Hlaup, heilsa og ferðalög

Fyrr á árinu náði ég því á æfingu að hlaupa þrjátíuþúsundasta kílómetrann frá því að ég fór að hlaupa skipulega á afmælisdaginn minn þann 10. apríl 2008. Ekki hvarflaði það að mér þegar ég byrjaði að ég myndi ná þessum áfanga. Reyndar gerði ég ekkert frekar ráð fyrir því að ég væri yfir höfuð á ferðinni árið 2018 því þegar ég ákvað að reima á mig skóna og fara út og hlaupa þá voru liðin rúm 2 ár frá því að ég greindist með blóðkrabbamein. Ég hef reglulega mætt í eftirlit á 3 til 6 mánaða fresti til að fylgjast með framvindu sjúkdómsins. Fyrst þegar ég greindist fékk ég þær fréttir að erfitt væri að greina nákvæmlega þá tegund sem ég væri með en að útlitið væri ekki endilega bjart. Kannski væri þetta ólæknandi. En um þremur vikum eftir greiningu lá þó fyrir að sjúkdómurinn væri ekki þess eðlis að talað væri um mánaðar lífslíkur heldur væru þær mældar í árum. Það var að sjálfsögðu betra. Til að byrja með mætti ég í eftirlit á 3 til 6 mánaða fresti til að fylgjast með framvindu sjúkdómsins. Eftir nokkur ár fór þetta að venjast betur og þessar heimsóknir trufluðu mig minna. Nú er ég hins vegar farinn að fara í mælingar á um 4 vikna fresti þar sem framganga sjúkdómsins er farin að hafa meiri áhrif á blóðmagn í líkamanum en áður og getuna til að hlaupa.

Á árinu hef ég rekist á tvær góðar greinar um gildi hreyfingar fyrir andlega og líkamlega heilsu. Annars vegar er um að ræða greinina - Hlaupið frá þunglyndi og kvíða - eftir Stefán Gíslason sem birtist á hlaup.is og hins vegar rakst ég á grein um mögulega gagnsemi hreyfingar í baráttunni gegn krabbameinum en slík rannsókn fer nú fram á Gundersen spítalanum í USA.

Ég get amk staðfest að hlaupin hafa gagnast mér mjög vel til að takast á við andleg áföll og erfiðleika. Á hlaupum gefst oft góður tími til að hugleiða og velta fyrir sér stóru spurningum lífsins. Tími sem maður kannski annars myndi síður gefa sér. Að auki er vitað að hreyfing er góð fyrir almenna heilsu og hver veit nema rannsóknin á Gundersen spítalanum leiði í ljós gagnsemi hreyfingar í baráttunni gegn krabbameinum? Komi það í ljós þá er ávinningurinn auðvitað margfaldur. Það að minnsta kosti sakar ekki að hafa það á bak við eyrað ef maður er latur og nennir ekki á æfingu!

Árið 2012 hélt ég að hlaupaferlinum væri lokið þegar ég greindist með gáttatif í hjarta. Um nokkurra mánaða skeið var hjartað ekki í takti og allt var ótrúlega erfitt. Um haustið fór ég í svokallaða rafvendingu sem kom hjartanu aftur í takt. En reglulega datt það úr takti aftur. Stundum komst það í takt með því að taka aukaskammt af lyfjum en stundum þurfti rafvendingu til. En blessunarlega hélt ég áfram að hlaupa. Og á hlaupunum að hugsa. Árið 2013 greindist eiginkona mín með krabbamein. Það var hörð barátta í 14 mánuði sem endaði ekki vel. En áfram hljóp ég. Og áfram hugsaði ég. Eftir að hafa gengið í gegnum þá reynslu að fá tvisvar sinnum alvarlega sjúkdóma og missa eiginkonu úr sjúkdómi þá er ég hreint ekki viss hvernig mér hefði reitt af andlega ef ég hefði ekki fundið hvað hlaupin geta gefið.

En hlaupin geta gefið meira en betri líðan andlega og líkamlega. Félagslegi þátturinn sem getur fylgt hlaupunum er nefnilega ómetanlegur. Það að kynnast öðru fólki með sama áhugamál er dýrmætt. Þarna kynnist maður fólki úr öllum áttum samfélagsins út frá þessu eina áhugamáli. Engu skiptir hvaðan hver kemur eða hvað hver er eða hefur verið eða gerir. Þarna eru einfaldlega allir í sínum spandex galla og á sínum skóm og á sínum forsendum. Annað skiptir ekki máli. Að sjálfsögðu lærir maður margt um þetta samferðafólk eftir því sem samverustundunum á hlaupabrautinni fjölgar. En hin upphaflegu kynni af hverri manneskju eru svo sannarlega sönn og koma fortíðinni ekki við.

En hér með er ekki allt það góða við hlaupin upptalið. Hlaupin eru nefnilega dásamleg aðferð til að ferðast, bæði innanlands og erlendis. Annað hvort í skipulögðum ferðum með hlaupahópnum eða í minni einingum með félögum sem hafa þetta sama áhugamál. Það er nefnilega fátt skemmtilegra en að setjast niður og skoða alla þá milljón möguleika sem til eru á hlaupasviðinu út um allan heim. Sumir eru að eltast við hin svokölluð - sex stóru - maraþon, aðrir eru að eltast við fjallahlaup um víða veröld og enn aðrir að eltast við - skrítin - eða á einhvern hátt öðru vísi hlaup. Í raun eiga allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi ef þeir hafa yfir höfuð áhuga á hlaupum og ferðamennsku. Þá má heldur ekki gleyma þeim góða kosti að láta aðra sjá um alla skipulagninguna ef fólk vill byggja á reynslu annarra.

Sjálfum finnst mér ótrúlegt að hugsa til þess að nú eru rétt rúm þrjú ár frá því að sú hugmynd fæddist að hlaupa maraþon í öllum heimsálfunum 7. Í febrúar 2015 á leið yfir hafið frá því að hlaupa Tókýó maraþonið þá fór ég að velta því fyrir mér að þá um haustið stæði til að hlaupa í Chicago og þá yrði ég búinn að hlaupa maraþon í 3 heimsálfum. Það væri í sjálfu sér bara nokkuð gott en því að láta staðar numið þar? Fyrst að Asía væri búin þá væri alveg eins hægt að finna hlaup í öðrum heimsálfum og safna fleirum. Amk 6 eða kannski jafnvel 7? Þegar heim var komið hófst ég strax handa við að skoða málið og komst auðvitað að því að nánast alls staðar er verið að hlaupa maraþon. Meira að segja á Suðurskautinu. En ekki nóg með að þar sé hægt að finna skipulagt maraþon heldur er hægt að velja á milli tveggja! Að sjálfsögðu eru skipuleggjendur þessara tveggja hlaupa búnir að búa til sérstaka klúbba sem þeir kalla 7 álfu klúbbana. Í öðrum þeirra, Seven Continents club, eru nú 455 karlar og 221 kona og í hinum klúbbnum, The 7 continents marathon club, eru 212 karlar og 59 konur eða samtals 947 manns. En enginn Íslendingur. Það gengur náttúrulega bara alls ekki og þessu þarf að breyta! Ég bar þessa hugmynd undir Unnar hlaupafélaga og vin og við urðum samstundis sammála um það að við skyldum taka verkefnið að okkur fyrir hina íslensku þjóð! En ekki nóg með það heldur eru konur okkar, Þóra og Unnur, að klára sína 6. heimsálfu þarna. Til stóð að við Þóra færum til Afríku árið 2020 þannig að Þóra gæti klárað sína sjöundu heimsálfu þar og þá. En í ljósi framvindu sjúkdómsins hjá mér ákváðum við Þóra að flýta för okkar til Afríku um eitt ár þannig að við ætlum til Madagascar í júní 2019 þannig að ef allt gengur að óskum klárar hún sína sjöundu heimsálfu þá. Það eru líkur á að það verði fríður flokkur Íslendinga sem kemur til með að hlaupa í Madagascar því að nokkrir vinir okkar eru að velta því alvarlega fyrir sér að slást í hópinn!

En aftur að Suðurskautinu. Hlaup á Suðurskautinu þarf að skipuleggja með góðum fyrirvara. Það er 2-3 ára biðlisti til að komast í hlaupið og þetta er ekki alveg eins og venjuleg helgarferð. Þar sem hlaupið er tímasett þann 17. mars nk. þá er farið að hausta á Suðurskautinu. Skipuleggjendur hlaupsins gefa það upp að á þessum tíma sé hitastig frá því að vera 1-2 gráða á celsíus niður í -18 gráður. Þar til viðbótar verði síðan að taka tillit til vindkælingar sem getur verið töluverð. Við komum til með að fara með ísbrjót frá borginni Ushuaia í Argentínu sem sögð er vera syðsta borg veraldar. Næstu 9-10 daga verður ísbrjóturinn okkar heimili og þegar við komum að Suðurskautinu verðum við ferjuð á milli skips og lands á gúmmíbátum. Þetta verður því heljarinnar úthald og mögulega í ansi kuldalegum aðstæðum. Enda fáum við langan lista frá skipuleggjendum hlaupsins um hvernig fatnað og annan búnað við þurfum að taka með okkur. Það var okkur því mikið gleðiefni þegar fyrirtækið 66° Norður bauðst til að styrkja okkur með því að sjá um að útvega þann hlífðarfatnað sem þarf í ferðalag eins og þetta. En frásögn af þessu ævintýri verður eðli málsins ekki sögð í þessum pistli heldur bíður síns tíma.

En nákvæmlega! Eitt það skemmtilega við hlaupin og ferðalög tengd þeim er að skrásetja þau. Með því er auðvelt að rifja upp og endurupplifa ferðirnar aftur og aftur. Því þótt þetta séu raunverulega ógleymanlegar ferðir þá er tíminn nú samt þess eðlis að smátt og smátt vill fenna yfir einstök atriði ef þeim er ekki haldið til haga. Ég hef í gegnum tíðina bloggað töluvert um þessar hlaupferðir og fært í letur ferð til Suður-Afríku 2016, https://garmur.blog.is/blog/garmur/entry/2176198/, ferð til Brisbane í Ástralíu 2017, https://garmur.blog.is/blog/garmur/entry/2203227/, og Mendoza í Argentínu 2018, https://garmur.blog.is/blog/garmur/entry/2217023/ ásamt nokkrum styttri ferðum.


Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Nóv. 2018
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30  

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 68978

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband