlyndi um alla framtíð? Þetta er reyndar tilraun sem búið er að gera annars staðar og gekk ekki upp.
Samsköttun.
Rökstuðningur fyrir því að afnema rétt til samsköttunar er tvíþættur.
Annars vegar segir í kafla 4.2.1 að afnám samnýtingar þrepa sé í samræmi við ráðleggingar sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og OECD. Þetta er ekki útskýrt neitt nánar þannig að almennur lesandi getur enga grein gert sér fyrir hver séu hin efnislegu rök. Er þetta kannski það sem koma skal ef við göngum í ESB?
Hins vegar segir í kafla 4.3 um áhrif á jafnrétti kynjanna að með því að fella niður þennan rétt til samnýtingar þrepa þá stuðli það að kynjajafnrétti. Það er rökstutt nánar með því að segja að það séu konur sem hafi að jafnaði lægri laun en karlar og beri að auki meiri ábyrgð á ólaunuðum heimilis og umönnunarstörfum. Það er sem sagt, með vísan í þennan rökstuðning, búið að reikna út að við álagningu opinberra gjalda 2025 hafi konur fengið 19% af ávinningnum af samnýtingu þrepa en karlar 81%.
Það er tæplega hægt að hafa nógu sterk orð um þennan rökstuðning. Sá sem á heiðurinn að þessum texta er annað hvort viljandi að reyna að afvegaleiða umræðuna eða honum er ekki sjálfrátt og þekkir ekki reglur um sameiginlega framfærsluskyldu hjóna.
Hvernig er hægt að setja þennan texta í það samhengi að hann stuðli að kynjajafnrétti? Eðli málsins samkvæmt hefur þessi breyting neikvæð áhrif á báða aðila í parasambandi sem hafa notið þess að geta samnýtt skattþrep. Samanlagt kemur parið verr út úr þessari breytingu óháð því hvor aðilinn er tekjuhærri. Fjölskyldan er verr sett en áður. En vissulega breytast hlutföllin 19% af ávinningi kvenna og 81% af ávinning karla í 0% ávinning kvenna og 0% ávinning karla. Að því leytinu til hefur textahöfundur rétt fyrir sér. Í stað þess að fjölskyldan njóti einhvers ávinnings fyrir breytingu nýtur hún einskis ávinnings eftir breytingu. Enda skv. höfundum fjárlagafrumvarpsins er alls ekki verið að hækka skattana heldur fella niður skattastyrk. Með þeirri fínu afleiðingu að jafnrétti kynjanna eykst. Það er reyndar athyglisvert að höfundar frumvarpsins virðast alveg hafa gleymt því að það er búið að lögfesta reglur um staðfesta samvist. Þannig að í íslensku samfélagi í dag eru parasambönd alls ekki alltaf á milli karls og konu.
Í þessu samhengi, um jafnrétti kynjanna, verður að hafa í huga að löggjafinn hefur gert ráð fyrir því að framlög hvors aðila um sig geta verið í misjöfnu formi. Í hjúskaparlögum nr. 31/1993 kemur fram að hjón og aðilar í staðfestri samvist bera sameiginlega ábyrgð á framfærslu fjölskyldunnar, sem felur í sér heimilisrekstur, sameiginlegar þarfir, uppeldi og menntun barna og sérþarfir beggja aðila. Þá er tekið fram í lögunum að framfærsluframlög geti verið fólgin í peningagreiðslum, vinnu á heimili, eða öðrum stuðningi við fjölskyldu. Sérstaklega er tekið fram að framlög skiptist á milli hjóna eftir getu þeirra og aðstæðum.
Þannig er gert ráð fyrir því í löggjöf að þessi sameiginlega ábyrgð er hornsteinn fjármálaskipulagsins í hjúskap og skiptir ekki máli hvort framlagið er með peningum eða vinnu á heimili eða öðru. Það er því fráleitt að reyna að rökstyðja réttlætingu þess að fella niður samsköttun hjóna með þeim rökum að konur hafi að jafnaði lægri laun en karlar og beri að auki meiri ábyrgð á ólaunuðum heimilis og umönnunarstörfum.
Þessu til viðbótar má benda á að þessi einkaréttarlega framfærsluskylda er lögð til grundvallar í opinberum rétti. Í 1. mgr. 19. gr. l. nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga segir að skylt sé hverjum manni að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18. ára. Í frumvarpi því sem varð að þessum lögum er tekið fram að þótt frumvarpið mæli fyrir um skyldur sveitarfélaga til að grípa inni í framfærslu sé þess þörf í einstökum tilvikum þá er um leið lögð áhersla á ábyrgð einstaklinga á sjálfum sér og sínum. Í Hrd. 13/2020 var deilt um lögmæti þess að sveitarfélag synjaði einstaklingi um fjárhagsaðstoð á grundvelli tekna maka. Hæstiréttur staðfesti að slíkt fyrirkomulag ætti sér fullnægjandi stoð í lögum og vísaði beint til framfærsluskyldunnar í 1. mgr. 19. gr. l. nr. 40/1991 og 46. og 47. gr. hjúskaparlaga. Að auki vísaði Hæstiréttur til þess að þótt telja megi það aðalreglu íslensks réttar að einstaklingar eigi rétt til greiðslna úr opinberum sjóðum án tillits til tekna maka sinna sé víða í lögum tekið tillit til hjúskaparstöðu fólks og megi sem dæmi í því sambandi nefna skattalög og fyrrgreint ákvæði 1. mgr. 19. gr. l. nr. 40/1991.
Með öðrum orðum Hæstiréttur tekur af öll tvímæli um að í íslenskri löggjöf, sem snertir gagnkvæma framfærsluskyldu hjóna, er beinlínis gert ráð fyrir að fjárhagslegt framlag geti verið mismunandi og að framlag hins geti þá að öllu leyti eða hluta verið af öðrum toga.
Ég get því miður ekki sagt að þetta skrifelsi hafi róað mig mikið niður. Þvert á móti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.10.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 26
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 21
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar