21.7.2021 | 20:24
Maður á sextugsaldri lést úr Covid 19 í gær en hann var hvort sem er með undirliggjandi sjúkdóm.
Þessari hugsun laust í kollinn á mér sl. mánudag þar sem ég lá klæddur í ullarnærföt, liggjandi undir tveimur sængum og hríðskalf. Stöðug hóstaköst og andardráttur ekki góður. Ég fór að velta því fyrir mér hvort verið gæti að ég væri ekki með mín hefðbundnu kvefeinkenni, sem ég fæ reglulega, heldur hefði ég smitast af Covid 19. Það var ekki góð tilhugsun og ég svitnaði meira. Var sú staða komin upp að ég þyrfti að leggjast inná spítala og fá aðstoð við öndun? Mér hefur ekki fundist frásagnir af þeirri lífsreynslu spennandi og vil gjarnan losna við raunhæfa tilraun um hvort ég lifi eina slíka af.
Mér finnst fyrirsögn eins og er á þessum pistli eiginlega ekki koma mér við því hvorki upplifi ég sjálfan mig sem mann á sextugsaldri né mann með undirliggjandi sjúkdóm. En staðreyndirnar segja mér þó að þetta er minn raunveruleiki. Og færi ég þessa leið sem í fyrirsögninni segir myndi ég enda í hugum flestra, annarra en þeirra sem þekkja mig, nákvæmlega svona. Þ.e. enn eitt nafnlaust fórnarlamb Covid 19, en auðvitað var ég með undirliggjandi sjúkdóm. Það var auðvitað skýringin. Einn enn, tölfræði á blaði.
Ég var ekki lítið feginn þegar ég fékk skilaboð um kl. 23:00 að ég væri ekki með Covid 19. Þetta var þá bara þetta venjulega sem ég ætti að geta ráðið við eins og hingað til. En mér var verulega brugðið og þetta voru ekki góðir tímar þar sem ég var kominn í vafa. En af hverju fór ég í Covid test?
Vegna undirliggjandi sjúkdóms fæ ég á fjögurra vikna fresti inngjöf með lyfi til að styrkja ónæmiskerfið. Sú inngjöf er virk í ca 3 vikur. Þannig að fjórðu hverju viku er ónæmiskerfið hjá mér lakara en ella. Það gerist oftar en ekki þessa viku að það fer að snörla í nefinu á mér og ég fæ kvefeinkenni. Stundum, en ekki alltaf, breytist það í fullvaxið kvef. Það hefur gerst að ég hef endað með hita í stuttan tíma þannig að ég þekki einkennin orðið býsna vel.
Síðasta vika var ein af þessum fjórum þegar ónæmiskerfið er lélegra en venjulega. Ég fór í inngjöf á fimmtudeginum en var þá farinn að finna fyrir þessu snörli í nefi. Á föstudeginum var ég fínn og fann ekki fyrir neinu. Aðfaranótt laugardags vaknaði ég um miðja nótt til að taka rútu upp í Landmannalaugar og hlaupa þar Laugaveginn. Þá fann ég fyrir því að ég var farinn að hósta og blótaði því að sjálfsögðu í sand og ösku. En hvað um það þetta var ekkert öðru vísi en venjulega þannig að ég hugsaði ekki meira um það. Fyrr en í hlaupinu sjálfu. Eftir 2 til 3 km upp fyrstu brekkurnar fór ég að finna fyrir því að þetta var að há mér og ég var orðinn alveg kraftlaus eftir rúma 20 km þegar komið var í Álftavatn. Ég kláraði samt hlaupið þótt ég hafi farið heldur hægar yfir en ég ætlaði mér.
Daginn eftir, á sunnudeginum, var ég í fínu standi. Við konan fórum í sund í Hveragerði og fórum Suðurstrandarveginn heim. Fínn dagur. Á mánudag fór ég í vinnu á venjulegum tíma. Um tíuleytið byrjuðu hins vegar nánast óstöðvandi hóstaköst. Þau ágerðust eftir því sem á daginn leið og um tvö leytið fann ég að ég var kominn með heilmikinn hita og hristist og skalf. Ég ákvað því að drífa mig heim, en í ljósi umfjöllunar um fjölgun smita núna allra síðustu daga, ákvað ég einnig að drífa mig í sýnatöku áður en heim væri farið. Einkennin voru vissulega býsna hressileg og komu ansi skyndilega fram fyrir minn smekk. Og sagt er að ef minnsti grunur leikur á um smit þá eigi að bregðast við því eins og um smit sé að ræða þar til það afsannast. Ég taldi reyndar ekki miklar líkur á að ég væri með Covid 19 þar sem allur undanfari var eins og oft áður. En þessi snögga breyting skaut mér skelk í bringu. Eftir á að hyggja þá er líklegasta skýringin á þessari skyndilegu versnun að 55 km utanvegahlaup sé kannski ekki rétta meðalið í þessum aðstæðum.
Ég er tvíbólusettur. En það sem ég les mér til um áhrif bólusetningar á þá sjúklinga sem eru með sjúkdóm eins og ég er með, er að við séum líklega að fá lakari vörn en aðrir. Sumir jafnvel enga. Sérstaklega hef ég séð að lyfin frá Pfizer og Moderna séu þannig samsett að þau gagnist okkur ekki vel.
Ég fékk Pfizer.
Ég styð hertari innanlandsaðgerðir gegn Covid 19.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.9.): 8
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 71
- Frá upphafi: 73065
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 58
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar