29.5.2015 | 16:39
Lífið eftir hjartabrennslu
Þann 24. september sl. fór ég í hjartabrennslu á Landspítalanum. Tilgangurinn var sá að reyna að draga úr gáttatifi sem lýsir sér með óreglulegum hjartslætti. Það er ástand sem getur haft verulega truflandi áhrif á alla hreyfingu og þá sérstaklega úthaldsæfingar. Ég var farinn að detta það oft úr takti að ég þótti vera efnilegur kandídat í aðgerð sem þessa. Aðgerðin gekk vel og því voru væntingar mínar til þess að geta farið að æfa aftur nokkuð góðar. Ég var búinn ræða þessi mál við hjartalæknana mína sem sögðu að svo fremi sem ég hlustaði vel eftir öllum einkennum þá ætti ég að geta hlaupið aftur.
Í byrjun október sl. heimsótti ég bróður minn og fjölskyldu hans til Dúbaí. Það var ferð sem var ákveðin sem nokkurs konar endurhæfingarferð, bæði andlega og líkamlega. Hitastigið þegar ég kom út var um 38 gráður og lækkaði jafnt og þétt þann tíma sem ég dvaldi hjá þeim og var komið niður í 32-33 gráður þegar ég fór. Dálítið heitt til að hlaupa mikið úti en þó mjög gott til að taka rólegar æfingar rétt fyrir rökkurbyrjun. Ég tók mína fyrstu æfingu um tveimur og hálfri viku eftir aðgerðina og hljóp þá 2 km í rólegheitunum. Ég neita því ekki að ég var aðeins stressaður á meðan ég var á hlaupunum og fannst þetta frekar erfitt þótt ég færi hægt. En allt gekk þetta ágætlega og næstu daga tók ég nokkrar 4 -5 km æfingar og náði að auka hraðann smátt og smátt. Fyrr en varði var ég farinn að geta hlaupið um 10 km en fann að ég var ekki tilbúinn í lengri vegalengdir því þá var eins og ég fengi einhvers konar tak í hjartavöðvann og þá var farið að læknisráði og snarhætt.
Þegar ég var búinn að vera úti í um tvær vikur fékk ég símtal frá hlaupafélaganum sem var búinn með þrautseigju og ýtni að útvega okkur pláss í Tókýó maraþoninu sem skyldi hlaupið í febrúar. Tími til umhugsunar var eiginlega ekki fyrir hendi þannig að það varð að hrökkva eða stökkva. Þar sem ég fann að upphaf æfinga hafði í raun gengið betur en ég þorði að vona ákvað ég að slá til og láta skrá mig. Það myndi þá bara koma í ljós hvort ástandið yrði orðið nógu gott til að ná að klára hlaupið eða ekki.
Þegar heim var komið var sett í æfingaprógramm. Til að byrja með voru þetta oftast ekki nema tvær til þrjár æfingar á viku en eftir áramótin reyndi ég sem oftast að taka 4 æfingar. Kílómetra magnið hjá mér var töluvert annað en það sem ég er vanur. Venjulega hef ég hlaupið 100 til 130 km vikulega og jafnvel einstaka vikur upp í 140-150 km. Nú var ég oftast að hlaupa í kringum 60 km og stærsta vikan fyrir Tókýó var 77 km vika. Mér fannst því býsna óljóst fyrirfram við hverju mætti búast í sjálfu maraþonhlaupinu. Til að gera þetta allt saman ennþá óljósara datt okkur félögunum það snjallræði í hug að skrá okkur einnig í Parísar maraþonið sem var á dagskrá 7 vikum eftir Tókýó. Því þurfti að reyna að stilla æfingar og hlaupið í Tókýó þannig af að meiri líkur en minni væru á því að unnt yrði að klára hlaupið í París einnig.
Þegar til kom gekk þetta aldeilis bærilega. Tókýó maraþonið gekk eins og í sögu, ég kláraði á tæplega 3:17 eftir alveg ágætt hlaup. Ég hélt nokkuð jöfnum hraða upp í 25 km en fann þá að annar kálfinn fór að hóta krömpum þannig að ég hægði aðeins á mér eftir það en hélt þó ágætlega hraða allt til loka. Æfingarnar eftir Tókýó maraþonið snerust fyrst og fremst um að komast aftur af stað án þess þó að ætla sér um of. Það gekk ágætlega og ég náði meira að segja einni æfingaviku með 80 km án þess að skaða mig sérstaklega. Það telst þá vera mesta magn í einni viku sem ég hef hlaupið eftir hjartabrennsluna. Parísar maraþonið rúllaði síðan fínt og ég náði að bæta mig um ca þrjár og hálfa mínútu og kláraði á rúmlega 3:13. Þetta hlaup var um margt mjög svipað og í Tókýó, ég hélt jöfnum hraða upp í 25 km en þurfti þá aðeins að hægja á. Hélt samt sama hraðanum frá 25. km og til loka. Sennilega hefur mig skort aðeins meira æfingamagn í lappirnar til að ná að halda út á sama hraða allt til loka.
Hvað varðar Tókýó maraþonið þá er alveg óhætt að uppljóstra því að Japanirnir kunna vel að skipuleggja maraþonhlaup. Fyrir hlaupið voru afar góðar leiðbeiningar um það hvar hlauparar ættu að mæta og skýrt tekið fram að hlauparar kæmust ekki inn á start svæðið nema í gegnum nákvæmlega rétt hlið. Þegar að umræddu hliði var komið kom í ljós að hver einasti hlaupari var látinn ganga í gegnum málmleitarhlið og farangur var settur í gegnumlýsingu. Hér var augljóslega engin áhætta tekin þannig að þeir sem hefðu vafasamar hugmyndir gætu að minnsta kosti ekki tekið neitt með sér inn á svæðið sem gæti skapað hættu. Þrátt fyrir að þátttakendur væru um 35.000 og þyrftu allir að fara í gegnumlýsingu gekk allt bæði hratt og vel fyrir sig. Þegar inná svæðið var komið var auðvelt að nálgast drykki og næringu fyrir þá sem það vildu.
Það var frekar kalt hlaupadaginn, kannski 3-4 gráður um morguninn en fór í ca 6-7 gráður þegar leið á hlaupið. Fyrir startið voru aðeins rigningarskúrir en það hélst nánast þurrt á meðan á hlaupinu stóð. Vindur var ekki mikill þannig að aðstæður voru í raun góðar þótt ég hefði sjálfur kosið að hafa aðeins hlýrra.
Við félagarnir, Bjössi, Unnar og Frikki í Melabúðinni, vorum saman í ráshólfi B. Eins og venjulega rétt fyrir ræsingu í maraþoni var spennan og tilhlökkunin mikil. Minnir mig stundum á síðustu klukkustundirnar fyrir aðfangadag þegar beðið var eftir því að komast í pakkana. En hvað um það, nú var uppskeruhátíðin við það að hefjast. Talið niður, byssuskot, og hlaupið byrjað.
Í upphafi var ansi þröngt og það kom fljótt í ljós að margir keppendur í A hólfinu höfðu augljóslega gefið upp ævintýralega bjartsýna áætlun um hversu hratt þeir ætluðu að ljúka hlaupinu. Fyrstu rúmu 5 km fóru í að zikk zakka framhjá hlaupurum sem voru að hlaupa á hraða sem var allt að því mínútu hægari en það sem við fórum út með. Þannig að ef eitthvað var hægt að gagnrýna við skipulagið þá var það þessi uppröðun. Veit samt ekki hvort það er við mótshaldara að sakast því oft er það svo að keppendur eiga sjálfir að gefa upp áætlaðan lokatíma við skráningu. Sennilega er samt betra fyrirkomulag að keppendum sé einfaldlega raðað í startblokkir miðað við síðasta rauntíma úr maraþonhlaupi fyrir skráningu. Mér hefur amk sjálfum fundist slíkt fyrirkomulag gefa betri raun.
Brautin í hlaupinu er að sumu leyti aðeins sérstök. Að venju er hlaupið framhjá mörgum af merkisstöðum viðkomandi borgar en brautin í Tókýó er í grófum dráttum í laginu eins og kross. Það þýðir að tvisvar er hlaupin löng leið, þegar armar krossins eru hlaupnir, og sama leið hlaupin til baka. Þetta hefur bæði kosti og ókosti í för með sér. Það er verulega gaman að fá tvisvar í hlaupinu tækifæri til að mæta fremstu hlaupurunum og sjá keppnina þeirra á milli. En á sama tíma er það andlega aðeins erfitt að horfa fram á veginn og sjá endalaust mannhafið í báðar áttir og vita að maður eigi eftir langa leið að snúningspunkti og eigi þá eftir að hlaupa sömu leið til baka. En samt. Það er mjög gaman að mæta þeim bestu. Reyndar eiginlega stórmerkilegt. Í fyrsta hópnum eru nefnilega eiginlega allir eins. Allt saman grannir og leggjalangir Afríkubúar og það sjást ekki svipbrigði á þeim. Þeir líða yfir götuna og virðast ekkert hafa fyrir því. Samt eru þeir á hraða sem myndi þýða fyrir mig að ég myndi kastast af hlaupabrettinu eftir örfá hundruð metra. Síðan þegar maður fer eftir smá stund að mæta þeim sem á eftir koma þá fara að koma í ljós alls konar mismunandi útgáfur af fólki. Fólki sem sumt virðist hlaupa með andlitinu, aðrir sem hlaupa skakkir eða nánast út á hlið, fólk sem virðist vera í andaslitrunum og fólk sem virðist eiga þá ósk heitasta að hætta að hlaupa. Þetta er gaman!
Brautin er slétt og fín fyrstu 32-35 km. Eftir það kárnar gamanið nokkuð. Þá er brautin að liðast út á einhvers konar eyjar og því þarf að hlaupa yfir nokkrar brýr. Þær eru allar með nokkurn halla og sú sem er við 40 km markið er býsna löng. Þegar hún er loksins að baki þá er ein eftir til viðbótar. Það fór því heldur lítið fyrir ætluðum endaspretti, eða sennilega er réttara að segja ætlaðri hraðaaukningu. En hvað um það, hlaupið kláraðist á ágætum tíma 3:16:56. Ég hafði vonast eftir að ná undir 3:15 en vissi að miðað við æfingamagnið fyrir hlaupið gæti það orðið tvísýnt. En ég er samt hæst ánægður með hlaupið. Það var ekkert sjálfgefið að ég myndi geta klárað og því gleðst ég yfir því að geta hlaupið aftur maraþon og hafa liðið býsna vel allan tímann.
Það er alveg óhætt að segja að ég hef aldrei upplifað aðrar eins móttökur þegar í mark var komið. Japanska starfsfólkið var alveg einstaklega broshýrt og kátt og lét manni líða eins og sigurvegara. Kossar og knús voru auðfengnir og gleðin beinlínis skein úr öllum andlitum. Keppendur voru leiddir áfram og inn í stærðarinnar hús þar sem búið var að koma farangrinum fyrir með mjög skipulögðum hætti. Þegar hann var kominn í hendurnar var keppendum vísað áfram og inn í risasal þar sem hægt var að fara úr gallanum og í önnur föt. Alveg greinilegt að Japaninn var vel búinn undir að veðrið gæti verið rysjótt og því gott að geta haft keppendur innan dyra að hlaupi loknu. Alveg magnað skipulag og aldrei upplifði maður þrengsli í öllu þessu mannhafi. Japanir fá toppeinkunn frá mér hvað varðar skipulag og undirbúning.
Eftir hlaupið tóku við nokkrir góðir dagar þar sem borgin var skoðuð. Annað er eiginlega ekki hægt þegar búið er að fljúga yfir hálfan hnöttinn til að elta einhverja tiltekna 42 km sem endilega þarf að hlaupa. Við tókum 9 daga í ferðalagið og má eiginlega segja að það fari alveg 2 heilir dagar í að koma sér á milli, fram og til baka. Því höfðum við alls 7 daga til ráðstöfunar í landi sólarinnar og má það varla minna vera. En ég get með góðri samvisku sagt að það er upplifunarinnar virði að hlaupa Tókýó maraþonið.
Þegar heim var komið sagði dagatalið að tæpar 7 vikur væru í maraþonið í París. Það þurfti því að hefja einhvers konar undirbúning strax. Fyrsta vikan var öll notuð í hvíld. Næsta vika var notuð til að byrja rólega, rúmir 50 km og 4 æfingar. Þriðju vikuna var magnið aukið uppí um 75 km og aftur 4 æfingar. Fjórða vikan reyndist verða lengsta vikan með 80 km í 4 æfingum. Þá var það niður tröppunin í viku 5 og æfingamagnið 65 km í fjórum æfingum. Í 6. vikunni var æfingamagnið 40 km í þremur æfingum. Nú var ekki meira hægt að gera annað en að byrja að láta sig hlakka til að heimsækja fögru París.
París. Hvað er eiginlega hægt að segja um París? París. Borg ástarinnar. Borg nautnanna. Borg fegurðarinnar. Borg gleðinnar. Borg fyrir maraþon. Það tók mig reyndar meira en eina ferð að falla fyrir París. Fyrsta ferðin var góð, en ég féll ekki fyrir borginni í þeirri ferð. Í næstu ferð uppgötvaði ég borgina betur og þá féll ég fyrir henni. Síðan hef ég farið nokkrum sinnum og oftar en einu sinni dvalið í viku í senn. Þarna náði ég mínum besta maraþon tíma árið 2011. Þarna varð ég fertugur. Þarna hef ég setið með ástinni minni á Páskadagskvöldi við bakka Signu með rauðvín, osta og brauð. Þarna hef ég borðað heilsteikta gæs með engu nema fjalli af ólívum. Vá hvað það voru góðar ólívur, og gæsin maður! Þarna hef ég setið í garði kóngsins á afmælisdegi og drukkið kampavín. Þarna hef ég verið með börnunum mínum og Möggu minni í dásemdar veðri. Þarna hef ég heimsótt rósrauða danssýningu með góðum vinum. Þarna hef ég verið með góðum hlaupafélögum og glaðst að afloknu hlaupi. París er borgin mín.
Nú hljóp ég Parísarmaraþonið í annað sinn. Þótt ég hafi ekki hlaupið í mjög mörgum borgum hef ég þó nokkurn samanburð. Ég hef hlaupið í Reykjavík, Kaupmannahöfn, London, Tókýó, Nice Cannes og fylgst með hlaupum í Frankfurt, Boston og New York. Af því sem ég hef séð og upplifað jafnast ekkert hlaup á við Parísar maraþonið. Vissulega er eitthvað sérstakt og frábært við alla hina staðina en brautin í París er alveg mögnuð. Að standa á Champs Élysées og sjá Sigurbogann fyrir aftan sig og horfa niður á Concord torgið fyrir framan er alveg magnað. Gatan full af hlaupurum og hátískubúðirnar til hvorrar handar. Önnur eins umgjörð í startinu er vandfundin. Leiðin öll er líka full af einhverju spennandi og flottu að sjá. Torgin og garðarnir, alls staðar fólk að hvetja. Hlaupa niður að Signu og hlaupa meðfram henni, mannfjöldi meðfram brautinni og ofan á brúm sem hlaupið er undir, heyra nafnið kallað með frönskum framburði, Gúnar, sjá Eiffel turninn nálgast smátt og smátt og sjá hann stækka og stækka þar til hann gnæfir yfir manni beint á móti Place du Trocadéro þar sem hlaupaleiðin liggur. Stórkostlegt.
Hlaupið sjálft gekk vel. Ég fór af stað með Agga, Halldóri, Pálmari og Unnari. Startið var alveg einstaklega vel framkvæmt hjá Fransmönnunum. Fyrst voru elítuhlaupararnir ræstir, tveimur mínútum síðar hlauparar í A hólfinu, þar sem við vorum, og nú var það gert þannig að hólfið var tvískipt þannig að fyrst hleyptu þeir af stað hlaupurum á annarri akreininni og síðan hinni og svo koll af kolli. Þetta þýddi að það var aldrei neinn troðningur og frá upphafi náðum við hlaupa á þeim hraða sem við vildum og án nokkurra þrengsla. Ég fylgdi hlaupafélögunum fram að 8. km en sló þá aðeins af. Unnar var fyrir aftan okkur þar sem hann ætlaði sér aðeins hægar. Eftir hlaupið sá ég að þótt ég hefði misst sjónar af félögunum þá var ég aldrei langt á eftir þeim og endaði með að ná í skottið á þeim í restina þar sem mér gekk vel að halda jöfnum hraða. Niðurstaðan varð sú að ég rúllaði skeiðið á 3:13:21 sem er aldeilis frábært. Fyrirfram hafði ég sett markið á að reyna að hlaupa hraðar en í Tókýó og helst að komast undir 3:15. Þar sem þetta gekk eftir og mér leið vel allan tímann get ég ekki sagt annað en að þetta hafi verið fábær upplifun í frábærri borg með frábærum ferðafélögum.
Ég var búinn að nefna að París er borgin mín. Þetta maraþonhlaup var mitt 13. maraþon. Daginn eftir hlaupið, þann 13. apríl bað ég mér eiginkonu í garðinum fyrir framan Louvre safnið. Ég fékk svarið sem ég vonaðist eftir. París er borgin mín, og Þóru.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.5.2015 | 09:25
Með dauðann að leikfangi
Birt í Fréttablaðinu 12. maí 2015.
(Gæsalappir og þankastrik í bloggfærslunni vistuðust ekki).
Hundrað synjað um undanþágu. Þessi fyrirsögn Fréttablaðsins þann 8. maí sl. fangaði augað. Í fréttinni mátti m.a. lesa eftirfarandi: Tvö hundruð hafa fengið undanþágu fyrir myndgreiningu en hundrað veikum verið synjað af undanþágunefnd. Innan gæsalappa í fréttinni er eftirfarandi haft eftir talsmanni viðkomandi stéttarfélags: þeim undanþágum sem er hafnað, þær getum við ekki veitt. Einnig er eftirfarandi haft eftir talsmanninum: Okkur finnst að þessar áhyggjur af stöðunni sem upp er komin hljóti að liggja hjá ráðamönnum. Í fréttinni er einnig haft eftir lækni að staðan sé hrikaleg og að hann óttist afleiðingar verkfalls á Landspítalanum.
Um verkföll, ábyrgð og afleiðingar vinnustöðvunar er hægt að hafa langt mál. Það mál hefur áður verið fært í letur. Röksemdir með og á móti verkfallsréttinum hafa verið ræddar í þaula. En hvernig skyldi þessum hundrað líða sem synjað var um undanþágu? Hvernig skyldi ættingjum þeirra líða? Hvernig skyldi þeim lítast á röksemdirnar? Í sannleika sagt þá held ég að flestir sem lenda í þessari aðstöðu að vera einn af tiltekinni óskilgreindri tölfræði velti lítið fyrir sér víðara samhengi hlutanna. Þar sem viðkomandi hættir allt í einu að vera sjálfstæð persóna með sjálfstæðar þarfir fyrir aðstoð samborgaranna en verður allt í einu hluti af óskilgreindu ópersónugreinanlegu mengi í fyrirsögn í dagblaði. Í þeirra huga snýst málið um þeirra eigið líf, og kannski möguleikann á að fá að lifa því áfram. Þeir sem ekki hafa reynt það á sjálfum sér eða nánum aðstandanda að lifa við dauðans angist geta ekki sett sig í spor hinna, en þeim væri samt hollt að reyna það.
Í innsíðu frétt um sama mál er haft eftir talsmanninum: Þeim undanþágum sem er hafnað, þær getum við ekki veitt. Það er algengt að það sé verið að sækja um undanþágur ótilgreint. Einmitt. Það er sem sagt sett í hendur umsækjenda um undanþágur annars vegar og verkfallsvarða hins vegar að bítast á um hvort umsókn sé svona eða hins segin. Ef annar hvor aðilinn er ekki nógu vandvirkur þá bíður afgreiðslan. Í augum þess sem bíður er annar hvor mögulega með lykilinn að því hvort lífinu lýkur fyrr en seinna. Í fyrirsögn dagblaðsins er viðkomandi samt bara einn af hundrað. Ónafngreindur. Langflestir sem lesa fyrirsögnina hugsa ekki til einstaklingsins eða fjölskyldu hans. Þeir sjá bara fyrirsögn sem vísar til kjarabaráttu. Þeir sjá ekki angistina sem þeir upplifa sem eru svo óheppnir að vera hluti af þessu ónafngreinda mengi. Fæstir upplifa þessa hlið, sem betur fer.
En er það þetta sem við viljum? Óhagræðið sem við sem samfélag höfum samþykkt að verkföll geti og jafnvel eigi að hafa í för með sér, er það alltaf ásættanlegt? Jafnvel þótt það geti kostað mannslíf? Getum við samþykkt að það sé ásættanlegt að deiluaðilar geti reynt að varpa ábyrgð á hinn aðilann í vinnudeilu jafnvel þótt einn og einn deyi þess vegna? Fyrir þann sem eftir lifir er svarið jafnan nei. Sá sem fer hefur ekki atkvæðisrétt okkar megin. Þeir sem í þessu sporum standa hafa oftast ekki afgangsorku til að andæfa málflutningi sem þessum. Því er auðvelt að afgreiða þennan hóp sem tölfræði eða óskilgreint mengi. Fyrirsögn í vinnudeilu.
Í augum þeirra sem eiga sér kannski óljósa framtíð er öll truflun á meðferð sérlega erfið. Ýmsar erfiðar hugsanir og tilfinningar fara af stað. Óvissan, óttinn, biðin, getan til að halda andlitinu gagnvart þeim nánustu, getan til að halda reisn, getan til að leyna þeim nánustu hversu erfið staðan er, getan til að lifa.
Í baráttunni um betri kjör virðumst við hafa samþykkt að næstum allt sé leyfilegt. Líka að taka ákvarðanir fyrir þessar hundrað fjölskyldur. En í þeirra augum eru baráttuaðilar með mikið vald. Vald sem við flest viljum að sé frekar í höndum æðri máttar. Ef öðrum deiluaðila skjöplast getur afleiðingin verið lok lífsins.
Þótt mörgum kunni að þykja það ósanngjarnt ætla ég samt að leyfa mér að setja þá skoðun mína fram að mér finnst það ekki rétt að þeir sem hafa tekið þá ákvörðun að sinna sjúkum geti leyft sér að leggja niður störf í kjarabaráttu. Ég er ekki sannfærður um að rétta kerfið sé það að undanþágunefnd eigi að hafa alræðisvald um það sem gert er, eða ekki gert.
Þarna erum við í augum þessara hundrað að færa allt að því guðum líkt vald í hendur einstaklinga. Sem geta síðan leyft sér að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á líf sjúklinga, sjúklinga sem í þeirra augum eru óskilgreindar andlitslausar persónur í óskilgreindu stærra mengi. Tölfræði. Hundrað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.9.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 36
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 32
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar